Afhverju kýs ég Sósíalistaflokkinn?

Skoðun Sólveig Anna Jónsdóttir 27. nóv 2024

Í gær var mér boðið að segja frá því afhverju ég kýs Sósíalistaflokkinn, í aðdraganda leiðtogakappræðna Heimildarinnar. Ég deili með ykkur því sem ég sagði:

Komið þið sæl, kæru fundargestir. Ég var beðin að segja nokkur orð sem stuðningsmaður Sósíalistaflokksins, og lýsa því fyrir ykkur hvers vegna ég kýs flokkinn.

Ég vil búa í samfélagi þar sem að við berjumst sameinuð gegn stéttaskiptingu og misskiptingu. Ég vil búa í samfélagi þar sem við samþykkjum ekki að sum börn vaxi upp í köldum skugga fátæktarinnar, heldur stöndum saman og tryggjum öllum börnum okkar vellauðuga þjóðfélags góð og innihaldsrík tilveruskilyrði.

Ég vil búa í samfélagi þar sem að grundvallarhlutverk ríkisins er að tryggja sem mestan jöfnuð á milli borgaranna, ekki endalaus undirgefni við auðstéttina.

Ég vil búa í samfélagi þar sem skipting verðmætanna er réttlát og jöfn. Í slíku samfélagi er öllu fólk gert kleyft að vaxa og dafna, og rækta hæfileika sína.

Ég vil búa í samfélagi þar sem enginn þarf að kvíða því að komast á efri ár vegna eignaleysis eða lélegra lífeyrisréttinda, þar sem að allir eldri borgarar geta átt örugg og góð efri ár, rólegir í þeirri vissu að samfélagið er þeim þakklátt fyrir framlag þeirra.

Ég vil búa í samfélagi þar sem að við leggjum áherslu á hagsmuni vinnuaflsins. Þar sem að við sýnum verkafólki virðingu og viðurkennum að vinna þeirra skapar verðmætin.

Ég vil búa í samfélagi þar sem að mikilvægustu gildin eru samhygð og samvinna, samstaða og skilningur á milli fólks.

Ég ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn vegna þess að ég hafna því að arðránið sé ekkert annað en sjálfsagður og eðlilegur hlutur í mannlegum samskiptum. Ég hafna því að grimmd og kaldlyndi gagnvart öðru fólki í nafni gróða sé skynsamleg niðurstaða mála. Ég hafna því að skert samhyggð kapítalismans sé einfaldlega eitthvað sem við verðum að sætta okkur við, einhverskonar náttúrulögmál.

Ég ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn vegna þess að ég hafna því að það sé bara persónulegt vandamál fólks ef að það er á fast á leigumarkaði, eitthvað sem að okkur hinum kemur ekkert við. Ég hafna því að það sé ásættanlegt ástand að auðfólk kaupi upp íbúðir á meðan fullvinnandi kona, ein af okkar ómissandi konum í umönnunarstarfi, þarf að borga 70% af sínum ráðstöfunartekjum til að tryggja sér og börnum sínum þak yfir höfuðið. Ég hafna því að eina hlutverk þessarar konu sé að vinna og vinna og afhenda svo öðru fólki allar sínar tekjur, að hún geti ekki notið afraksturs vinnunnar með börnum sínum í gleði og ánægju.

Ég kýs Sósíalistaflokkinn vegna þess að ég veit hvað ég vil og hverju ég hafna. Ég vil réttlæti og raunverulegt frelsi í mannlegum samskiptum, ekki falskt frelsi nýfrjálshyggjunnar. Raunverulegt frelsi þar sem að fólk leggur til eftir getu og uppsker eftir þörfum, raunverulegt efnahagslegt frelsi þar sem fólk fær að njóta afraksturs vinnu sinnar, fær að strjúka um frjálst höfuð, öruggt í þeirri vitneskju að við hjálpumst öll að og stöndum öll saman í því að tryggja öllu fólki mannsæmandi tilveruskilyrði. Ég hafna mótsögnum og andstæðum nýfrjálshyggjunnar og kapítalismans, ég hafna hamsleysinu og yfirganginum sem við vitum öll að leiðir ávallt yfir okkur uppnám, kreppur og endalaus vandamál.

Ég hafna því að stjórnmálin séu ekkert meira en stjórnsýsla auðstéttarinnar; ég trúi á mátt stjórnmálanna til að stjórna í þágu almennings.

Ég set fram kröfu um alvöru velferð. Kröfu um raunverulegan jöfnuð. Ég set fram kröfu um raunverulegt frelsi; frelsi undan fátækt, frelsi undan lamandi kvíða allsleysisins, frelsi frá óöryggi hins manngerða skorts mitt í öllum auðæfunum. Ég set fram kröfu um frelsi undan sjúkri gróðakröfu fjármagnsins sem að ríkir yfir okkur öllum, falsguðinn sem við eigum öll að hafna og neita að trúa á.

Ég vil búa í samfélagi þar sem að þarfir fólks, ekki fjármagns, eru í fyrsta sæti. Ég veit í hjarta mínu að hlutirnir verða að breytast. Og ég trúi því að þeir geti gert það. Ég hef sjálf tekið þátt í því að breyta hlutum og ég veit að ef fólk stendur saman er hægt að ná árangri. Ég brenn af löngun til að búa í réttlátu samfélagi efnahagslegs jöfnuður og þess vegna ætla ég að kjósa Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Sósíalistaflokkinn í Alþingiskosningunum 30. nóvember.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí