ESB stöðvar aðildarferli Georgíu – refsiaðgerð fyrir nýleg lög um erlend félagasamtök

Georgía 10. júl 2024 Tjörvi Schiöth
Georgia-EU

Georgía fær ekki lengur að stefna að því að ganga í Evrópusambandið, en landið fékk stöðu umsóknarríkis fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan, í desember 2023.

Sendiherra Evrópusambandsins í Georgíu, Pawel Herczynski, tilkynnti þetta á fundi í Tíblisi:

Því miður hefur aðildarferli Georgíu að ESB verið stöðvað í bili – þetta var ákveðið af leiðtogum ESB á síðasta leiðtogaráði Evrópusambandsins.

ESB hefur fryst stuðning sinn við Georgíu frá Evrópsku friðarstofnuninni – 30 milljónir evra fyrir árið 2024. Verið er að skoða aðrar aðgerðir ef ástandið versnar enn frekar.

Það er leiðinlegt að sjá samskipti ESB og Georgíu vera á svona lágu stigi, þegar þau hefðu getað verið mun betri.

Ákvörðunin var tekin stuttu eftir að Georgía innleiddi lög sem hafa verið kölluð „foreign agents law“, eða lög um erlend félagasamtök. Þessi lög kveða á um að fjölmiðlar og svokölluð frjáls félagasamtök (non-governmental organizations eða NGOs), sem hafa 20% eða meira af sínu fjármagni erlendis frá, þurfi að skrá sig sem „foreign agents“. Það þýðir m.a. að fjölmiðlar eins og Radio Liberty, sem er bandarískur ríkisfjölmiðill, þurfi að skrá sig sem slíkur í Georgíu.

Þetta eru svipuð lög eins og þau sem eru í gildi í Bandaríkjunum, Foreign Agents Registration Act (FARA), sem kveða á um nokkurn veginn hið sama. En lagasetningu Georgíu hefur einnig verið líkt saman við sambærileg lög í Rússlandi sem eru kölluð Russian foreign agent law. Þess vegna hafa Evrópusinnar og NATO-sinnar gagnrýnt þessa lagasetningu í Georgíu og kallað þetta „rússnesku lögin“. En væri ekki nær að kalla þetta „amerísku lögin“? Þar sem lagasetningin er mjög svipuð og FARA, lög sem eru í gildi í Bandaríkjunum.

Þeir sem gagnrýna þessi lög harðlega eru aðilar eins Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, en hún fór í heimsókn til Georgíu þann 15. maí síðastliðinn til að taka þátt í mótmælum gegn lagasetningunni ásamt utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna.

Þórdís Kolbrún á mótmælum í Tíblisi þann 15. maí, ásamt Margus Tsahkna utanríkisráðherra Eistlands, og Gabrielius Landsbergis utanríkisráðherra Litháens.

Þórdís Kolbrún sagði:

Lögin, sem samþykkt voru í Georgíu í gær, og beinast að erlendu eignarhaldi fjölmiðla og samtaka, færa landið fjær Evrópusambandinu, Atlantshafsbandalaginu og hinum frjálsa heimi.

Falleg retórík. En fjöllum aðeins um það sem þessi lagasetning snýst raunverulega um:

Lögin virðast beinast gegn samtökum eins og National Endowment for Democracy, sem eru bandarísk NGO samtök sem hafa þann tilgang að styðja við „lýðræði“ í löndum víða um heim. Gagnrýnendur benda hinsvegar á að slík samtök framfylgi hagsmunum Bandaríkjanna og vinni að því að koma á stjórnarskiptum („regime change“) með það að markmiði að koma ríkisstjórn á laggirnar sem er hliðholl Bandaríkjunum, og með svokallað lýðræðiskerfi (svipað og Bandaríkin reyndu að koma á laggirnar í Írak og Afganistan með vopnavaldi, það var kallað „lýðræði“ að amerískri fyrirmynd).

Bent hefur verið á að samtök eins og National Endowment for Democracy eru trójuhestur og geri einfaldlega opinberlega það sem leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA hefur áður gert á leynilegan hátt. Nefnilega að styðja við uppreisnaröfl, stuðla að stjórnarskiptum eða jafnvel valdaráni, sem sagt að steypa af stóli ríkisstjórnum sem eru óvinveittar Bandaríkjunum og koma sínum strengjabrúðum til valda. En í sögunni eru ótal dæmi um slíkt.

Blaðamaðurinn Kit Klarenberg hjá Grayzone hefur greint frá því að ótal NGO samtök eins og National Endowment for Democracy starfa í Georgíu sem vinna að því að stuðla að svokallaðri „litabyltingu“ og koma á stjórnarskiptum í landinu.

Georgía var eitt af níu umsóknarríkjum að ESB, ásamt Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Moldóvu, Svartfjallalandi, Norður-Makedónía, Serbíu, Tyrklandi og Úkraínu, en er það ekki lengur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí