Að minnsta kosti 22 eru látnir og fjölmargir eru særðir eftir að tvær sprengjur sprungu fyrir utan kosningamiðstöðvar í Pakistan í morgun. Pakistanar ganga að kjörborðinu á morgun og kjósa bæði til þings og til héraðsþinga. Enginn hefur lýst ábyrgð á hendur sér vegna hryðjuverkanna. Innanríkisráðherra Pakistan segir að hryðjuverkamönnum muni ekki takast að trufla kosningarnar.
Fyrr sprengjan sprakk á ellefta tímanum í dag að staðartíma fyrir utan kosningamiðstöð frambjóðandans Asfandyar Khan Kakar og létus í það minnsta 12 manns í árásinni. Árásin átti sér stað í Balochistan héraði, sem liggur að landamærum Afganistan. Frelsisher Balochistan hefur um árabil haldið úti árásum í héraðinu á pakistanska herinn og almenna borgara. Enginn hefur þó lýst ábyrgð á ódæðunum á hendur sér.
Sprengjuárásirnar voru gerðar þrátt fyrir að tugir þúsunda lögreglumanna og hermanna hafi verið kallaðir út í Pakistan til að tryggja friðinn, eftir fjölda árása í landinu að undanförnu
Seinni árásin var gerð við kosningaskrifstofu frambjóðandans Maulana Wasey, einnig í Balochistan héraði. Að minnsta kosti tugur er látinn og fjöldi alvarlega særður. Al Jazeera hefur eftir pakistönskum yfirvöldum að talið sé líklegt að fjöldi látinna muni aukast.