„Fólkið verður hreinlega að rísa upp“ – Stjórnmálin, stofnanir og fyrirtæki hafi brugðist og kalla verði til kosninga

„Stjórnmálin hafa brugðist, sveitarfélögin hafa brugðist, atvinnulífið hefur brugðist, Seðlabankinn hefur brugðist og bankakerfið auðvitað líka.“ Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við fréttir Stöðvar 2 í gær. Lífskjarakrísan og húsnæðiskreppan síversnar í hverri viku og hverjum mánuði og drifkraftar þess eru verðhækkanir fyrirtækja og fjárfesta, aðþrengingar stýrivaxta og algert aðgerðaleysi yfirvalda.

„Hér stjórnast allt af taumlausri græðgi, fólkið mætir algerum afgangi og það er ekkert sem er gert til að bregðast við hinum raunverulega grundvallarvanda.“

Ragnar benti réttilega á að Samtök atvinnulífsins, sem fulltrúar fyrirtækjanna í landinu, hafi brugðist í sínum loforðum til stuðnings kjarasamningunum. Það hafi verið sameiginlegt verkefni að ná niður verðbólgu en launafólk tók sannarlega á sig kjaraskerðingar. Uppsöfnuð áhrif verðbólgunnar hafði þá þegar rýrnað launin á milli samninga um meira en launahækkanirnar sem voru samþykktar og áframhaldandi verðbólga, í formi verðhækkana á húsnæðismarkaði og matvörum sem drífa verðbólguna áfram upp, hefur rýrt þau áfram.

Markmiðið með því að ná verðbólgunni niður sagði Ragnar, var að þrýsta á Seðlabankann til að trappa niður stýrivöxtum hratt og örugglega samhliða því. Fyrirtækin hafi ekki tekið þátt í þessu verkefni heldur þvert á móti gert illt verra. „Ekkert af þessu hefur raungerst.“

Ragnar benti jafnframt á að vanskil séu að aukast og horfur séu á mikilli aukningu þeirra í náinni framtíð. Þau „munu birtast í gjaldþroti heimila og fjölda fyrirtækja með tilheyrandi atvinnuleysi“.

Hann sagði endurskoðun kjarasamninga á næsta ári, sem hann hefur nú þegar sagt líklegt í ljósi þess að allar forsendur samninganna séu brostnar, ekki nægja til. Aðgerða sé þörf strax með haustinu. Hann boði því til mótmælaaðgerða á næstunni. „Fólkið verður hreinlega að rísa upp.“

Fátt bendi til þess að þetta ástand muni breytast á komandi vikum eða mánuðum sagði Ragnar. Verkalýðshreyfingin þurfi að sameinast um það að mótmæla ástandinu og þrýsta á að boðað verði til kosninga sem allra fyrst.

Ragnar hefur réttilega áhyggjur af því að með næsta þingi í haust verði áframhald þess sem sjá mátti í byrjun sumars, algert samstöðuleysi og verkleysi ríkisstjórnaflokkanna. Ekki tókst að koma meirihluta fyrir nánast neinum málum nema harkalegum og ómannúðlegum útlendingalögum. Samgönguáætlun var felld, minnstu betrumbætur í húsaleigulögum eins og skylda til skráningar leigusamninga var felld og meira að segja mistókst Sjálfstæðisflokknum að koma í gegn frekari sölu Íslandsbanka.

Það er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn situr áfram í krafti þess eins að forðast í lengstu lög að ganga til kosninga, enda flokkarnir allir vísir til að hrynja í fylgi og í tilfelli Vinstri grænna að þurrkast út af þingi. Engin málefni eða stefnumótun til framtíðar sameinar flokkanna og því er ekki hægt að horfa til þings og ríkisstjórnar fyrir lausnir á þeim gríðarlegu vandamálum sem steðja að íslensku samfélagi. Þau hafa ekki svörin.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí