Við Kröfluvirkjun á Norðausturlandi er nú komin upp myndavél og lítið skilti vinstra megin við Þjóðveg 863 sem tilkynnir um gjaldskyldu.
Náttúruperlurnar Stóra Víti og Leirhnúkur, þar sem áður var hægt að leggja bíl á bílaplönum og njóta náttúrufyrirbæranna ókeypis, eru því ekki lengur fríar og sönnun þess að vegfarendur skuldi pening er bundin við fyrrnefnda myndavél.
Áleitin spurning að sögn vegfarenda sem hafa haft samband við fréttafólk Samstöðvarinnar er hvort verið sé að innheimta gjöld með löglegum hætti, burtséð frá því að við Leirhnúk og Stóra víti fái gestir ekki mikla þjónustu fyrir peninginn.
Þarna hafa sem dæmi verið klósett en þau eru nú lokuð. Heimildamaður Samstöðvarinnar sem fór þarna um segist hafa rekist á helling af klósettpappír, göngustíg hefur ekki verið haldið við, hann sé í mjög vondu ásigkomulagi, girðingar liggi flatar og fleira mætti nefna.
Þá vakni spurningar um hvernig fólk sem telur sig hlunnfarið getur leitað réttar síns. QR kóði á skilti á svæðinu vegna gjaldskyldunnar taki notanda á síðu með .io lén sem eru Chagas eyjar. Þar eru engir íbúar eftir að Bretar fluttu þá á brott til að gera Diego Garcia herstöðina. Þetta er þekkt lén hjá svikasíðum og snúnara en ella fyrir fólk að leita réttar síns.

Í Easypark appinu er boðið upp á róbota sem svarar fyrirspurnum óánægðra. Kemur fram að Easypark bjóði bara upp á greiðsluþjónustu og segir þeim sem kvarta að tala við rekstraraðila bílastæðisins. Þeir sem eru ókunnugir landeigendum gætu mögulega þurft að senda bréf í pósthólf.
Einn heimildarmaður Samstöðvarinnar kallar þetta ”vegrán” á þjóðvegi, þar sem engin leið sé að segja til um þótt bifreið hafi verið mynduð hvort bíl hafi verið lagt við stæðin. Þá séu ótaldar lélegar merkingar og rukkunin fyrir bílastæði sé með óvissu eignarhaldi og á mögulegri svikasíðu. Vegagerðinni var ekki kunnugt um myndavélina þegar Samstöðin sendi fyrirspurn en það hafi þýðingu hvort skiltið sé utan helgunarsvæðis vegarins.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að mjög mörg mál hafi komið upp nýverið er varði árekstra á gjaldtökubílastæðum, meinta ólöglega gjaldheimtu, deilur um sönnunarbyrði eða sektir. Hann efast um að löglegt sé að beita sektum eða viðbótarálagi ef fólk greiðir ekki strax við komu og bendir á að það skuli samkvæmt lögum aðeins á forræði opinberra aðila að sekta fólk. Hins vegar séu margir landeigendur til fyrirmyndar og rukki hóflega án þess að hóta nokkru sinni viðbótarálagi. Oft fái gestir mikla þjónustu með því að leggja bíl á gjaldskylt bílastæði, svo sem aðgengi að salerni, vatni, hagnýtar upplýsingar og hrein svæði, oft vel viðhaldið af hálfu launaðra starfskrafta.

Neytendasamtökin fá nú daglega um fimm kvartanir frá Íslendingum sem telja sig hlunnfarna í viðskiptum við aðila sem krefjast greiðslu á svæðum sem oft voru áður frí. Þá er ógetið þeirra erlendu gesta sem eflaust hafa margir sögu að segja. Virðist í sumum tilfellum gjaldtöku vera komið að þolmörkum í þessum efnum að sögn Breka. Hann gagnrýnir sérstaklega Isavia, opinbera stofnun sem hafi ekki verið til fyrirmyndar í þessum efnum.