Hin Reykjavík – Lágar upphæðir fjárhagsaðstoðar
Sveitarfélögum er skylt að veita þeim sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, fjárhagsaðstoð til framfærslu. Grunnfjárhæðin er mjög lág og er hún 217.799 hjá Reykjavíkurborg og lækkar ef viðkomandi býr ekki í eigin húsnæði eða leigir húsnæði. Þar að auki er litið til tekna maka, þannig að réttur einstaklings til fjárhagsaðstoðar skerðist eða dettur út ef tekjur maka eru hærri en það sem hjón eða sambúðarfólk eiga rétt á hjá sveitarfélögunum. Í dag er miðað við svokallaðan hjónakvarða til hjóna/sambúðarfólks sem er 348.476 á mánuði.
Ása Lind Finnbogadóttir kemur til okkar í þáttinn en nýlega greindi hún frá því að maki hennar ætti ekki rétt á fjárhagsaðstoð vegna tekna hennar og erfitt væri að sjá fyrir sér hvernig dæmið ætti að ganga upp. Í þættinum ræðum við þetta og hvernig félagslegu kerfin sem eiga að grípa okkur, gera það ekki.