Téténar banna of hraða og of hæga tónlist – Taylor Swift og Drake meðal þeirra sem lenda undir hnífnum

Yfirvöld í sjálfstjórnarlýðveldinu Téténíu hafa kynnt bann við allri tónlist sem þau telja of hraða eða of hæga. Bannið þýðir að teknó og dantónlist mun ekki heyrast í Téténíu, og stór hluti popp- og rokktónlistar verður útlægur gjör. 

Menningarmálaráðherra sjálfstjórnarlýðveldisins, Musa Dadayev, greindi frá því að ákveðið hefði verið að takmarka alla tónlist, söng og dans í Téténíu við hraða sem er á bilinu 80 til 116 slög á mínútu. Greindi hann frá því að þetta væri gert í samráði við og eftir fyrirskipunum leiðtogans Ramzan Kadyrov, sem stýrir Téténíu í umboði stjórnvalda í Kreml, með einræðistilburðum. 

Með tilskipuninni á að færa tónlist og dans í Téténíu í átt að téténsku hugarfari og tónlistarlegri menningu, til að færa fólkinu og börnum framtíðarinnar menningararfleifð Téténa, að því er Dadayev sagði á föstudaginn var. Koma á í veg fyrir að vestræn áhrif mengi hina hreinlyndu Téténa. 

Téténskir tónlistarmenn munu nú hafa fram til 1. júní til að endursemja eða endurútfæra tónlist sína, svo hún verði heimiluð. 

Fréttamiðillinn Politico hefur tekið saman að tónlist nokkurra af stærstu tónlistarstjörnum samtímans verði þar með bönnuð í Tétténíu. Þannig verður óheimilt að spila stórsmelli dívunnar Beyonce á borð við kvennréttindaóðinn Run the World (Girls) og Single Ladies. Shake it off, Cruel Summer og Bad Blood, allt risa stórir smellir einnar vinsælustu tónlistarkonu heim, Taylor Swift, lenda líka undir hnífnum. Swift er eins og sakir standa sá tónlistarmaður sem mest er streymt á Spotify en kanadíski tónlistarmaðurinn Drake er sá karlmaður sem hefur mest streymi á efnisveitunni. Og Drake á heldur ekki upp á pallborðið hjá téténskum yfirvöldum, risasmellurinn Hotline Bling er þannig of hraður en og stórsmellurinn God’s Plan of hægur. 

Ofsóknir gegn hinsegin fólki og mannréttindabrot

Téténsk stjórnvöld hafa tekið sér mjög einarða stöðu með herrum sínum í Rússlandi, og styðja til að mynda innrásina í Úkraínu með ráðum og dáð. Leiðtogi þeirra, Kadyrov, hefur setið síðan árið 2007 og hefur nýtt tíma sinn til að berja niður hvers konar mótstöðu og andúð. 

Meðal annars hafa borist vitnisburðir um það sem ekki er hægt að kalla annað en ofbeldisfullar hreinsanir gagnvart hommum, og ofsóknir gegn hinsegin fólki. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað þá framgöngu “ofsóknir og ofbeldi af áður óþekktri stærðargráðu”. 

Baráttufólk og aktívistar hafa greint frá því að alda árása og ofbeldis hafi riðið yfir homma í Téténíu árið 2017 og að hommar hafi verið myrtir sökum kynhneigðar sinnar. Önnur slík alda reið yfir í byrjun árs 2019 en þá báru aktívistar að tugir manna og kvenna hefðu verið tekin höndum og að minnsta kosti tvennt hefði látist í haldi. Kadyrov brást þá við með því að segja að í Téténíu væru engir samkynhneigðir, og ef svo ólíklega væri, þá ætti að flytja þá á brott. 

Þá ber Kadyrov einnig ábyrgð á því að hafa barið af hörku niður aðskilnaðarsinna Téténa, sem börðust fyrir sjálfstæði frá Rússlandi fyrir um tveimur áratugum. 

Bandaríska Utanríkisráðuneytið setti Kadyrov á svartan lista um mitt ár 2020 og beitti hann refsiaðgerðum fyrir þátttöku hans í stórfelldum brotum gegn mannréttindum. Þar á meðal væru pyntingar og aftökur án dóms og laga. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí