Zoom leiðbeiningar

Allir þættir Samstöðvarinnar fara fram í Zoom fundarkerfinu. Kostur þess er að mun stærri og fjölbreyttari hópur hefur tök á að taka þátt í umræðum stöðvarinnar en ókosturinn er helst sá að það kemur niður á gæðum útsendinga í samanburði við upptökur í myndveri.

Hér eru nokkrar einfaldar leiðbeiningar fyrir þátttakendur til að gæta að því að hljóð og mynd sé eins og best verður á kosið, fyrir og á meðan útsendingu stendur.

1. Tenging

Til að tengjast Zoom fundi þarf aðeins að smella á hlekkinn, sem þér hefur verið sendur, til að tengjast fundinum. Ef þú hefur ekki sett upp Zoom forritið áður, þarf að fylgja leiðbeiningum sem koma á skjáinn, við uppsentingu forritsins, áður en tengst er fundinum.

Ef hlekkurinn virkar ekki, er hægt að fara á zoom.us/join eða ræsa Zoom forritið og slá inn númer fundarins, sem fylgir fundarboðinu (sama númer og talnarunan aftast í hlekknum).

2. Hljóð

Til að tengjast hjóði þarftu að muna að ýta á hljóðnemaíkonið neðst í vinstra horni Zoom gluggans. Þar getur þú slökkt og kveikt á hljóðnemanum á meðan fundi stendur.

Æskilegt er að hafa heyrnatól, hvort heldur þau hafa innbyggðan hljóðnema eða ekki.

Mið mælum með að fólk prófi hvort hljóðið skili sér með fullnægjandi hætti með því að ýta á örina við hlið hljóðnemaíkonsins neðst í vinstra horni Zoom gluggans og velja “Test speaker and microphone…” og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar birtast.

3. Lýsing

Reyna að hafa bjart. Sé bjart úti er æskilegt að snúa að glugga frekar en frá honum, að ljósið sé að þér en ekki fyrir aftan þig.

Sé notast við lampa, er best að birtan beinist sem mest að andlitinu.

4. Mynd

Hafi ekki kviknað sjálfkrafa á myndavélinni þegar þú opnaðir fundinn, þarftu að ýta á skjáíkonið neðst í vinstra horni Zoom gluggans til að kveikja á henni.

Gættu þess að þú sért í miðri mynd, ekki of nálægt og ekki of langt frá myndavélinni.

Sértu með síma, snúðu honum þannig að myndin sé lárétt, ekki upprétt, til að gæta samræmis við aðra sem á fundinum eru.


Endurræsa

Það er orðið fágætara en áður að tölvur eða snjalltæki þurfi endurræsingu, en enn er það svo að ef eitthvað virkar ekki eins og fólk á að venjast í þessum tækjum, þá er besta fyrsta skref að endurræsa búnaðinn og prófa aftur.

Gangi þér vel!

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí