Ég hef séð fjallstindinn

Skoðun Jóhann Helgi Heiðdal 4. feb 2023

Þann 16. janúar var haldið upp á dag Martin Luther King Jr. í Bandaríkjunum. Ég geri auðvitað bara ráð fyrir því að lesendur viti hver það er og læt því vera að ráðast í almennt yfirlit yfir ævi hans og störf. Allir hafa heyrt I have a dream, og allir Bandaríkjamenn, frá þeim í fínustu jakkafötunum á Wall Street, til þeirra fátækustu við Appalachiafjöll sammælast um mikilvægi hans og hetjuskap, hvernig hann breytti samfélaginu til hins betra. Þetta gerði hann auðvitað í gegnum non-violence, höfnuninni á ofbeldi.

Hér skulum við þó staldra við og skoða málin aðeins nánar. Það er auðvitað rétt að non-violence var afstaða Martin Luther King Jr. En sú afstaða fól engan veginn í sér höfnun á ofbeldi: strategían gekk einmitt út á að sýna borgaralega óhlýðni vegna þess að sannfæringin var sú að það myndi einmitt leiða til gríðarlega mikils ofbeldis – af hálfu yfirvaldsins. Sem varð auðvitað raunin. Mótmæli Martin Luther King Jr. og hinna mörgu hreyfinga sem hann var einn af forystumönnunum fyrir, voru langoftast allt annað en laus við ofbeldi. Alveg þvert á móti. En sannfæringin var sú að með þessu myndi samviska bandarísku þjóðarinnar vakna – þegar hún sæi á svart og hvítu óréttlætið og viðbjóðinn sem yfirvöld stæðu fyrir. Og það myndi svo leiða til breytinga.

Maðurinn sem aðhylltist þessa strategíu er sem sagt maður sem heimsbyggðin öll dáist að. Hann er í heilagri þrenningu með Ghandi og Nelson Mandela í almennum söguskilningi frjálslyndu Vesturlandanna. Börnum er jafnvel kennt að líta á hann sem mikla fyrirmynd. Ég hef a.m.k. aldrei séð neinn gagnrýna hann, eða reyna að færa rök fyrir að barátta hans hafi á einhvern hátt verið röng. Ef einhver bandarískur stjórnmálamaður yrði staðinn að því að gera það yrði hann samstundis að segja af sér, og væri ferill hans búinn.

Þetta tel ég vera nokkuð áhugavert. Af aðallega tvennum ástæðum: í fyrsta lagi var Martin Luther King Jr. ekki einungis baráttumaður fyrir mannréttindum blökkufólks, hann var ekkert síður sósíalisti. Sósíalísk hugmyndafræði hans var drifkraftur baráttunnar. Hann var tekinn af lífi þar sem hann stóð á svölum á móteli í Memphis, 4. apríl 1968. Hvað var hann að gera í Memphis? Hann var að styðja verkfall verkafólks í sorphirðu. Ekki blökkumanna einungis. Allra.

Þetta er eitthvað sem ég tel sérstaklega áhugavert akkúrat núna, í okkar samhengi. En á Íslandi er verkalýðsbarátta í gangi – þrátt fyrir að slíkt fyrirbæri hafi auðvitað lengi vel verið í mikilli lægð. Þetta er auðvitað eitthvað sem ákveðnum háværum öflum í íslensku samfélagi þykir auðvitað mjög hvimleitt. Síður nánast allra íslenskra fjölmiðla (sem eru auðvitað í þeirra eigu) hafa ekkert verið feimnar við að birta fréttir og viðtöl við fólk með þá skoðun. Það er alveg búið að gera það ljóst á mjög háværan hátt að raunveruleg verkalýðsbarátta er eitthvað sem við ættum að forðast með öllum hætti. Og ef í hana stefnir er eitthvað mikið og alvarlegt að – fólkið sem leggur í slíkt er einfaldlega eitthvað veikt á geði.

Nú skil ég alveg að sumir sakni gamla ástandsins, fyrir ekki svo löngu. Það er auðvitað mun betra fyrir þá aðila þegar enginn var með neitt vesen og allir voru vinir yfir kaffi og kleinum.

En ég þykist á sama tíma vita að mun fleiri, sem ekki hafa eins reiðan aðgang að fjölmiðlum, hafi það ekki eins kósý. Það fólk hefur allavega í tvígang með yfirgnæfandi meirihluta í lýðræðislegum kosningum kosið til forystu í verkalýðsfélagi fólk sem ætlar að breyta hlutunum til hins betra fyrir þá sem allra verst hafa það í okkar samfélagi. Og það verður auðvitað ekkert gert með huggulegu kaffiboði.

Hetjan Martin Luther King Jr. áorkaði ekki nokkrum sköpuðum hlut með kurteisi. Það er einfaldlega sannleikurinn um borgararéttindahreyfingu- og verkalýðsbaráttu Bandaríkjanna. Ekkert frekar en neinn verkalýðsforingi sem áorkaði einhverju til hins betra í gervallri sögu heimsins.

Nú örfáum vikum eftir að við minnumst King, mæli ég einnig með því með því að við reynum að lofsyngja, dást að og styðja fólkið sem stendur einnig í verkalýðsbaráttu, akkúrat hér og nú, fyrir framan augu okkar, að minnsta kosti bara pínu lítið á sama hátt og við gerum við sögulegar persónur sem eru löngu dánar og stóðu í baráttu sem eru löngu liðnar í allt öðrum löndum.

Það minnsta sem hægt er að gera er allavega að reyna ekki að gera illmenni úr þeim sem eru að reyna að breyta kjörum fólks til betri vegar. Sagan dæmir slíkt fólk ekkert sérstaklega vel, eins og allir aðdáendur Martin Luther King Jr. ættu að vita fullvel.

Verkalýðsbarátta Eflingar er einfaldlega réttum megin í sögunni. Og það sem fólk ætti að spyrja sig að er þetta: er ég það líka?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí