Yfir eitt hundrað látnir í Chile af völdum skógarelda – Neyðarástandi lýst yfir

Að minnsta kosti 113 eru látnir í gríðarlegum skógareldum sem geysa í Valparíso héraði í Chile. Hundraða er saknað. Eldar geysa víðar í mið- og suðurhluta landsins en ógnarlegur hiti hefur plagað svæðið síðustu daga. Vísindamenn hafa ítrekað varað við því að náttúruhamfarir á borð við skógarelda muni færast í aukana og þeim fjölga verulega vegna hækkandi hitastigs jarðar af völdum loftslagsbreytinga. 

Skógareldar hafa logað í Chile frá því 20. janúar síðastliðnum, á mismunandi svæðum. Í lok mánaðarins reið hitabylgja yfir miðbik landsins sem orsakaði enn frekari útbreiðslu eldanna. Hitastig hefur farið allt upp í 40 gráður á celcius víða í Chile og þá hefur verið mikill þurrkur ásamt verulegum vindi, sem magnaður er upp af El Niño veðurkerfinu. 

Greint var frá því um liðna helgi að yfir 90 eldar loguðu í mið- og suðurhluta Chile. Síðan þá hefur viðbragðsaðilum tekist að koma böndum á yfir 40 þeirra.Yfirvöld segja að grunur sé um að einhverjir eldanna hafi verið vísvitandi kveiktir. 

Lýst hefur verið yfir útgöngubanni á stórum svæðum í Valparaíso héraði. Bara í borginni Viña del Mar, sem er strandbær og vinsæll ferðamannastaður, er 370 manns saknað. 

Hættustig hefur verið fært upp í Valparaíso héraði af heilbrigðisráðuneyti Chile. Setja á upp bráðabirgðasjúkrahús á svæðinu og munu læknanemar og hjúkrunarfræðinemar sem eru langt komnir í námi verða fengnir til aðstoðar heilbrigðisstarfsfólki til að bregðast við álaginu á heilbrigðiskerfið. 

Forseti Chile, Gabriel Boric, lýsti yfir neyðarástandi þegar 3. febrúar og á sama tíma einnig tveggja daga þjóðarsorg. Talið er að um mannskæðustu skógarelda allra tíma í Chile sé að ræða og mannskæðustu nátttúruhamfarir í landinu síðan árið 2010, þegar gríðarstór jarðaskjálfti reið yfir út fyrir strönd landsins. Jarðskjálftanum fylgdi flóðbylgja sem kostaði á sjötta hundrað manns lífið og olli gríðarlegri eyðileggingu. 

Þegar hafa um 26 þúsund hektarar lands orðið eldinum að bráð þrátt fyrir að hátt í 3.000 slökkviliðsmenn og hermenn berjist við að hemja þá. Þyrlum og flugvélum í tugatali er þá beitt gegn eldunum. Boric forseti hefur lýst því yfir að öllum björgum verði beitt til að ráða niðurlögum eldanna. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra birti í gær færslu á Twitter þar sem hann hann sendi borgurum Chile samúðarkveðjur. „Hugur okkar er hjá fórnarlömbum þessa hörmulega atburðar og fjölskyldum þeirra,“ sagði Bjarni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí