Fjölmiðlar, skattur, veiðigjöld, No Other Land og útskriftartónleikar

S06 E043 — Rauða borðið — 31. mar 2025

Í dag eru tvö ár liðin síðan Fréttablaðið fór á hausinn og hætti starfsemi. Stórt gat varð til í fjölmiðla- og þjóðmálaumræðu landsmanna sem hefur ekki verið fyllt. Þau Sigurjón Magnús Egilsson, María Lilja Ingveldar-Þrastardóttir Kemp, Gunnar Smári Egilsson og Björn Þorláks ræða áhrifin af falli Fréttablaðsins og stöðu fjölmiðlunar í dag. Töluverðri orku hefur verið varið í umræðu um hvort veiðigjöld séu skattur eða ekki. Og skiptir skilgreiningin einhverju máli? Gísli Tryggvason lögmaður ræðir skilgreiningar við Rauða borðið sem virðast vera ólíkar eftir því hvaða fræðigrein á í hlut. Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor fiskvinnslu og formaður Samtaka fiskframleiðenda, ræðir um breytingar á veiðigjöldum og fjölgun strandveiðidaga. Hans sjónarmið eru allt önnur en þau sem stórútgerðin heldur á lofti. Palestínska Óskarsverðlauna Heimildarmyndin No Other Land verður sýnd í Bíó Paradís í þessari viku, Unnur Andrea Einarsdóttir, myndlistarkona kom og ræddi myndina og þjóðarmorðið við Maríu Lilju. Þessa dagana eru nemar við Menntaskóla í tónlist að ljúka framhaldsstigi og útskrifast frá skólanum og verður mikil tónleikaröð næstu daga þar sem almenningur getur komið í Hörpu og hlustað á framtíð Íslands. Þau Fannar Árni, Oddný Þórarinsdóttir og Þórdís Árnadóttir, 18-20 ára brottfararnemendur Menntaskóla í tónlist, ræða við Björn Þorláks um tímamótin.

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí