Alexander Lukashenko, forseti Belarús og helsti bandamaður Vladimirs Pútín Rússlandsforseta telur áhyggjur af því að ný heimsstyrjöld brjótist út séu réttmætar. Þetta sagði forsetinn á fundi með helstu framámönnum Belarús í höfuðborginni Minsk í dag.
Forsetinn sagði í viðtali við ríkis fréttastofuna BelTA að ráðast þyrfti í allar mögulegar aðgerðir til að búa landið undir átök framundan og útrýma ógnum. „Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þriðju heimsstyrjöldinni,“ bætti Lukashenka við.
Belarús er náið bandalagsríki Rússlands, svo mjög að ekki er ljóst hvar annað endar og hitt byrjar á tíðum. Rússar nýttu sér Belarús til að hefja innrás sína inn í Úkraínu fyrir tveimur árum, þar hafa Rússar flutt kjarnorkuvopn og þangað héldu málaliðar Wagner-hópsins eftir misheppnaða og furðulega uppreisn sína gegn rússneskum stjórnvöldum. Herjar landanna hafa þá haldið sameiginlegar æfingar. Þó stjórnvöld í Belarús fylgi Rússum nánast eins og skugginn í utanríkismálum hafa þau þó talað fyrir vopnahléi í stríðinu í Úkraínu. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að böndin milli ríkjanna tveggja hafi verið styrkt enn frekar síðustu tvö ár, frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu.
NATO ríkin standa nú að stærstu heræfingu í Evrópu frá 10. áratugnum þar sem um 90 þúsund hermenn æfa sameiginlega næstu mánuði. Lukashenka nefndi þær heræfingar sérstaklega og sagði að njósnastofnanir Belarús fylgdust með framvindu mála. Hann hélt því þá fram að um það bil 32 þúsund hermenn NATO ríkjanna væru staddir í næsta nágrenni við Belarús og Rússland.