Stjórnvöld í Búrkína Fasó hafa stöðvað útsendingar BBC og Voice of America (VOA) útvarpsstöðvanna þar í landi. Verða stöðvarnar úr loftinu í tvær vikur, hið minnsta. Ástæðan er umfjallanir stöðvanna um skýrslu alþjóðlegur mannréttindasamtakanna Human Rights Watch (HRW) þar sem stjórnarherinn í landinu er sakaður um að hafa tekið hundruð óbreyttra borgara af lífi án dóms og laga.
Í skýrslu HRW segir að hermenn hafi tekið af lífi 223 óbreytta borgara, þar af að minnsta kosti 56 börn, í tveimur þorpum í landinu í febrúar síðastliðinn.
Opinbera stofnunin sem stýrir samskiptamálum í landinu, CSC, tilkynnti í gær að útsendingar alþjóðlegu útvarpsstöðvanna tveggja sem senda út frá höfuðborginni Ouagadougou hafi verið stöðvaðar í tvær vikur. Í tilkynningunni segir að í skýrslunni séu ósannaðar fullyrðingar og ásakanir á hendur hernum sem líklegar séu til að ógna almannafriði. Ásaknirnar séu dregnar í fljótfærni og án hlutlægni, og fyrir þeim séu ekki áþreifanlegar sannanir.
Greint er frá því að netþjónurstur í Búrkína Fasó hafi enn fremur fengið fyrirskipanir um að loka fyrir aðgang að netsíðum og öðrum vefþjónustum BBC, VOA og HRW.
Þá varaði talskona CSC, Tonssira Myrian Corine Sanou, aðra fjölmiðla við því að flytja fréttir af skýrslunni.
Í yfirlýsingu frá VOA segir að útvarpsstöðin standi við fréttaflutning sinn þegar kemur að Búrkína Fasó og hyggist halda áfram að flytja fréttir af dýpt og sanngirni af því sem gerist í landinu.
Í skýrslu Human Rights Watch segir að „fjöldamorðin“ virðist vera hluti af víðtækri herferð gegn almennum borgurum sem sakaðir hafa verið um að vinna með uppreisnarhópum. Hermenn hafi myrt að minnsta kosti 44 manns, þar af 20 börn, í þorpin Nondin, og 179 manns, þar af 35 börn, í nágrannaþorpinu Soro.
HRW tók viðtöl við tugi vitna í febrúar og mars, auk þess að greina myndskeið og ljósmyndir sem eftirlifendur höfðu deilt. Þá tóku samtökin saman nafnalista yfir fórnarlömbin og staðsettu átta fjöldagrafir miðað við gervihnattamyndir sem sóttar voru 15. mars.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld í landinu loka fyrir útsendingar fjölmiðla. Á síðasta ári lokuðu þau útsendingum frönsku fréttastofanna LCI og France24, sem og útvarpsstöðinni Radio France Internationale og stöðvuðu útgáfu tímaritsins Jeune Afrique. Þá hafa þau vísað fréttariturum frönsku blaðanna Liberation og Le Monde úr landi.
Búrkína Fasó er stýrt af herforingjastjórn Ibrahim Traore, sem rændi völdum í september árið 2022. Átta mánuðum fyrr hafði herinn áður rænt völdum af lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Roch Marc Kabore.
Síðan þá hafa almennir borgarar lent á milli steins og sleggju eftir því sem átök hafa aukist millum hersins og vígahópa með tengsl við bæði al-Qaeda og Íslamska ríkisins. Herforingjastjórnin hefur slitið á tengsl sín við fyrrverandi nýlenduherra sína, Frakka, og snúið sér í átt til Rússa.