Í þriðja sinn liggur nú fyrir Alþingi tillaga að þingsályktun um opinbera rannsókn á þeim ofsóknum sem íslenskar konur og stúlkur sættu af hálfu stjórnvalda fyrir samneyti, eða grun um samneyti, við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar. Tillagan var fyrst lögð fram árið 2015. Bára Baldursdóttir, sagnfræðingur, minnir á sögu tillögunnar í lokaorðum nýútkominnar bókar sinnar, Kynlegt stríð: ástandið í nýju ljósi.
Ástandsskýrslan
Í ritinu er saga ofsóknanna rakin, meðal annars á grundvelli skjala sem ekki urðu aðgengileg fræðimönnum fyrr en árið 2012.
Í mars 1941 fólu yfirvöld Jóhönnu Knudsen, nýráðnum kvenlögregluþjóni í Reykjavík, að rannsaka samneyti íslenskra kvenna við breska og bandaríska karlmenn. Við upphaf rannsóknarinnar var Jóhönnu afhentur listi með nöfnum um 70 kvenna sem „taldar voru vændiskonur“. Í bók Báru er greint frá því hvernig Jóhanna og aðrir erindrekar yfirvalda eltu konur um bæinn og skráðu niður athugasemdir um hátterni þeirra, auk þess að leita umsagna um orðspor þeirra meðal almennings.
Á tveimur mánuðum fjölgaði konum og stúlkum á skránni í 500 og fyrir júnílok í alls yfir 800 nöfn. Við hvert nafn var rituð umsögn, allt frá „léttúðarorð“, „Bretaorð“, „hermannaorð“, yfir í „drykkfelld“, „lauslát“, „skækja“, og jafnvel afmennskandi orð á við „nagdýr“ eða „grýla“ og „5 aura“.
Þessi skrá varð grunnurinn að aðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn samneyti innfæddra kvenna og stúlkna við erlenda hermenn á sríðsárunum. Í bókinni er rakið hvernig herferð stjórnvalda byggði á þeirri afstöðu að í samskiptunum væri ekki við hermennina heldur við konurnar og stúlkurnar að sakast, sem með athæfi sínu stefndu „þjóðinni“ og „siðferði“ hennar í voða, eða eins og ritstjóri fréttamiðilsins Þjóðólfs orðaði það: „Stórfelld kynblöndun vofir yfir þjóðinni. Hundruð íslenzkra kvenna eru glataðar þjóð sinni og fósturjörð.“
Ár ungmennaeftirlitsins
Í bókinni er greint frá því hvernig „ástandsskýrslan“ leiddi til stofnunar Ástandsnefndarinnar, sem í slagtogi við Kvennanefndina og Biskupsnefndina sömdu fyrstu drög að því frumvarpi sem fyrst varð að bráðabirgðalögum, síðar lögum nr. 62/1942, um „eftirlit með ungmennum“. Á grundvelli þeirra laga var loks stofnað til Ungmennaeftirlitsins og Ungmennadómsins.
Ungmennaeftirlitið sendi 113 mál sem vörðuðu stúlkur til Ungmennadómsins. Þar af var úrskurðað í 42 málum. Að sögn bókarhöfundar er ljóst að þó svo að stúlkur og konur af öllum stigum samfélagsins hafi átt kynni við hermenn þá hafi þessar aðgerðir stjórnvalda nær eingöngu beinst að stúlkum af lægri stéttum. Eins og Jóhanna Knudsen skrifaði sjálf, sem forstöðukona Ungmennaeftirlitsins, fékkst hún við „stúlkur frá fátækum og menningarlitlum heimilum“.
Frásagnir bókarinnar af þeim stúlkum sem í krafti úrskurðar voru loks færðar nauðugar, í lögreglufylgd, til Sóttvarnarhússins við Ánanaust og á „vinnuskólann“ á Kleppjárnsreykjum, til betrunarvistar, eru átakanlegar. Af lestri bókarinnar verður einnig ljóst að því fer fjarri að einhugur hafi ríkt um þessar aðgerðir stjórnvalda. Kvenréttindakonur, fulltrúar Barnaverndarnefndar og framámenn úr röðum sósíalista beittu sér ítrekað gegn ofsóknunum, á einn veg og annan, þar til stjórnvöld lokuðu vinnuskólanum á Kleppjárnsreykjum, ári eftir að hann var stofnsettur, og lögðu loks niður Ungmennaeftirlitið og allt sem því fylgdi, í kjölfarið.
Siðafár eða ofsóknaræði, hvaða nafni sem það nefnist virðist það þar með að mestu hafa verið runnið af stjórnvöldum. Eftir lágu líf sem báru þess aldrei bætur. Til viðbótar við þá tugi stúlkna sem opinberar stofnanir beittu beinu valdi sátu hundruð uppi með þann stimpil að hafa verið „í ástandinu“. Margar hröktust úr landi.
Alþingi tefur í átta ár
Í lok bókarinnar víkur Bára Baldursdóttir að þingsályktunartillögunni sem nú bíður Alþingis í þriðja sinn, um opinbera rannsókn á að minnsta kosti hluta þessara ofsókna. Heiða Kristín Helgadóttir bar slíka tillögu fyrst fram á þingi haustið 2015, undir titlinum „Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar.“
Í greinargerð með tillögunni vísaði Heiða Kristín til heimildamyndar Ölmu Ómarsdóttur, Stúlkurnar á Kleppjárnsrekjum, sem frumsýnd var haustið 2015 og vakti mikla athygli og umræður. Þar er einnig vísað til rannsókna Þórs Whitehead, sem birtust árið 2013, þar sem hann sagði aðgerðir lögreglunnar árið 1941 hafa verið „víðtækustu njósnir um einkalíf manna hér á landi“.Þá er þar vikið orði að því að „sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni.“
Ljóst er að eftirlifendum fer nú óðum fækkandi, ef einhverjir eru. Bók Báru Baldursdóttur skerpir á því sem öllum má nú vera ljóst, að „ástandið“ fól í sér grimmilegar ofsóknir í garð berskjaldaðs hóps í íslensku samfélagi. Um leið veitir ritið harða áminningu um þá furðu að enn hafi opinber rannsókn á þeim ofsóknum ekki farið fram.