Áströlsk stjórnvöld kynntu í síðustu viku áætlanir um að byggja upp stærsta herskipaflota sem landið hefur átt frá því í Heimsstyrjöldinni síðari. Yfir 54 milljörðum ástralskra dollara verður veitt til uppbyggingarinnar næsta áratuginn. Það jafngildir um 4.831 milljarði króna. Ástæðan er, af greinendum, sögð vera aukinn spenna vegna umsvifa Kínverja á Kyrrahafinum.
Í heild stendur til að smíða flota sem telur 26 stór herskip, tundurspilla, freigátur og drónaskip, sem ýmist er hægt að manna með áhöfn eða fjarstýra án áhafnar. Þessi herskip bætast við flota kjarnorkuknúinna kafbáta sem til stendur að smíða samkvæmt samkomulagi Ástrala, Breta og Bandaríkjamanna. Gert er ráð fyrir að fyrstu þrír slíkir kafbátar verði sjósettir í byrjun næsta áratugar.
Kínverjar hafa byggt upp stærsta herskipaflota í heimi og eru umsvif hans einkum á Kyrrahafi, þar sem Kínverjar hafa fært sig upp á skaftið á umdeildum hafsvæðum og gert auknar kröfur um eignarhald yfir þeim. Í því efni sem áströlsk stjórnvöld hafa látið frá sér varðandi fyrirhugaða uppbyggingu er Kína ekki nefnt sérstaklega en engum blandast hugur um að Kínverjar eru sú ógn sem verið er að bregðast við með uppbyggingunni.
Stjórnarandstaðan í Ástralíu hefur gagnrýnt áformin, ekki vegna uppbyggingarinnar sjálfrar, heldur vegna þess hversu seint hún er á ferðinni og mun taka langan tíma. Ekki sé von til að ný herskip verði komin á flot fyrr en 2031 í fyrsta lagi, floti Ástrala sé einhver sá elsti í heiminum eins og sakir standa og hætta sé á að úrelda þurfi einhver núverandi skipa áður en ný hafa bæst í flotann.