Þau héldu að róttæk stéttabarátta væri liðin tíð

Skoðun Andri Sigurðsson 2. feb 2023

Það er alltaf gagnlegt þegar kapítalistar koma fram og sýna okkur nákvæmlega hvernig þeir hugsa. Þeir héldu, eins og Sólveig Anna sagði í Rauða borðinu í gær, að tími raunverulegrar stéttabaráttu væri liðinn og slík barátta væri „úrelt“. Hérna er vísað í orð þingmanns Sjálfstæðisflokksins og kapítalistann Guð­rúnu Haf­steins­dótt­ur. Hún bætti því við að henni fyndist baráttan aðeins snúast um “átök átakanna vegna”. 

Hvaða gagn ætti verkafólk í Eflingu að hafa af átökum ef ekki einmitt til þess að berjast fyrir réttlátari kjörum og auknum réttindum? Auðstéttin vill mála upp þá mynd að Efling sé í raun ekki að vinna fyrir félagsfólk heldur stundi aðeins einhverskonar tilgangslausa og frekjulega skemmdarverka starfsemi til þess eins að eyðileggja, skapa ófrið, og setja allt á annan endann.

Guðrún er langt frá því að vera ein um þessa teiknimyndalegu nálgun en undanfarna daga höfum við séð hvernig hægrið og gamlir hægri-kratar hafa lýst svipuðum skoðunum. Sömu hugmyndir má lesa í viðskiptadálkum blaðanna. Guðrún vill auðvitað freista þess að tala niður baráttuna en þessar skoðanir eru líka vísanir í tíunda áratuginn og nýfrjálshyggjutímann og þá von hægrisins að róttæk stéttabarátta og sósíalismi hefðu á einhvern hátt runnið sitt skeið og saga stéttabaráttu væri komin á leiðarenda. Auðvaldið myndi auðvitað ekki vilja neitt meira en að róttæk stéttabarátta væri horfin úr samfélaginu.

Þetta er einmitt og nákvæmlega rót þeirrar baráttu sem Baráttulistinn í Eflingu stendur fyrir og Sólveig Anna sjálf. Að endurlífga róttæka og raunverulega stéttabaráttu byggða á stéttahugtakinu og hafna SALEK-hugmyndafræðinni, stofnanavæðingu, og stéttasamvinnu kratanna sem hafa stýrt ASÍ undanfarna áratugi. Fólksins sem búið var að fallast á hugmyndafræði hægrisins um endalok sögunnar.Hugsið ykkur bara ef Ólöf Helga, Gabríel Benjamín og hitt millistéttarfólkið á skrifstofunni hefði tekist að sigra kosninguna í Eflingu í fyrra. Þá væru engin verkföll núna, engin barátta fyrir efnahagslegu réttlæti. Bara Vilhjálmur Birgisson skælbrosandi með stéttasamvinnu samninga sem eru langt komnir með að brenna upp á verðbólgubáli. Ef þeir eru það ekki nú þegar.

Á meðan kapítalisminn er enn til verður alltaf þörf á róttækri stéttabaráttu sem hafnar samvinnu við atvinnurekendur. Þetta er það sem baráttan snýst um.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí