Langtíma-covid, femínismi, Bændablaðið, brennivín og sósíalismi

S06 E043 — Rauða borðið — 24. feb 2025

Gunnar Svanbergsson sjúkraþjálfari ríður á vaðið í dagskránni með áhrifaríku viðtali við Björn Þorláks. Gunnar segir þúsundir langveikra Íslendinga hafa fallið milli skips og bryggju hjá heilbrigðisyfirvöldum. Gunnar er sjálfur í hópi þeirra sem þjást af ,,longcovid.“ Hann lýsir persónulegum áskorunum sem felast í raun í því að læra að lifa upp á nýtt. Þau Guðrún Hulda Pálsdóttir, fráfarandi ritstjóri Bændablaðsins, og Skúli Bragi Geirdal hjá Fjölmiðlanefnd ræða stöðu blaðamennsku hér á landi. Bændablaðinu hefur í fyrsta skipti í Íslandssögunni tekist að verða meira lesið en Mogginn á höfuðborgarsvæðinu. Mahdya Malik, Najlaa Attaallah og Zara Amad frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna tala við Maríu Lilju um það sem kallast: Minn hijab mitt val! Þær ræða kvenréttindi og óréttlætið í hvítum femínisma sem og valdeflingu sem felst í því að vera með hijab. Við segjum einnig fréttir frá ríkjum sósíalismans. Eyjólfur Eyvindsson og Kristbjörg Eva Andersen Ramos fara yfir það sem helst er að eiga sér stað í Suður Ameríku. Og við ljúkum þætti kvöldsins með gagnrýninni umræðu um áfengismál. Á sama tíma og WHO hrósar Íslendingum fyrir aðhaldsstefnu hyllir undir breytingar sem gætu gert illt verra. Árni Guðmundsson forvarnarráðgjafi ræðir áfengismál og lýðheilsu.

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí