Frjálslyndir flokkar stjórnarandstöðunnar unnu stórsigur í þingkosningunum í Suður-Kóreu sem fram fóru í gær. Að sama skapi hlaut íhaldsflokku Yoon Suk Yeol forseta landsins útreið í kosningunum.
Búið er að telja 99 prósent atkvæða og ljóst er að Lýðræðisflokkurinn hlaut 175 þingsæti af 300. Annað frjálslynt afl, Endurreisnarflokkurinn, sem litið er á sem bandalags flokk Lýðræðisflokksins, hlaut 12 þingsæti. Íhaldsflokkur Yoon, Þjóðveldisflokkurinn, ásamt bandalagsflokki sínum virðist hafa hlotið 109 þingsæti. Þetta þýðir þó að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki náð auknum meirihluta á þinginu.
Leiðtogi Lýðræðisflokksins, Lee Jae-myung fagnaði sigrinum og sagði að áherslan nú yrði að vera á efnahagsumbætur. Sagði hann að stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar yrðu að taka höndum saman í því verkefni.
Kosningabaráttan þótti óvenjuhörð og af stjórnmálaskýrendum var litið svo á að kosningarnar væru í raun atkvæðagreiðsla um traust á Yoon forseta, jafnvel þó hann væri ekki í kjöri. Vinsældir forsetans hafa dalað verulega vegna efnahagsþrenginga í landinu, sem og hrinu pólitískra hneykslismála.
Yoon hefur setið að völdum frá því í maí 2022 og ljóst er að hann verður í minni færum til að koma að lagasetningu eftir úrslitin í gær. Því verður uppi pattstaða í þeim málaflokkum þar sem forsetann greinir á við frjálslyndari öfl, til að mynda varðandi breytingar á skattkerfinu.
Yoon lýsti því eftir að úrslitin urðu ljós að hann myndi gera breytingar á íhaldsstjórn sinni.