Grunnlaun borgarfulltrúa hafa hækkað um 71.512 kr. á einu ári. Grunnlaunin voru 892.135 kr. þann 1. júlí 2022 en eru nú 963.647 kr. Ofan á þau laun leggjast oft aukagreiðslur m.a. vegna starfa í nefndum og ráðum. Á síðustu fimm árum hafa grunnlaunin hækkað um 264.463 kr. Launin uppfærast tvisvar sinnum á ári í takt við þróun launavísitölunnar.
Nú erum við á þeim stað að enginn borgarfulltrúi er með undir 1.204.559 kr. á mánuði, þar sem sérstakar greiðslur leggjast ofan á grunnlaunin. Hæsta álagsgreiðslan eins og það er kallað fer til forseta borgarstjórnar sem fær 481.824 kr. á mánuði ofan á aðrar launagreiðslur. Forseti borgarstjórnar er sá borgarfulltrúi sem sér um utanumhald vegna borgarstjórnarfunda og fær fyrir það greiðslu sem er hærri en lágmarkslaun.
Laun borgarfulltrúa voru áður tengd þingfarakaupi og ákvörðun Kjararáðs og miðuðu við 78,82% af þingfarakaupi. Árið 2017 samþykkti borgarstjórn nýtt fyrirkomulag þar sem ákveðið var að tengja launin við þróun launavísitölunnar. Í samþykktinni frá þeim tíma kom m.a. fram að tenging við launavísitölu væri „ […] til þess að endurspegla betur almenna launaþróun þannig að gætt verði samræmis við rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins.“
Borgarstjórn ákvað á sínum tíma að grípa inn í fyrirhugaða launahækkun sem hún taldi fráleita og ákvað að aftengja sig við ákvörðun Kjararáðs. Sósíalistar í borginni telja löngu tímabært að endurskoða launaþróunina sem er nú við lýði. Um er að ræða há laun sem hækka sjálfkrafa tvisvar sinnum ári. Launahækkanir eru miklar þar sem þær leggjast ofan á sífellt hærri grunnlaun.
Sósíalistar í borgarstjórn leggja því til að borgarfulltrúar hafni launahækkun sem er boðuð á þessu ári og endurskoði launauppbyggingu kjörinna fulltrúa með það að leiðarljósi að búa til eðlilegra og réttlátara viðmið um launin. Í þeirri vinnu leggja Sósíalistar til að sett verði fram viðmið um hvað teljist eðlilegt launabil á milli hæstu og lægstu launa hjá borginni og fyrirtækja í eigu hennar.