Að minnsta kosti 113 eru látnir í gríðarlegum skógareldum sem geysa í Valparíso héraði í Chile. Hundraða er saknað. Eldar geysa víðar í mið- og suðurhluta landsins en ógnarlegur hiti hefur plagað svæðið síðustu daga. Vísindamenn hafa ítrekað varað við því að náttúruhamfarir á borð við skógarelda muni færast í aukana og þeim fjölga verulega vegna hækkandi hitastigs jarðar af völdum loftslagsbreytinga.
Skógareldar hafa logað í Chile frá því 20. janúar síðastliðnum, á mismunandi svæðum. Í lok mánaðarins reið hitabylgja yfir miðbik landsins sem orsakaði enn frekari útbreiðslu eldanna. Hitastig hefur farið allt upp í 40 gráður á celcius víða í Chile og þá hefur verið mikill þurrkur ásamt verulegum vindi, sem magnaður er upp af El Niño veðurkerfinu.
Greint var frá því um liðna helgi að yfir 90 eldar loguðu í mið- og suðurhluta Chile. Síðan þá hefur viðbragðsaðilum tekist að koma böndum á yfir 40 þeirra.Yfirvöld segja að grunur sé um að einhverjir eldanna hafi verið vísvitandi kveiktir.
Lýst hefur verið yfir útgöngubanni á stórum svæðum í Valparaíso héraði. Bara í borginni Viña del Mar, sem er strandbær og vinsæll ferðamannastaður, er 370 manns saknað.
Hættustig hefur verið fært upp í Valparaíso héraði af heilbrigðisráðuneyti Chile. Setja á upp bráðabirgðasjúkrahús á svæðinu og munu læknanemar og hjúkrunarfræðinemar sem eru langt komnir í námi verða fengnir til aðstoðar heilbrigðisstarfsfólki til að bregðast við álaginu á heilbrigðiskerfið.
Forseti Chile, Gabriel Boric, lýsti yfir neyðarástandi þegar 3. febrúar og á sama tíma einnig tveggja daga þjóðarsorg. Talið er að um mannskæðustu skógarelda allra tíma í Chile sé að ræða og mannskæðustu nátttúruhamfarir í landinu síðan árið 2010, þegar gríðarstór jarðaskjálfti reið yfir út fyrir strönd landsins. Jarðskjálftanum fylgdi flóðbylgja sem kostaði á sjötta hundrað manns lífið og olli gríðarlegri eyðileggingu.
Þegar hafa um 26 þúsund hektarar lands orðið eldinum að bráð þrátt fyrir að hátt í 3.000 slökkviliðsmenn og hermenn berjist við að hemja þá. Þyrlum og flugvélum í tugatali er þá beitt gegn eldunum. Boric forseti hefur lýst því yfir að öllum björgum verði beitt til að ráða niðurlögum eldanna.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra birti í gær færslu á Twitter þar sem hann hann sendi borgurum Chile samúðarkveðjur. „Hugur okkar er hjá fórnarlömbum þessa hörmulega atburðar og fjölskyldum þeirra,“ sagði Bjarni.