Rauða borðið – Verstöðin: Saga Samherja
Við höldum áfram að fjalla um kvótakerfið við Rauða borðið. Nú er komið að sögu Samherja, auðhrings sem varð til innan kerfisins og óx á eiginleikum þess. Við munum stikla á stóru: Ólafur Jónsson skipstjóri mun segja frá skipstjórakvóta Samherja, Tryggvi Harðarson fyrrum sveitarstjóri frá sölu á Bæjarútgerð Hafnarfjarðar til Samherja, Sigurður Pétursson sagnfræðingur mun segja frá Guggunni og áhrifum sölunnar á Ísafjörð, Benedikt Sigurðarson mun segja frá vexti Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu, Bergsveinn Birgisson rithöfundur segir frá yfirtöku Samherja á skipi föður hans Arinbirni RE, Þórður Snær Júlíusson mun gefa mynd af innrás Samherja í aðrar atvinnugreinar hérlendis og Aðalsteinn Kjartansson af útrás Samherja til annarra landa, allt suður til Namibíu. Það verður sögustund við Rauða borðið í kvöld, saga átaka, auðs og valda.