Búsetuúrræði dómsmálaráðherra: Vanhugsaðar fangageymslur fyrir fólk á flótta

Skoðun Helen Ólafsdóttir 2. sep 2023

„Búsetuúrræði“ sagði ráðherrann margoft í Kastljósi þegar hún talaði um að byggja einhvers konar búðir fyrir flóttafólk sem hefur verið neitað um vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum og á að senda úr landi, en svo lét hún út úr sér raunverulega orðið á ensku: „já eða sko … detention centre“.

Illa undirbúin lög um útlendinga

Þegar ríkisstjórnin boðaði breytingar á lögum um útlendinga fyrr á árinu vöruðu fjölmörg félagasamtök og aðilar úr stjórnarandstöðu við breytingunum enda voru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar: yfir fimmtíu manns sem neitað var um vernd eða dvalarleyfi voru send á götuna án nokkurra úrræða og í hverri viku bætast fleiri við. Ríkisstjórnin skapaði með þessu heimilisleysi og örbirgð einstaklinga, sem sumir hverjir tilheyra viðkvæmum hópum, að óþörfu. Fyrst voru svörin á þá leið að þetta væri til þess að hvetja fólk til að fara sjálfviljugt úr landi. Í þessu átti að felast ákveðin refsing fyrir hóp sem ekki var talinn samvinnuþýður. Svo komu svör á þá vegu að það hafi verið áformað að sveitarfélögin myndu „grípa hópinn“. Þessi tvö markmið stangast á. Ef ríkisstjórnin ætlaðist til þess að sveitarfélögin gripu hópin þá fengi hópurinn betri þjónustu og hærri framfærslu en hann fékk á vegum ríkisins svo það hefði varla orðið til þess að fólkið færi sjálfviljugt úr landi. Það kom auk þess í ljós að dómsmálaráðuneytið hafði ekki átt samtal við sveitarfélögin um að taka við fólkinu.

Mannúðarkrísa framleidd af ríkinu

Fólki sem hefur verið neitað um vernd eða dvalarleyfi hefur 30 daga til að koma sér úr landi, ellegar lendir fólkið á götunni án nokkurrar aðstoðar eins og málin standa í dag. Ríkið bendir á sveitarfélögin og sveitarfélögin benda á ríkið. En umfram þetta rifrildi er lagaleg staða fólks eftir að 30 daga fresturinn rennur út mjög óskýr. Fólkið er ekki með kennitölu og flestir ekki með skilríki. Fólkið hefur ekki verið hneppt í varðhald enda hafa þau í raun ekki brotið nein lög. Það hefur komið í ljós að margir af þeim sem enduðu á götunni, sér í lagi þrjár konur frá Nígeríu sem voru fórnarlömb mansals, geta með engu móti snúið til síns upprunalands. Ástæður eru margar sem ég ætla ekki að fara út í hér en ljóst er að margt af þessu fólki er fast á Íslandi um ókomna tíð. Í mínum huga var þessi óþarfa krísa þar sem fólki var vísað á götuna hent í framkvæmd sem skref í áttina að því að réttlæta lokaðar búðir fyrir flóttafólk.

Frelsissvipting flóttafólks hefur neikvæð áhrif

Stjórnmálamennirnir eru farnir að tala um „lokað búsetuúrræði“ fyrir fólk sem er neitað um vernd og á að flytja úr landi sem fylgi þá skerðing á frelsi. Erlendis er þetta stundum kallað „removal center“ sem bendir til að þessar búðir séu hugsaðar sem skammtímalausn áður en fólk er flutt úr landi. Þessi spuni hjá ríkisstjórninni að kalla lokaðar búðir búsetuúrræði er gert til að fegra þann gjörning þegar saklaust fólk er svipt frelsi sínu og er í raun sett í gæsluvarðhald.

Það sem er óvenjulegt við frelsissviptingu flóttamanna er að hún fer fram í gegnum framkvæmdarvaldið með stjórnsýsluákvörðun en ekki í gegnum dómskerfið. Samkvæmt félagasamtökunum Liberty Human Rights í Bretlandi er Bretland eina Evrópuríkið sem setur flóttafólk í gæsluvarðhald án þess að gefa upp hvað gæsluvarðhaldið varir lengi. Félagasamtök hafa barist hart fyrir því að fólk verði ekki sett í gæsluvarðhald umfram 28 daga. Rannsóknir hafa sýnt að geðheilsu fólks hrakar hratt þegar það er svipt frelsinu, sér í lagi ef ekki er útséð um hvenær það losnar. 45% þeirra sem hafa verið lokuð inni í Bretlandi í „immigration detention centres“ hafa verið send úr landi en 55% hafa hins vegar hlotið vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hafa því þurft að sæta óþarflega sviptingu frelsis í einhvern tíma sem hefur haft gríðarlega neikvæð áhrif á heilsufar fólks og dregið úr burðum þess til að fóta sig í nýju umhverfi.

Það er ekkert óeðlilegt að vera með miðstöð fyrir flóttafólk fyrst um sinn á meðan unnið er úr upplýsingum um fólkið og ákvörðun tekin um lengra búsetuúrræði á meðan umsóknir fara í gegnum kerfið og svo lokuðum flóttamannabúðum þar sem fólk er sett í gæsluvarðhald. Breski Rauði Krossinn hefur farið fram á að sú stofnun sem sér um málefni flóttafólks í Bretlandi hrindi í framkvæmd umbótum sem komi í veg fyrir að fólk sé svipt frelsinu lengur en í 28 daga nema talin sé að hætta stafi af viðkomandi. Þá hefur Rauði Krossinn líka lagst alfarið gegn því að óléttar konur eða viðkvæmir hópar séu svipt frelsi.

Ameríska Innflytjendaráðið (The American Immigration Council) gaf út skýrslu síðastliðinn júlí og þar kemur fram að það er mun kostnaðarsamara að reka lokaðar búðir fyrir fólk á flótta (immigration detention centres) en önnur úrræði þar sem fólk er ekki svipt frelsinu. Þar kemur fram að frelsissvipting stenst ekki alþjóðleg viðmið um mannúðlega meðferð á fólki. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu Þjóðanna mælir alfarið gegn frelsissviptingu flóttafólks og innflytjenda vegna alvarlegra áhrifa á geðheilsu fólks og hvetur ríki til þess að finna aðrar leiðir. Meðal annars er mælt með skjótari málsmeðferðum. Háskólinn í Sydney í Ástralíu birti rannsókn þar sem viðtöl voru tekin við flóttafólk sem var lokað inn í flóttamannabúðum og rannsóknin náði yfir fimm ára tímabil. Þar komu fram alvarlegar og neikvæðar afleiðingar innilokunar á geðheilsu fólks og sýndi rannsóknin fram á hvernig hrakandi geðheilsu fólks sem síðar fékk vernd kostaði heilbrigðiskerfið mun meira til lengri tíma.

Á vefsíðu Réttindagáttarinnar gefur að líta á 5. grein Mannréttindasáttmála Evrópu en Íslendingar eru skyldugir að framfylgja honum og þar segir meðal annars: Engan mann skal svipta frelsi nema í örfáum tilvikum. Dæmi um slíkt er lögleg handtaka eða gæsla manns til að koma í veg fyrir að hann komst ólöglega inn í land eða gæsla manns sem vísa á úr landi eða framselja. Þar segir einnig: Hverjum þeim sem handtekinn er eða settur í gæslu skal rétt að bera lögmæti frelsisskerðingarinnar undir dómstól er úrskurði um hana með skjótum hætti og fyrirskipi að hann skuli látinn laus ef ólögmæt reynist. Enn fremur segir: Hver sá sem tekinn hefur verið höndum eða settur í gæslu gagnstætt ákvæðum þessarar greinar skal eiga bótarétt sem unnt sé að koma fram.

Hvaða hóp á að loka inni?

Það hefur ekki verið talað um útfærsluna á þessu svokallaða búsetuúrræði ef frá er talið að bæði dómsmálaráðherra og forsætisráðherra hafa ýjað að því að þessar búðir yrðu fyrir fólk sem á að flytja úr landi. Það hefur komið fram að fjölmörgum sem er neitað um vernd fara af landi brott sjálfviljugir og fara jafnvel áður en niðurstaða fæst í máli þeirra. Aðrir þiggja aðstoð við að ferðast frá landinu. Það er engin þörf á því að svipta þetta fólk frelsi. Það er því eðlilegt að spyrja hvaða hóp á að svipta frelsi? Er það hópurinn sem er nú á götunni? Það sér hver heilvita maður að gæsluvarðhald yfir þeim sem hefur verið hent á götuna eftir 30 daga frestinn gengur einfaldlega ekki upp vegna þess að það hefur komið fram að stór hluti þessa fólks hefur engin ferðaskilríki, á engan kost á að útvega sér skilríki frá heimalandi sínu, Ísland er ekki með samninga við ríkin um að senda fólkið til baka og ekki er hægt að senda fólkið til annarra ríkja innan Schengen.

Í 42. grein í lögum um útlendinga segir: Ekki er heimilt samkvæmt lögum þessum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sama gildir um þá einstaklinga sem eru útilokaðir frá réttarstöðu flóttafólks skv. 40. gr.

Fólk sem er ekki með ferðaskilríki hefur oftar en ekki farið ólöglega frá sínu upprunalandi og á jafnvel von á því að vera hneppt í varðhald við heimkomu. Fólk getur setið í fangelsi við heimkomuna árum saman án þess að fara fyrir dómara. Margir telja sig einfaldlega ekki geta snúið til baka vegna hættunnar á ofsóknum eða illri meðferð. Það er til dæmis með öllu óskiljanlegt hvernig þrjár konur frá Nígeríu sem eru fórnarlömb mansals er ekki bara neitað vernd heldur beinlínis hent á götuna í trássi við lög um útlendinga. Það er einfaldlega ekki hægt að sanna að konurnar verði ekki fyrir ómannúðlegri meðferð í Nígeríu vegna þess stigma sem fylgir því að hafa verið í kynlífsþrælkun. Samkvæmt Alþjóðlegu Fólksflutningastofnuninni (International Organization for Migration) sem er undirstofnum Sameinuðu Þjóðanna er mikið stigma sem fylgir fórnarlömbum mansals sem hafa verið í kynlífsþrælkun og líkurnar á því að konurnar verði fyrir kynbundu ofbeldi í Nígeríu eða lendi aftur í mansali eru háar.

Árið 2022 gáfu bresk stjórnvöld út skýrslu (Country Policy and information Note Nigeria: Trafficking of Women) en þar kemur fram að fórnarlömb mansals frá Nígeríu séu umfram allt viðkvæmur hópur og þó afdrif þeirra við heimkomu séu mismunandi þá er viðurkennt að mikið stigma ríkir gagnvart fórnarlömbum mansals sem gerir þennan hóp sérstaklega viðkvæman. Punkturinn er að íslensk stjórnvöld geta með engu móti fullyrt að öryggi þessara þriggja kvenna sé gætt með því að senda þær aftur til Nígeríu auk þess sem þær falla undir „viðkvæman hóp“ og ættu samkvæmt því að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er enn fremur ljóst að undir engum kringumstæðum væri hægt að réttlæta frelsissviptingu þessara kvenna sem myndi brjóta þær andlega niður enda stafar íslensku samfélagi engin hætta af þessum konum sem réttlætir slíka meðferð.

Hvar eru gögnin sem réttlæta frelsissviptingu fólks á flótta?

Önnur grein Mannréttindasáttmála Evrópu bannar niðurlægjandi meðferð (degrading treatment) eða refsingu í málefnum flóttamanna. Hins vegar mátti lesa í yfirlýsingar stjórnvalda þegar yfir 50 manns var hent á götuna (og sá fjöldi eykst) að það var í reynd verið að refsa þeim fyrir að sýna ekki samstarfsvilja. Það hefur hins vegar komið fram að margt af þessu fólki hefur enga burði til að snúa til baka. Það er skilríkjalaust og það er í raun fast. Myndum við samþykkja að þrjár konur sem eru fórnarlömb mansals yrðu sviptar frelsi sínu um ókominn tíma? Erum við sem samfélag tilbúin til að kvitta undir skírt brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem tekur sérstaklega fram að það eigi ekki að svipta viðkvæma hópa frelsinu? Er ekki betra að gefa fólkinu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og leyfa því að vinna frekar en að ráðast í kostnaðarsamt fangelsi sem kemur til með að stefna geðheilsu fólks í hættu?

Þá vaknar sú spurning hverjum eiga þessar búðir að þjóna ef ekki þessum hópi? Hvar er fólkið núna sem bíður þess að vera sent úr landi og hver er forsenda þess að svipta fólk frelsi sem fer sjálfviljugt úr landi? Hvað á fólk að vera lengi í þessum búðum á meðan brottreksturinn er skipulagður? Einn mánuð? Sex mánuði? Nokkur ár?

Áður en íslenskt ríkisvald tekur sér það umboð að byggja fangelsi fyrir fólk á fótta er lágmark að stjórnvöld sýni fram á einhver gögn sem kalla á slíkar aðgerðir. Hvaða hópar myndu verða sviptir frelsi? Hvað væri dvölin löng? Hvað með fólk sem er fast? Hver er réttlætingin að það þurfi að loka fólk á bak við lás og slá ef það hefur ekki brotið lög?  Á Íslandi eru, að mér vitandi, engin gögn sem sýna fram á að hætta stafi af fólki sem hefur sótt um vernd á Íslandi og bíður úrlausn sinna mála. Þá er ljóst að í svona litlu landi umkringt sjó getur fólk ekki auðveldlega horfið í fjöldann né ferðast frá landinu svo það er í raun engin ástæða til að svipta fólkið frelsi þegar sýnt er fram á að geðheilsu fólks er beinlínis stefnt í hættu með gæsluvarðhaldi undir þessum kringumstæðum.

Hvað má læra af öðrum og af hverju erum við ekki að skoða önnur og mannúðlegri úrræði eins og mörg félagasamtök hafa sýnt fram á að eru mun ódýrari kostur í stað lokaðra búða. Sú hugmynd að loka fólk inni sem ekkert hefur gert af sér annað en að leita verndar á Íslandi er í senn ómannúðleg, óþörf og hún er kostnaðarsöm. Miðað við hvernig staðið var að lögunum um útlendinga þá er erfitt að treysta sama fólkinu fyrir heilsteyptri stefnu í málefnum útlendinga. Ég hvet forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, þingmenn og fólk innan Dómsmálaráðuneytisins og Útlendingastofnunar að kynna sér skýrslu sem var gefin út af Human Rights Watch þar sem farið er yfir aðra möguleika en að loka fólk inni: Dismantling Detention: International Alternatives to Detaining Immigrants

Að loka fólk óþarflega inni er einfaldlega rangt. Það er ekkert annað en pólitískur þykjustuleikur til að dreifa athyglinni frá því hversu illa hefur verið haldið um málefni flóttafólks síðustu árin sem hefur endað með óþarfa mannúðarkrísu. 

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí