Mun meiri blöndun var á milli Skandinava og Breta á víkingaöld en áður var talið

Víkingaöldin í Skandinavíu var tími hreyfanleika og ferðalaga, sem olli því aftur að mikil blöndun átti sér stað meðal þjóða og þjóðflokka, mun meiri en verið hafði meðal Skandinava á járnöld. Fólkið sem byggði Skandinavíu á á árunum 750 til 1050 var ekki einsleitur hópur heldur margbreytilegur. Erfðaefni sýnir að víkingarnir komu víða að. 

Í nýrri rannsókn sem birt er í vísindaritinu Cell kemur fram að bresk og írskættað fólk var víða að finna í Skandinavíu þegar leið á víkingaöldina. Innkoma þessa fólks virðist samkvæmt rannsókninni hafa haft veruleg og varanleg áhrif á genasamsetningu í Skandinavíu, víðast hvar. Sú niðurstaða er í takt við þá þekkingu sem til staðar er um víkingakonunginn Knút ríka, sem á sama tíma upp úr árinu 1.000 ríkti yfir Danmörku, Noregi og Englandi. Konungstignina tók hann raunar í arf frá föður sínum, Sveini tjúguskeggi sem árið 1013 gerði inrás í England og náði þar völdum, en lést eftir mánuð á konungsstóli. Englendingar snerust þá gegn Knúti sem neyddist til að flýja heim til Danmerkur, en lagði England að nýju undir sig árið 1017. 

Samar þegar í Skandinavíu á víkingaöld

Rannsóknarnðurstöður sýna einnig að töluverð tegnsl hafa verið milli austurs og vesturs á víkingaöld, þannig sjást merki um samskipti milli Bretlandseyja og svæða austar Eystrasalts. Þá er hægt að greina svokallað „úralskt“ erfðaefni í töluverðum mæli í norðurhluta Skandinavíu á víkingaöld en það er í dag einkum að finna hjá Sömum. Það þýðir að öllum líkindum að Samar hafi þegar verið komnir til sögunnar í Skandinavíu á víkingaöld, sem passar vel við sögulegar heimildir, segir Søren Michael Sindbæk, í samtali við dönsku vísindafréttasíðuna videnskab.dk. Sindbæk er prófessor í fornleifafræði við háskólann í Árósum, og hefur sérhæft sig í víkingöldinni. 

Nýja rannsóknin er framhald á eldri rannsókn á mannfjölda og erfðaefnissamsetningu víkingaaldar sem birt var í vísindaritinu Nature árið 2020. Í þeirri rannsókn kom fram að á víkingaöld blönduðust Skandinavar, einkum Danir og Svíar, í auknum mæli fólki sem kom frá löndum sunnar og austar í Evrópu, og einnig, en í minna mæli, fólki frá Asíu. Eske Willerslev sem leiddi þá rannsókn lýsti því svo að víkingarnir „hefðu stundað kynlíf hvar sem þeir komu“. 

Eykur þekkingu á Svíum

Nýja rannsóknin eykur þekkingu á þessum tíma, þar eð í henni er greint töluvert meira erfðaefni, einkum frá Svíþjóð, þar sem fátt erfðaefni hefur verið greint til þessa. Slík gögn hefur verið erfitt að nálgast í Svíþjóð því algengt var að lík væru brennd þar bæði á járnöld og víkingaöld, sem gerir það að verkum að erfðaefni hefur ekki varðveist. Nú hafi tekist að finna grafir með beinagrindum sem hægt sé að rannsaka. Sindbæk bendir á að þó að það sé jákvætt þurfi samt að velta fyrir sér hvort í þeim gröfum hafi legið fólk sem er dæmigert fyrir það fólk sem byggði Svíþjóð á víkingaöld og járnöld, eða hvort það sé einmitt til marks um að fólkið sem um ræðir hafi með einhverjum hætti verið öðruvísi en fjöldinn, sökum þess að það var grafið en ekki brennt. 

Rannsóknin var gerð á 48 líkamsleifum sem ekki hafa áður verið rannsakaðar, og 249 líkamsleifum sem áður hafa verið greindar, frá þekktum fornleifafundum víðs vegar. Þá byggir rannsóknin á erfðafræðilegum gögnum frá yfir 16.500 núlifandi manneskjum búsettum í Skandinavíu. 

Ekki síst konur sem ferðuðust

Rannsóknarniðurstöðurnar sýna einnig að það voru ekki síst konur sem ferðuðust um. Sindbæk segir að það sé athyglisvert og bendir á eina af merkilegri niðurstöðum rannsóknarinnar, þar sem kona sem uppi var á 10. öld fannst í gröf í Sala í Svíþjóð. Hún hafi augljóslega verið grafin í klæðum með hefðbundnu skandinavísku búningaskrauti, en erfðefni hennar sýni að hún var annað hvort bresk eða dóttir bresks innflytjanda. Miðað við skrautið og það hvernig gröfin var útbúin má telja næsta víst að konan hafi verið tigin kona í samfélaginu. Ekki sé þó hægt að segja til um hvort hún hafi sjálfviljug, eða ættmenni hennar, ferðast frá Bretlandseyjum eða hvort hún hafi verið ambátt. 

Þá er annað dæmi að finna í rannsókninni um konu frá Bretlandseyjum sem fannst í gröf í Gerdrup við Hróarskeldu í Danmörku. Sú var uppi á 5. öld, járnöld, og er hún elsta dæmi um manneskju frá Bretlandseyjum í Skandinavíu, svo vitað sé. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí