Stjórnarandstaða, tollastríð, reynsluboltar, dauðastríð, óþekktur þingmaður, vá og ópera
Er Sjálfstæðisflokkurinn að missa það? Þannig spyr einn af þingmönnum ríkisstjórnarinnar, Sigurjón Þórðarson sem ræðir um grímulaust málþóf minnihlutans, fýlu, frekju og eignarhald í spjalli við Björn Þorláks. Már Wolfgang Mixa, dósent við viðskiptafræðideild HÍ, ræðir um tolla og efnahagsstefnu Trump við Gunnar Smára. Reynsluboltarnir koma í spjall við Sigurjón Magnús: Bolli Héðinsson, hagfræðingur Einar Kárason rithöfundur Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og fyrrum þingkona. Mest bar á umræðunni um veiðigjöld útgerðarinnar. Og auðvitað Donald Trump. Fyrsta langreyðurin sem Hvalur hf. skaut eftir að veiðar hófust á ný, eftir tímabundna stöðvun, háði 35 mínútna dauðastríð. María Lilja fær til sín þær Rósu Líf Darradóttur, lækni og formann samtaka um dýravelferð og stjórnarkonu Hvalavina auk Valgerðar Árnadóttur, nema í stjórnmálafræði og talskonu Hvalavina sem eru á einu máli um að ekki sé mögulegt að veiða stórhveli með mannúðlegum hætti. Óþekkti þingmaðurinn í þessari viku er Guðmundur Ari Sigurjónsson. Hver er hann? Hverjar eru hans persónulegu hliðar, hvað leynist bak við yfirborðið? Hvernig fékk hann örið á andlitinu? Björn Þorláks ræðir við nýjan þingmann á Alþingi. Þorgerður María Þorbjarnardóttir, jarðfræðingur og Guðmundur Steingrímsson doktorsnemi ræða um véfengingu Frosta Sigurjónssonar og fleiri um vá sem steðjar að okkur vegna hlýnunar jarðar af manna völdum. Friðrik Margrétar-Guðmundsson tónskáld og Hanna Dóra Sturludóttir söngkona segja okkur frá Brím, nýrri íslenskri óperu sem tekur á heitri umræðu um kúltúrbörn.