Við viljum góðan og sanngjarnan samning til 3 ára

Skoðun Sólveig Anna Jónsdóttir 27. nóv 2022

Um sumt er einfaldlega ekki hægt að deila. Hér eru nokkur slík atriði:

Samfélag okkar er vellauðugt. Hagnaður stóru viðskiptabankanna hefur verið stórfenglegur: Á síðasta ári högnuðust þeir um meira en 80 milljarða. Hagnaðurinn verður enn meiri þegar 2022 verður gert upp. Stórkostlegur hagnaður var á síðasta ári í fyrirtækjarekstri og þetta ár verður enn magnaðra. Meðallaun forstjóra þeirra fyrirtækja sem að skráð eru í kauphöllinni voru á síðasta ári tæpar 6 milljónir. Frá árinu 2020 til ársins 2021 hækkuðu mánaðarlaun þeirra um 440.000 krónur. Ráðherrar eru með um það bil 2.200.000 krónur í mánaðarlaun. Frá því árið 2016 hafa laun þeirra hækkað um 974.000 krónur.

Verðbólgan sem við upplifum er að stærstum hluta innflutt, tilkomin vegna innrásar Rússa í Úkraínu og vegna afleiðinga faraldursins sem reið yfir heimsbyggðina. Einnig er verðbólga vegna galinnar afstöðu yfirstéttarinnar til húsnæðismála, en pólitísk og efnahagsleg valdastétt hefur ekki litið á húsnæði sem grundvallarþörf almennings heldur sem gróðauppsprettu fyrir efnahagslega forréttindahópa. Með sturluðum afleiðingum, sérstaklega fyrir láglaunafólks. Þess ber þá að geta að árið 2009 voru 63,4% Eflingarfélaga í eigin húsnæði en nú aðeins 38%. Rétt tæp 50% Eflingarfélaga eru á leigumarkaði og greiða þar með stóran hluta sinna ráðstöfunartekna til annarra. Það er ein af ástæðunum fyrir því að 65% Eflingarkvenna hafa frekar miklar eða mjög miklar fjárhagsáhyggjur. Önnur ástæða er auðvitað launin sem að þær fá greidd, en sökum þess hve launin eru lág á okkar rándýra landi búa þær við viðvarandi hallarekstur á heimilum sínum, sem kemur niður á þeim og börnum þeirra.

Laun Eflingarfélaga eru ekki orsök verðbólgunnar sem við búum við um þessar mundir. Lág laun og yfirgengilegt álag fjölmenns hóps á vinnumarkaði eru aftur á móti orsök vanlíðunar og erfiðleika sem leiða til heilsubrests. Það er til dæmis óumdeilanlegt að lífslíkur kvenna sem staðsettar eru neðarlega í efnahagslegu stigveldi jafnréttisparadísarinnar fara minnkandi. Ómenntaðar konur sem látnar eru vinna á samræmdum útsölumarkaði arðránsins fá það í bónus að sjá lífslíkur sínar minnka. Það er magnaður árangur á kvenfrelsiseyjunni okkar.

Allt sem hér hefur upp verið talið er óumdeilanlegt.

Samninganefnd Eflingar hugleiddi öll þessi atriði og fjölmörg önnur þegar hún vann að kröfugerð félagsins. Um þá kröfugerð sem við að lokum samþykktum var algjör eining. Meðal annars um tímalengd þess samnings sem við viljum gera við atvinnurekendur. Við viljum gera þriggja ára samning þar sem að hækkun launa verði við lok samningstímans 167.000 krónur. Hvers vegna leggur samninganefnd Eflingar mikla áherslu á 3 ára samning? Jú, vegna þess að Eflingar-fólk vill stöðugleika í líf sitt. Eflingar-fólk vill vita hvað bíður þeirra fjárhagslega. Á fjárhagslegur stöðugleiki að vera einkaréttur þeirra betur settu? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þegar að staða fjölmenns hóps Eflingar-fólks er skoðuð koma í ljós útbreiddar og viðvarandi fjárhagsáhyggjur. Viðvarandi áhyggjur sem að leiða til skertrar hamingju, skerts svefns, streitu og vanlíðunar. Og svo heilsuleysis og svo minnkandi lífslíkur.

Það er óumdeilanlegt að Ísland er ríkt land. Það er óumdeilanlegt að stórir hópar hér hafa það stórkostlega gott í efnahagslegum skilningi. Það fólk þarf aldrei að hafa áhyggjur af peningum. Það á sitt eigið góða húsnæði. Það fer til útlanda að skemmta sér hvenær sem því dettur í hug. Börn þeirra líða aldrei skort og hafa aðgang að öllum lífsins gæðum. Og það er óumdeilanlegt að stór hópur Eflingar-félaga hefur það slæmt, nær aldrei endum saman, þarf að neita sér um sjálfsagða hluti og þarf að neita börnum sínum um sjálfsagða hluti.

Í mínum huga er þetta ógeðslegt. Óásættanlegt. Þess vegna ætla ég ásamt félögum mínum í samninganefnd Eflingar að gera góðan samning til þriggja ára fyrir Eflingarfélaga. Þrátt fyrir að forsætisráðherra, með 2.200.000 milljónir á mánuði, segi okkur að óvissa heimsmála sé þannig að best sé fyrir okkur að sættast á efnahagslegan óstöðugleika fyrir hönd félaga okkar. Þrátt fyrir að framkvæmdarstjóri SA segi slíkt hið sama. Og fjölmargir aðrir. Samninganefnd Eflingar ætlar að gera góðan kjarasamning sem byggir á okkar góðu og skynsömu kröfugerð, kröfugerð sem vinnur gegn ójöfnuði. Við ætlum að berjast fyrir langtímahagsmunum okkar félaga. Þau knýja áfram hjól atvinnulífsins með vinnu sinni. Þau axla ábyrgð á umönnunarkerfum þeim sem við öll notum og treystum á. Þau eru ómissandi fólk í þjóðhagslegum skilningi og ef að einhver heldur að þau ætli að fórna sínum efnahagslegu hagsmunum svo að yfirstéttin geti tekið til sín allan gróðann af vinnu vinnuaflsins þá er það stórkostlegur misskilningur. Og við munum leiðrétta hann.

Forsætisráðherra sagði í vikunni sem leið að það væri hagur allra að friður héldist á vinnumarkaði. Ég vildi óska þess að hún hefði frekar sagt að það væri augljós hagur alls samfélagsins að verka og láglaunafólk, vinnuaflið sem að býr til auðinn sem að hún og fólk í hennar þjóðfélagsstöðu byggja sitt fordæmalausa góðæri á, fengi hratt og örugglega innistæðu sína hjá auðvaldinu. Slíkt væri öruggasta leiðin til að koma á friði á vinnumarkaði. En hún hefur því miður ekki þá skoðun. En það breytir engu um afstöðu okkar í samninganefnd Eflingar. Við vitum að við erum ómissandi. Við þekkjum mátt samstöðunnar. Við erum óhrædd. Og við ætlum okkur að berjast eins og þarf fyrir því að félagar okkar fái það sem þau eiga skilið; góðan og sanngjarnan samning til 3 ára.

Ég vona að þið sem þetta lesið viljið leggja okkur lið í baráttunni. Ég veit að við munum þurfa á stuðningi að halda. Ég vona að við getum sameinast í baráttunni fyrir jöfnuði. Eins og Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, sagði í vikunni þegar að hann ræddi skertar lífslíkur ómenntaðra kvenna: „Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt og fyrir vikið verðum við að leggja áherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu“.

Stöndum saman, berjumst fyrir jöfnuði og stöðugleika í lífi vinnuaflsins og við munum uppskera betra samfélag, öllum til hagsbóta. Ef að við berjumst ekki fyrir bættum kjörum verka og láglaunafólks erum við að samþykkja stéttaskiptingu og misskiptingu. Og það ætlum við í samninganefnd Eflingar aldrei að gera.

Greinin er af Facebook-vegg Sólveiga Önnu. Myndin er úr verkfalli Eflingar í Reykjavík.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí