Verða að vera vinstri menn ef þeir segjast vera vinstri menn

Skoðun Ögmundur Jónasson 7. jún 2024

Fyrir aldarfjórðungi tók ég þátt í að stofna Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Það var á sama tíma og Samfylkingin varð til. Sitt sýndist hverjum. Okkur sem stóðum að stofnun VG þótti ótækt að enda inni í krataflokki sem stefndi í að verða keimlíkur því sem var að henda krataflokka á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu, að ekki sé minnst á Verkamannaflokk þeirra Blair og Brown í Brtelandi, óhugnanlega hægri sinnuðum flokkum sem stefndu hraðbyri enn lengra til hægri eins og síðar átti eftir að koma í ljós að varð raunin bæði þar og hér.

VG var ætlað að rétta af þennan kúrs á vinstri vængnum, með skýrum afdráttarlausum línum, eindregnum stuðningi við jöfnuð, jafnrétti og friðarstefnu. Það þýddi harða andstöðu við markaðsvæðingu innviða, það þýddi náttúruvernd á forsendum náttúruverndar (ekki kapítalismans!), auðlindir í almannaeign, andstöðu við að samsamast markaðshyggju Evrópusambandsins, að reynt yrði að umskapa fjármálakerfið, fjarlægja Ísland hernaðarbandalaginu NATÓ eins og nokkur kostur væri og stefnt að því að vinda ofan af kvótakerfinu í núverandi mynd.

Hugmyndin var sú að við störfuðum síðan með þeim flokkum sem vildu kenna sig við félagshyggju þótt áherslur væru um sumt ólíkar.

Um þessar tvær leiðir var tekist á í nokkur ár í aðdraganda aldamótanna: Sumir vildu eina samfylkingu félagshyggjufólks, aðrir lausbeislaðra bandalag flokka sem byðu upp á mismunandi áherslur en stefndu í svipaða átt; flokka sem hefðu samstarf sín í milli eins og nokkur kostur væri. Við urðum ofan á sem vildum lausbeisluðu leiðina.

Á upphafsárum sínum hafði VG gríðarleg áhrif

Svo leið tíminn. VG hafði frá upphafi gríðarleg áhrif. Vitundarvakning varð í umhverfismálum, einkavæðingin fékk öfluga andspyrnu svo og hernaðarhyggjan. VG breytti hinu pólitíska landakorti ekki bara í stærðarhlutföllum á þingi heldur innan allra stjórnmálaflokka, okkar sjónarmið fengu alls staðar vigt. Svo kom hrunið og við fórum í gegnum það. Stóðum okkur afbragðsvel um sumt, annað síður og sumt afleitlega. Af því öllu átti VG að læra en gerði ekki.

Hundrað sinnum betri stjórn

Stjórn VG og Samfylkingar var vissulega hundrað sinnum betri en framhald á stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar, Hrunstjórninni sem svo var nefnd, hefði orðið.
En eitt fór nú að breytast, tiltrú á VG tók að dvína. Við þóttum ekki standa undir væntingum, sérstaklega varðandi skuldsetta millitekjuhópa og niðurskurðinn í velferðarkerfinu. Það sem mörgum vinstri manninum þótti þó verst var það að ekkert breyttist í grundvallaratriðum í kerfinu, kvótinn óbreyttur, fjármálakerfið óbreytt og misskiptingin óbreytt að uppistöðu til þrátt fyrir ýmsar jákvæðar skattlagabreytingar.

Í eina sæng með peningavaldinu

En vont átti eftir að versna. Því næsti viðkomustaður VG var í faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn, handlangara auðvaldsins á Íslandi. Þetta var árið 2017. Margt ágætisfólk er að sjálfsögðu að finna í Sjálfstæðisflokknum eins og alls staðar. En ekki verður fram hjá því horft að Sjálfstæðisflokkurinn, öðrum flokkum fremur, er hagsmunabandalag stórfyrirtækja og auðvalds. Hjálparkokkarnir hafa svo komið víðar að og hefur ýmsum sem kenna sig við félagshyggju orðið hált á svellinu í samvinnu við þessi öfl.

Fylgistap VG vegna eigin stefnu

Og þar komum við að því að ræða hlutskipti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eins og það blasir við nú. Menn keppast við að segja að fylgið hrynji af VG vegna samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn. Mikið er að sjálfsögðu til í því en það er hins vegar mikil einföldun. Fylgistapið er ekki síður vegna þeirrar stefnu sem Vinstrihreyfingin sjálf hefur fylgt. Ekki tilneydd, heldur að eigin vilja að því er best hefur mátt skilja. Að undanskildum „kynsegin“ málum hefur flokkurinn brugðist í öllum helstu málaflokkum sem hann var stofnaður um.

Enginn til varnar Svandísi

Vissulega hafa VG liðar ekki alltaf átt auðvelda daga og nefni ég þar yfirgengilega ósvífna aðför að Svandísi Svavarsdóttur þegar hún vildi, sem ráðherra sjávarútvegsmála, afla upplýsinga um eignarhald í sjávarútvegi fyrir tilstilli opinberra stofnana, sem að sjálfsögðu eiga að aðstoða fulltrúa okkar, almennra landsmanna, við slíka upplýsingaöflun. Varðhundar kvótakerfisins með greinilegum stuðningi Sjálfstæðisflokksins lögðu ráðherrann í einelti mánuðum saman vegna þessa. Hefðu vinstri menn átt að rísa skipulega upp henni til varnar. Slíkur varnarveggur var aldrei reistur á Alþingi hvorki af hálfu VG né Samfylkingar sem þarna hefði átt að láta kröftuglega frá sér heyra. Svipað hefur gerst út af öðrum málum.

Þvert á öll grunngildi VG

En þetta breytir ekki megin mynstrinu. Því miður. Nánast hvar sem borið er niður fylgdi VG stefnu sem gekk þvert á grunngildi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þar eru dæmin ófá, mikilvægur áfangi í orkustefnu Evrópusambandsins var innleiddur, opnað á einkavæðingu í samgöngukerfinu svo og í heilbrigðiskerfinu (sumt af því fer enn dult vegna umræðuleysis), kvótakerfið styrkt í sessi, nú síðast með tillögum um einkavæðingu fjarðanna í hendur fjárfesta (norskra að uppistöðu til), EES samstarfið lofsungið um efni fram af hálfu VG – ræðurnar á hátíðasamkundum bera því órækt vitni – og leyfður innflutningur á hráu kjöti gegn ráðleggingum helstu sérfræðinga. Og aldrei er NATÓ (sem flokkurinn þykist vera á móti) gagnrýnt, þvert á móti lofsungið og tekið undir með hernaðarhyggju, sem þaðan er runnin, bæði í orði og í verki eins og vopnakaup til manndrápa í Úkraínu eru til marks um. Aldrei var talað fyrir friði og friðsamlegum lausnum heldur þvert á móti studdar tillögur sem vitað var að útiloka friðsamlegar lausnir. Þá hefur verið dapurlegt að sjá hvernig umhverfisstefna flokksins hefur smám saman verið að snúast upp í grænan kapítalisma sem ágætlega var útlistaður í norrænum bæklingi sem Birni Bjarnasyni, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, var falið að ritstýra fyrir Íslands hönd um öryggismál á norðurslóðum. Heimiluð var uppbygging hernaðarmannvirkja fyrir milljarða, aukin var viðvera hermanna og loftrýmiseftirlit stóraukið, árásarflugvélar útbúnar til árása með kjarnorkusprengjur boðnar velkomnar og heræfingar leyfðar á sjó og landi sem aldrei fyrr. Gerður var samningur við Natóvinafélagið Varðberg um að fræða þjóðina um hernaðarbandalagið, stofnuð var staða „varnarmálafulltrúa“ við sendiráðið í Washington til að geta verið í sem nánustum tengslum við Pentagon! Þannig er staðan meðal annars skilgreind.

Allt öðrum að kenna?

Það dugar lítið að segja að allt sé þetta öðrum að kenna, Þórdís Reykfjörð hafi sent vopnin, Bjarni samið við Varðberg, Guðlaugur Þór látið Ísland viðurkenna lepp CIA sem forseta í Venesúela, Bjarni slegist í hóp ríkja sem skáru á fjármögnun Flóttamannaðstoðar Sameinuðu þjóðanna á Gaza eftir upplognar sakir á hendur þeirri stofnun með þeim afleiðingum að hundruð þúsunda voru skilin eftir í neyð!, Sjálfstæðisflokksráðherra hafi aðstoðað CIA í aðförinni að Julian Assange eftir allt það sem á undan var gengið hér landi, Samherji í góðu skjóli eftir Namibíu svívirðuna… Allt er þetta þegar upp er staðið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar allrar. Meðferð á vegalausu fólki, hælisleitendum, sem eiga þá sök helsta að koma ekki frá landi sem NATÓ lítur á sem skjólstæðing (í bili) er einnig á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar.

Það sem VG sagði og gerði sjálft

Og svo er af nógu að taka með VG sem beinum geranda, til dæmis að hvetja til áframhaldandi hernaðar á fundum NATÓ þar til „fullnaðarsigur“ vinnist í Úkraínu og að það land komist sem fyrst í NATÓ, nokkuð sem allir vita að stendur helst í vegi fyrir friðarsamningum, Evrópuráðið gert að skúffu í skrifborði hernaðarhyggjunnar með fulltrúa Íslands að teikna upp nýjan Versalasamning þar sem stolnum eignum Rússa verði ráðstafað til fórnarlamba stríðsins öðrum megin víglínunnar. Þetta var ákveðið á Reykjavíkurfundi Evrópuráðsins þegar Ísland hafði formennsku í ráðinu. … Hægt væri að halda upptalningu lengi áfram um mál sem skýra fylgishrun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, afgreiðslan á landakaupamálum þvert á undirskriftir þúsunda landsmanna sem vildu afgerandi lög. Frestun á frestun ofan á því að stórbæta kjör þeirra lakast settu í þjóðfélaginu; agerðaleysi á meðan ólöglegir áfengissalar brjóta niður ÁTVR, spilafíklar skildir eftir á köldum klaka en spilavítin styrkt með almannafé, ólögleg gjaldtaka við náttúruperlur látin óátalin…

Stjórnmála- og embættiskerfið frjálshyggjuvætt

Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn, svo aftur sé vikið að því, hefur meðal annars skilað sér í því að frjálshyggjan hefur búið um sig í ráðuneytum og embættiskerfi auk þess sem pólitíkin hefur verið keyrð áfram á forsendum mjög hægri sinnaðra sjónarmiða. Einstaklingar sem eiga það sammerkt að segjast vera á móti opinberum rekstri hafa raðað sér, og hefur verið raðað inn í ríkisreksturinn, með öðrum orðum, hlaðið er inn i kerfið viðhorfum eins langt frá félagshyggju og komist verður. Þessi sjónarmið eru borin uppi af fólki sem í reynd er andvígt ríkisrekstri nema til að njóta góðs af honum sjálft.

En hvað með Framsókn?

Svo er það hún Framsókn, gleymum henni ekki enda nauðsynleg í félagshyggjusamstarfi. Upp á Framsókn gömlu er púkkandi svo lengi sem blaktir þó ekki sé nema dauf ljóstýra í samvinnuhugsjóninni, ekki þó þeirri sem formaður flokksins kallaði Nýju samvinnustefnuna þegar hann vildi hleypa fjárfestum ofan í vasa okkar á þjóðvegum landsins. Á það var opnað með stjórnarfrumvarpi þótt eitthvað hafi staðið á því að fjárfestar gæfu sig fram. En þrátt fyrir þetta, einhvers staðar djúpt niðri er hún þarna þessi alvöru samvinnutaug hjá grasrótinni í Framsókn og stöku stjórnmálamanni. Framsókn er fyrir bragðið tveir flokkar. Í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er Framsókn hægri sinnuð en því vinstri sinnaðri sem samstarfsaðilarnir eru þeim mun betur lifnar samvinnuhugsjónin.

Sláttur á Samfylkingunni

En nú er það Samfylkingin sem margir horfa til. Á henni er nú mikill sláttur og er það hið besta mál. En rúmar hún okkur sem ekki viljum samsamast markaðshyggju Evrópusambandsins og einkavæðingunni almennt, viljum samfélagsbanka, erum andvíg fylgispekt við NATÓ og hernaðarhyggjuna, viljum vinda ofan af kvótakerfinu, halda auðlindum í almannaeign og náttúrperlum gjaldfrjálsum fyrir almenning, að sveitarfélögin axli ábyrgð á húsnæðismálum beint og milliliðalaust svo eitthvað sé talið sem vinstri sinnað félagshyggjufólk vill sjá virt og virkt í sinni hreyfingu?

Það þarf ekki að hugsa málin lengi til að sjá í hendi sér að Samfylkingin dugar ekki ein og sér á félagshyggjuvængnum. Staðan er að þessu leyti óbreytt frá því sem hún var fyrir aldarfjórðungi.

Verðmæti í sósíaldemokratíunni

En sósíaldemókratisminn geymir sitthvað verðmætt um félagsleg gildi sem hann hefur sinnt vel og við flest á þessum væng stjórnmálanna virðum og viljum þar vera krötunum samstiga.
Ég læt hugann reika nokkra áratugi til baka í leit að dæmum um nákvæmlega þetta.
Við Sighvatur Björgvinsson, fyrrum heilbrigðisráðherra Alþýðuflokksins deildum um sitt hvað fyrr á tíð þótt um annað værum við sammála. Hætt er við að deilumálin muni menn þótt gjarnan mætti það vera öfugt, að við minntumst þess helst sem vel var gert og samstaða um.
Nýlega las ég samantekt um baráttu Sighvats fyrir hönd ósakhæfra afbrotamanna sem fyrir hans tilstilli voru vistaðir að Sogni í Ölfusi. Því fékk hann framgengt þrátt fyrir gríðarlegt andstreymi en óbilandi staðfestu fyrir hönd þeirra allra veikustu og viðkvæmustu í samfélaginu. Þessu hefði hugsjónalaus maður aldrei fengið áorkað.
En nú gegnir Sogn öðru hlutverki og þessi saga gleymd að því marki sem hún var yfirleitt mönnum kunn. Vantaði þó ekki fjölmiðla-forvitnina þegar þetta veika fólk var flutt að Sogni þar sem biðu þess ákjósanlegar aðstæður. En hvar eiga slíkir einstaklingar núna athvarf? Einhvers staðar í lokaðri geymslu? Verðugt viðfangsefni fyrir félagshyggjuna að grafast fyrir um.
Smámál?
Nei, stórmál.
Þetta er nefnilega dæmi um mál þar sem skorið er úr um það hvort samfélag geti borið sæmdarheitið velferðarþjóðfélag. Það vildu norrænu kratarnir – þegar sósíaldemókratían var og hét, að yrði sín arfleifð
En það var í þá daga.
Er svo enn?

Hvað er til ráða?

Forysta VG segir að flokkurinn þurfi greinilega að ræða hvernig hann geti nálgast sín fyrri gildi á nýjan leik, endurskoðunar sé þörf. Það er vel!
En það er ekki nóg að segja það. Verður það gert? Varla er það trúverðugt í áframhaldandi faðmlagi við Sjálfstæðisflokkinn. Og skyldu menn ætla að endurskoða sig með lagareldisfrumvarpið á vinnsluborðinu?
Og eftir endurskoðun, hvers konar flokkur vill VG vera, ennþá virtari og elskaðri í Brussel, bæði hjá NATÓ og Evrópusambandinu, en Samfylkingin? Með meiri skilning á þörfum og óskum fjárfesta í orkunni og í vindinum en aðrir flokkar, næmari á viðhorf „fjármálalífsins“ við skipulag bankakerfisins en aðrir flokkar, svo eitthvað sé nefnt. Eða ætlar hreyfingin að verða það sem hún var stofnuð til, baráttuhreyfing þeirra sem hafna þessum viðhorfum eindregið, vilja út úr NATÓ, alla orku, allar auðlindir til lands og sjávar í almannaeign, segja sig frá orkustefnu ESB, heilbrigðiskerfið verði að allri uppistöðu í almannaeign og ekki rekið á bisnissforsendum, samfélagsbankar verði til …
Ef ekki, þá er það bara þannig, og engin ástæða að reiðast því, en þá er augljóst að flokkurinn er ekki lengur valkostur fyrir þá sem vildu valkost við krataflokk á félagshyggjuvængnum. Og þannig hefur þetta því miður verið á undanförnum árum. VG hefur verið góði hægri kratinn.
Allt tal um að VG hafi haft svo mikil áhrif á bak við tjöldin gef ég lítið fyrir. Staðreyndin er sú að eigin verk flokksins tala sínu máli. Svo lengi sem þetta er ekki viðurkennt mun flokknum ekki takast að endurreisa sig sem vinstrihreyfing.
Svo má hinu aldrei gleyma, að þegar vinstripólitík þagnar í þjóðfélaginu eða hún verður minna sýnileg þá hefur það eitt gríðarleg áhrif, ekki síst á uppvaxandi kynslóð!

Hvers vegna hafna kjósendur þeim sem bera uppi sjónarmið sem njóta meirihlutastuðnings í þjóðfélaginu?

Vinstri sinnar almennt, hvort sem þeir kalla sig sósíalista eða eitthvað annað, hvort sem þeir eru flokksbundnir eða óflokksbundnir þyrftu allir að horfa inn á við. Menn verða að hafa þrek til að horfast í augu við sjálfa sig og viðurkenna að komið er í óefni. Það er komið í óefni þegar þeir sem bera uppi almannaviljann, í kvótamálum og auðlindamálum almennt og hvað varðar skipulag velferðarþjónustunnar, mælast varla þegar spurt er hverja eigi að styrkja til áhrifa við ákvarðanatöku um þessi efni. Í þessari mótsögn leynast sóknarmöguleikar vinstri manna!
Sósíalistaflokkurinn þyrfti að spyrja hvað valdi því að enn sem komið er nær hann ekki fluginu þrátt fyrir að hafa lyft sannkölluðu grettistaki í umræðu í þjóðfélaginu og margt gott annað látið af sér leiða þar sem hann hefur komist til áhrifa á vettvangi stjórnmálanna, horfi ég þar til dæmis til Reykjavíkurborgar.
Sósíalistaflokkurinn og þá ekki síst sá umræðuvettvangur sem Samstöðin hefur skapað fyrir félagslega pólitík hefur á hinn bóginn þegar haft gríðarleg áhrif. Það skulum við ekki vanmeta og ekki vanþakka allt það þrotlausa starf sem þar liggur að baki.
Ekkert gerist af sjálfu sér.

Að efla samstöðu um Samstöðina

Við skulum aldrei gleyma því að þjóðfélagið tekur ekki aðeins breytingum vegna þess sem gerist á Alþingi eða í Stjórnarráðinu, heldur og þá alls ekki síður, reyndar miklu fremur, fyrir tilstilli félagslegra hreyfinga, hræringa á vinnumarkaði og baráttu í þágu jöfnuðar og mannréttinda.
Án sívökullar baráttu væri allt dautt undir valtara auðhyggjunnar.
Fyrsta viðbragð í vanda er yfirleitt að spyrja hvort þessi eigi ekki að sameinast hinum eða hinn þessum, hvort ekki þurfi að endurstokka skipulagsformin í stjórnmálum.
Gæti verið að það sem menn ættu að sameinast um á þessu stigi væri einfaldlega umræðuvettvangurinn, og þá helst með því að efla Samstöðina? Hún hefur verið öllum opin og þá sérstaklega af félagshyggjuvæng stjórnmálanna. Umræðan sem þar hefur átt sér stað hefur án nokkurs vafa verið baráttufólki til uppörvunar og okkur öllum til vitundarvakningar. Þetta þyrfti að ræða í mikilli alvöru.

En hver er ábyrgð kjósenda?

Já, hvað með kjósendur, eru þeir lausir allra mála? Gæti verið að þeir séu andvaralausir um eigin ábyrgð? Þurfa þeir – við – ef til vill einnig að horfa í eigin barm? Spyrja: hvar á ég heima, hvaða stjórnmálaflokkur býður upp á stefnu sem stendur nærri mínum hugsjónum? Get ég haft áhrif þar á pólitískt mótunarstarf? Og í framhaldi af því, veita þeim flokki eða hreyfingu brautargengi svo lengi sem hún er trú hugsjónum sínum og fyrirheitum. Sá sem er trúr þeim getur staðið að nauðsynlegum málamiðlunum um aðskiljanleg mál. En makk við gagnaðila í stjórnmálum er af allt annarri rót og á sér yfirleitt stað í pukri á bak við tjöldin. Það er þetta sem er á góðri leið með að drepa VG.

Ræðum innihald stjórnmálanna

Ég skrifa þessar línur vegna þess að mér finnst stjórnmálaumræðan snúast um of um form og yfirborð í stað innihalds. Jú, VG hefur verið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er, að því er mér finnst, réttilega gagnrýnt, en stóra málið er svo aftur fyrir hvað þessi flokkur hefur staðið og hvað hann hefur gert eða leyft að gerast. Það er það sem þarf að ræða. Sérstaklega er sláandi, nú sem stundum fyrr, hve Vinstrihreyfingin grænt framboð virðist forðast að horfast í augu við eigin gjörðir. Verði það ekki gert mun flokkurinn aldrei ná að reisa sig á ný.

Alvaran þarf að sjást í verki

Geri hann það hins vegar og sýni í verki breytta afstöðu horfir málið öðru vísi við.
En slíti VG ekki stjórnarsamstarfinu þegar í stað, sem að sjálfsögðu ætti að gera hið snarasta, mætti byrja á því að henda lagareldisfrumvarpinu út af borðinu. Ekki plástra það og sminka. Henda því. Síðan mætti boða til fundar með fréttamönnum og segja að flokkurinn lúti ekki lengur boðvaldi NATÓ; af hans hálfu verði nú talað máli friðar og afvopnunar. Sendi þannig skilaboð sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis, leyfir sér að kalla „skítaskilaboð“.
Áfram þyrfti síðan að halda, því af nógu er að taka í heilbrigðiskerfinu og miklu víðar.
Vandi stjórnmálanna er skortur á trúverðugleika. Til að ávinna sér traust og trúverðugleika er þörf á því að sýna að alvara búi að baki yfirlýsingum og pólitískum fyrirheitum.

Þegar þessi síðustu orð eru skrifuð berast þær fréttir frá Hafnarfirði að samstarfsflokkur VG í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem stýrir bænum, sé að færa einkavæddri HS Orku Krísuvík til nýtingar. Aðrir flokkar í bæjarstjórninni samsinna. Er eitthvað sem ég ekki veit eða er það gamla sagan: Skortur á öflugra vinstra aðhaldi?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí