Dawn came on us like a betrayer; it seemed as though the new sun rose as an ally of our enemies to assist in our destruction. The different emotions that overcame us, of resignation, of futile rebellion, of religious abandon, of fear, of despair, now joined together after a sleepless night in a collective, uncontrolled panic. The time for meditation, the time for decision was over, and all reason dissolved into a tumult, across which flashed the happy memories of our homes, still so near in time and space, as painful as the thrusts of a sword.
Many things were then said and done among us; but of these it is better that there remain no memory.
Primo Levi, bls. 16 í Survival in Auschwitz (If this is a man)
Hvað er hægt að segja þegar að myrkrið hefur tekið yfir – eru einhver orð þess virði að mæla þau?
Dóttir mín sagðist gráta yfir því sem gerist. Ég sagði: Gott, við eigum að gráta. Ég vil frekar að við grátum en tölum.
Okkur er ýtt út í blóðugt stórfljót stríðsæsinga. Okkur er ýtt yfir landamæri, sagt að nú eigum við að búa í landi þar sem við eigum að gefa eftir mennskuna. Við eigum að búa í landi smíðuðu af fólki sem gerir ekkert til að gera veröldina betri og allt til að gera hana verri. Landi sem hefur engin gildi, enga trú, enga mennsku.
Kveðinn er upp örlagadómur yfir fólkinu á Gaza en um leið er hann kveðinn upp yfir okkur. Við erum gerð landflótta yfir í land þar sem skömmin er það eina sem lifir.
Sjálfsvirðin okkur, mennska, skipar okkur að þegja ekki, líta ekki undan. En hvað er hægt að segja?
Fólkið á Gaza hefur lifað við umsátur, án undankomuleiða. Við aðstæður sem eru glæpur gegn mannkyni. Og nú á að framkvæma á þeim helför. Og í stað þess að fólk sem þekkir ekkert nema vestræna velsæld, fólk sem telur sig þess umkomið að stjórna heimalöndum sínum og heimsálfum upplifi skelfingu yfir þeirri mannkynssögulegu stund sem upp er runnin leyfa þau blóðþorstanum að hríslast um sig og lýsa því yfir svo öll heimsbyggðin heyri að þau styði útrýmingu.
Alþjóðalög og alþjóðasáttmálar breytast í ömurlegustu brandara sögunnar, breytast í vitnisburð um algjöra úrkynjun og algjöra spillingu.
Þau sem læra ekki af sögunni eru dæmd til að endurtaka hana. En við lifum á tímum þar sem að engin saga fær að lifa. Þar sem að áróður er sögunni yfirsterkari. Þar sem sífellt fleiri morgnar eru sveipaðir mistri ósanninda og innihaldsleysis, þar sem að fólk sem lét kjósa sig útá loforð um hollustu við frið og mannúð, gegn heimsvaldastefnu og kúgun, sést ganga til liðs við þá grimmd sem að ræður ríkjum í siðmenningunni, aðeins vegna persónulegrar löngunnar í vegtyllur og upphafningu á gjörspilltum og rasískum “alþjóðavettvangi”, þar sem að hagsmunir kúgara og níðinga fá að stjórna för. Hinn siðmenntaði heimur, ríka vestrið, styður þjóðernishreinsanir. Mestu hræsnarar mannkynssögunnar þurrka tárvota vanga sína með blóðugum höndum og hvetja Ísrael áfram.
„Aldrei aftur“ var sameiginleg yfirlýsing og loforð í kjölfar mestu skelfingar síðustu aldar. En það loforð er gleymt, bannað að minnast á það. „Alltaf aftur” er slagorð vorra daga. Alltaf aftur stríð. Alltaf aftur hræsni. Alltaf aftur hið ófyrirgefanlega.
Ég beygi höfuð mitt í skömm.Hvenig gátum við látið það gerast að þetta væri samtími okkar?
Það á að breyta Gaza í ösku sem blæs burtu, hverfur. Engin ætlar að stöðva hinn risavaxna mannkynnssögulega glæp. Fólkið sem hvetur Ísrael áfram í blóðlostanum treystir því að þurfa aldrei að svara til saka. Vegna þess að stjórnmálin eru dauð og ekkert lifir í samtíma okkar nema hugleysið, undirgefnin, spillingin.
Við lifum á skammarlegum tímum. Ég beygi höfuð mitt í skömm.
Við höfum enga til að ákalla. Ekkert stjórnmálafólk. Engar stofnanir. Engin stjórnvöld. Það eina sem eftir er er að ákalla Guð. Við beygjum höfuð okkar og biðjum: Guð, hjálpaðu okkur að finna leið til að rísa upp. Hjálpaðu okkur til að finna leið til að sameinast. Hjálpaðu okkur til að láta ekki hafa af okkur mennskuna, samhyggðina. Hjálpaðu okkur til að hjálpa okkur sjálfum að gefast ekki upp, að hverfa ekki inn í deyfðina, að láta ekki sljóleikann taka yfir. Hjálpaðu okkur við að verða ekki eins og þau, með engar minningar um söguna, engar minningar nema um eigin völd, enga drauma nema um fleiri vegtyllur.
Ég vil ekki þegja en ég hef ekkert að segja. Ekkert sem ég segi skiptir neinu máli. Ég sé 1000 dáin börn. Ég sé borg deyja. Það er aska í loftinu. Ég finn lykt af blóði. Mig langar ekki að tala, það er ekkert hægt að segja, allt hefur verið sagt hundrað þúsund sinnum áður og það hefur ekkert að segja.
Ef þetta er siðmenning þá er ég villimaður. Ef þetta eru Vesturlönd þá er ég ekki Vesturlandabúi. Ef að þetta er Evrópa þá er ég ekki Evrópubúi. Ef að þetta er Ísland þá er ég ekki Íslendingur.
Ég er full af skömm. Skömmin er mýri, ég sekk í hana og hún fyllir á mér munninn og ég hef ekkert að segja nema þetta:
Ég stend með fólkinu í Palestínu. Ég stend með fólkinu á Gaza. Ég fordæmi stjórnmálafólkið sem með þögn sinni eða hvatningu er samsekt þeim sem nú fremja hinn mannkynssögulega glæp. Ég fordæmi þau og ég mun aldrei gleyma þeim degi þegar þau sýndu okkur hvað þau raunverulega eru. Vegtyllu og valdasjúk, búin að hafna öllum gildum, allri trú, allri sögu, öllum sannleika. Ég fordæmi þau og ég mun alrei gleyma og ég mun segja öllum sem ég hitti frá þeim og þeirri skömm sem þau hafið þröngvað upp á okkur.
Ég beygi höfuð mitt í skömm. Ekkert sem ég segi skiptir máli. En ég segi það samt: Guð hjálpi fólkinu í Palestínu. Megi Palestína lifa frjáls frá ánni niður að hafinu.
Takk fyrir.
Ræða flutt a samstöðufundi með Palestinu á Austurvelli 15. oktober 2023.