Menningarsmygl

Menningarsmygl fær til sín góða gesti í hverri viku til að kryfja þær bókmenntir og bíómyndir sem eru í deiglunni hverju sinni. Við skoðum verkin út frá pólitík og fagurfræði, heimspeki, sagnfræði og hverju öðru sem gestum dettur í hug.

Umsjón: Ásgeir H Ingólfsson

Þættir

Menningarsmygl – Kópernika

Menningarsmygl – Kópernikaarrow_forward

S01 E004 — 6. feb 2022

Kóperníka eftir Sölva Björn Sigurðsson er aðalumræðuefni fjórða þáttar Menningarsmygls, en bókin ber undirtitilinn „Skáldsaga um morð, ást og viðurstyggð.“ Hún fjallar um íslenska stúdenta í Kaupmannahöfn árið 1888 og röð morðmála sem einn þeirra, Finnur Kóperníkus, er að rannsaka. Við sögu koma ragettur og kirkjugarðar, nýlegar uppfinningar á borð við grammafóna og myndavélar sem koma fyrir í handtösku, spánskflugur og margt, margt fleira. Þar á meðal Erik Satie, sem á upphafstóna verksins.

Þeir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor og Árni Friðriksson menntaskólakennari og leikskáld eru gestir þáttarins – og fjalla auk Kóperníku um fyrri bækur Sölva, ævisögu Lyndon B. Johnson, bækur Margaret Atwood, Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur og sitthvað fleira.

Menningarsmygl – Spiderman og félagar

Menningarsmygl – Spiderman og félagararrow_forward

S01 E003 — 30. jan 2022

„Fyrsti klukkutíminn á Endgame er bara eins og að horfa á mynd eftir Ingmar Bergman.“

Spider-Man: No Way Home er fjórfalt vinsælli en nokkur önnur bíómynd eftir að kófið skall á heimsbyggðinni. En hvað þýðir þetta fyrir heimsbíóið og fyrir Hollywood? Hvað með allar hinar myndirnar? Hvað er besservisserabensín? Og er eitthvað vit í þessum nýjustu ævintýrum Köngulóarmannsins? Við fengum Birtu Ögn Elvarsdóttur, söngleikjafræðing og starfsmann í myndasögubúðinni Nexus, og Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarblaðamann, poppkúltúrfræðing og háskólakennara, til að rýna í málið.

Auk þess ræddum við stuttlega um aðrar stórmyndir síðustu jóla á borð við Sögu úr Vesturbænum (West Side Story), The Matrix Resurrections og Ghostbusters: Afterlife, auk þess sem sjónvarpsserían Euphoria kom við sögu.

Menningarsmygl – Jólabókaflóðið

Menningarsmygl – Jólabókaflóðiðarrow_forward

S01 E002 — 23. jan 2022

Jólabókavertíðinni er lokið – en hversu gjöful var hún? Við fengum Soffíu Auði Birgisdóttur og Gauta Kristmannsson til að ræða flóðið, en bæði eru mikilsvirkir bókmenntagagnrýnendur og bókmenntafræðingar, en Gauti flytur gagnrýni í Víðsjá á Rás 1 og Soffía Auður skrifar á vefinn skald.is.

Auk þess verður aðeins rætt um ritlaun sem og þýðingar, en Soffía Auður hefur meðal annars þýtt bækur Virginiu Woolf á íslensku og Gauti er um þessar mundir að leggja lokahönd á Töfrafjall Thomasar Mann. Auk þess veita þau okkur örlitla innsýn í færeyskar og þýskar bókmenntir.

Menningarsmygl – Don’t look up

Menningarsmygl – Don’t look uparrow_forward

S01 E001 — 16. jan 2022

Smyglið fagnar nýju ári með því að dusta rykið af viðtækjunum og hefja nýja sjónvarpsþáttaröð. Heiða Eiríksdóttir, Benedikt Erlingsson og Gunnar Hrafn Jónsson litu við í betri stofu Menningarsmyglsins og ræddu kvikmyndina Don’t Look Up við ritstjóra Smyglsins.

Þar að auki var rætt stuttlega um Himininn yfir Berlín, þáttaröðina Kalifat, makedónskar kvikmyndir á borð við Honeyland og Systrabönd og ýmislegt fleira. Loks kemur ljóðskáldið Willie Watson við í óvænta heimsókn og flytur ljóðrýni á Don’t Look Up.

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí