Er það ráðlegt fyrir mann, sem ekki er sérfræðingur í lögmálum efnahags- og þjóðfélagsmála, að láta í ljós skoðanir á viðfangsefni sem sósíalisma? Af mörgum ástæðum tel ég að svo sé.
Við skulum fyrst athuga spurninguna frá sjónarmiði vísindalegrar þekkingar. Það kann að virðast sem enginn meginmunur sé á starfsaðferðum í geimfræðum og hagfræði. Vísindamenn i báðum greinum leitast við að uppgötva lögmál, er gildi fyrir ákveðinn hóp af fyrirbærum, í þeim tilgangi að gera samband þessara fyrirbæra eins auðskilið og unnt er. — En í rauninni er þarna um mun á vinnuaðferðum að ræða. Uppgötvun algildra lögmála á sviði hagfræðinnar er erfiðleikum háð, sökum þess að sýnileg hagfræðileg fyrirbæri eru oft undir áhrifum frá mörgum þáttum, sem afar erfitt er að kanna sérstaklega hvern fyrir sig. Þar að auki hefur sú reynsla, sem safnazt hefur frá upphafi hins svokallaða siðmenningarskeiðs í sögu mannkynsins, eins og allir vita, verið undir áhrifum og mótazt af orsökum sem alls ekki eru einvörðungu hagfræðilegs eðlis. Til dæmis byggðist tilvera flestra helztu ríkja mannkynssögunnar á hernaðarsigrum.
Sigurvegararnir gerðust stjórnarfarsleg og efnahagsleg forréttindastétt í hinum sigruðu löndum. Þeir slógu eign sinni á landið og skipuðu í prestastétt úr sínum eigin röðum. Með stjórn menningarmála í sínum höndum gerðu klerkarnir stéttaskiptingu þjóðfélagsins að varanlegu stjórnarfarslegu fyrirkomulagi og sköpuðu gildiskerfi, sem að miklu leyti ómeðvitað ákvarðaði þjóðfélagslega hegðun fólksins upp frá því. Það má segja, að erfðavenjur sögunnar heyri liðinni tíð. Raunverulega höfum við hvergi sigrazt á því sem Thorstein Veblen kallar „ránsstigið“ í þróun mannkynsins. Þær hagfræðilegu staðreyndir, sem unnt er að rannsaka, tilheyra þessu stigi, og jafnvel þau lögmál, sem af þeim eru dregin, hæfa ekki öðrum stigum. Þar sem raunverulegur tilgangur sósíalisma er einmitt sá að sigrast á og komast frá „ránsstiginu“ í þróun mannfélagsins, geta hagfræðivísindi nútímans litlu ljósi varpað á sósíalistaþjóðfélag framtíðarinnar.
Í öðru lagi stefnir sósíalisminn að siðfræðilegu markmiði í þjóðfélagsmálum. Hinsvegar geta vísindi aldrei skapað markmið og enn síður gróðursett þau í mannleg hjörtu. Vísindi geta í hæsta lagi vísað leið að ákveðnum markmiðum. En markmiðin sjálf eru mótuð af mönnum með háleitar siðgæðishugsjónir, og séu þessi markmið ekki andvana fædd, heldur lifandi og máttug, eru hugsjónirnar fóstraðar og fram bornar af þeim mörgu einstaklingum, sem að mestu ómeðvitað ráða þróun þjóðfélagsins þótt hægt fari.
Af þessum ástæðum ættum við að gæta þess að ofmeta ekki vísindi og vísindaaðferðir, þegar um er að ræða mannleg vandamál. Og við skulum ekki ganga út frá því sem vísu, að sérfræðingar séu þeir einu, sem hafi rétt til að láta í ljós skoðanir sínar á vandamálum, sem varða skipulag þjóðfélagsins.
Óteljandi raddir hafa nú um nokkurn tíma fullyrt, að mannlegt samfélag sé á hættulegum tímamótum og alvarlegir brestir séu komnir í máttarviði þess. Það er einkenni sliks ástands að menn hafa afskiptalausa eða jafnvel fjandsamlega afstöðu til heildarinnar, sem þeir heyra til, hvort heldur hún er stór eða smá. Til að skýra hvað ég á við vil ég nefna hér persónulega reynslu. Ég átti nýlega tal við gáfaðan og velmetinn borgara um ógnun enn einnar heimsstyrjaldar, sem að mínu áliti mundi tefla tilveru mannkynsins í alvarlega hættu, og ég taldi að aðeins alþjóðaskipulag gæti skapað vörn við slíkri hættu. Þessu svaraði gestur minn rólega og kuldalega: „Af hverju ert þú svona ákaflega mótfallinn eyðingu mannkynsins?“
Ég er viss um að aðeins fyrir einni öld hefði enginn látið sér svo gálauslega athugasemd um munn fara. Þetta er athugasemd manns, sem árangurslaust hefur reynt að ná innra jafnvægi með sjálfum sér, en að meira eða minna leyti gefizt upp. Þetta er athugasemd, sem er sprottin af sársaukafullum einmanaleika og einangrun, sem svo margir þjást af nú á dögum. Hver er orsökin? Er kannski til einhver lausn?
Það er auðvelt að setja fram slíkar spurningar, en erfitt að svara þeim af nokkurri sannfæringu. Ég verð þó að reyna hvað ég get, þó að mér sé sú staðreynd ljós, að tilfinningar okkar og viðleitni eru oft mótsagnakenndar og óljósar og verða ekki settar fram með auðveldum formúlum.
Maðurinn er jöfnum höndum einstaklingur og félagsvera. Sem einstaklingur reynir hann að vernda sína eigin tilveru og þeirra sem honum standa næstir, fullnægja sínum persónulegu þörfum og þróa meðfædda hæfileika. Sem félagsvera reynir hann að ná viðurkenningu og hylli meðbræðra sinna, deila með þeim gleði, létta þeim sorgir og bæta lífsskilyrði þeirra. Aðeins tilvist þessara ólíku, oft andstæðu tilhneiginga myndar hina sérstöku lyndiseinkunn mannsins, og samsetning þeirra takmarkar að hve miklu leyti einstaklingurinn getur náð innra jafnvægi og stuðlað að velferð þjóðfélagsins. Vera má, að styrkur þessara tveggja aðalhneigða sé að mestu fenginn að erfðum, en sú lyndiseinkunn, sem maðurinn að lokum fær, er að mestu mótuð af því umhverfi, sem hann elzt upp í, af gerð þjóðfélagsins sem hann vex upp í, af erfðavenjum þess og mati á einstökum athöfnum hans. Hið óhlutlæga hugtak „þjóðfélag“ merkir í augum einstaklingsins bein og óbein sambönd hans við samtímamenn og fólk fyrri kynslóða. Einstaklingurinn getur hugsað, fundið til, barizt og unnið einn sér, en hann er svo háður þjóðfélaginu i líkamlegri, andlegri og tilfinningalegri tilveru sinni, að það er útilokað að hugsa sér hann eða skilja utan marka þjóðfélagsins. Það er „þjóðfélagið“, sem aflar manninum fæðis, klæða, heimilis, vinnutækja, tungumáls, ramma hugsunarinnar og flestra viðfangsefna hennar. Tilvera hans hefur skapazt af vinnu og starfi hinna mörgu milljóna lífs og liðinna, sem felast bak við þetta litla orð „þjóðfélag“.
Það er því augljóst, að nauðsyn þjóðfélagsins fyrir einstaklinginn er eðlislæg staðreynd, sem ekki er unnt að afnema, ekkert frekar en hjá maurum og býflugum. Þar sem allt lífkerfi maura og býflugna er samt sem áður skipulagt niður í smæstu atriði af strangri arfgengri eðlishvöt, þá er þjóðfélagsleg skipan og samskipti manna afar margvisleg og breytingum háð. Minnið, hæfileikinn til að stofna til sambanda, hæfnin til að talast við hafa gert manninum kleift að þróast eftir leiðum, sem ekki ákvarðast af líffræðilegri nauðsyn. Slík þróun kemur fram í erfðavenjum, menningarstofnunum, skipulagi, bókmenntum, vísindum, verkfræðilegum framkvæmdum og listum. Þetta skýrir hvernig menn geta á vissan hátt haft áhrif á líf sitt með breytni sinni og hvernig meðvituð hugsun og langanir manna skipta máli í þessari þróun.
Með erfðum öðlast maðurinn við fæðingu lífeðlisfræðilega byggingu, sem við verðum að telja ákveðna og óbreytanlega, samfara hneigðum sem eru einkenni mannskepnunnar. Þar að auki öðlast hann í lífi sínu menningu, sem hann fær frá þjóðfélaginu með fræðslu og margvíslegum öðrum áhrifum. Það er þessi menning, sem frá einum tíma til annars er breytingum háð og ákvarðar að verulegu leyti sambandið milli einstaklingsins og þjóðfélagsins. Nútímamannfræði hefur kennt okkur með samanburðarrannsóknum á menningu svokallaðra frumstæðra þjóða, að samfélagshegðun manna sé ákaflega mismunandi eftir ríkjandi menningarviðhorfum og því skipulagi, sem ríkir í þjóðfélaginu. Það er á þessu sem þeir, er leitast við að bæta mannkynið, geta byggt vonir sínar.
Menn eru ekki dæmdir til að útrýma hver öðrum af lífeðlisfræðilegum ástæðum eða til að vera leiksoppar illra sjálfskapaðra örlaga.
Ef við spyrjum okkur sjálf, á hvern hátt sé hægt að breyta byggingu þjóðfélagsins og menningarstöðu mannsins til að gera mannlífið eins ánægjulegt og mögulegt er, ættum við stöðugt að minnast þess, að það eru viss atriði, sem er ekki á okkar valdi að breyta. Eins og áður er á minnzt, er líffræðilegt eðli mannsins ekki breytanlegt, svo nokkru máli skipti. Þar að auki hefur tækni og þjóðfélagsþróun síðari alda skapað aðstæður, sem munu verða varanlegar. í þéttbýli, þar sem líf manna byggist á ákveðnum framleiðslugreinum, er fullkomin verkaskipting og skipulagðar framleiðslustöðvar ómissandi.
Hin gamla sveitasæla, þegar einstaklingar eða fámennir hópar voru fullkomlega sjálfum sér nógir, er liðin tíð og kemur ekki aftur. Það eru aðeins lítilsháttar ýkjur að segja, að mannkynið myndi jafnvel nú þegar alheimssamfélag í framleiðslu og neyzlu.
Ég er nú kominn að því, sem ég vil í stuttu máli kalla kjarnann í erfiðleikum okkar tíma. Það er viðvíkjandi sambandi einstaklingsins við þjóðfélagið. Einstaklingurinn hefur gert sér það ljósara en áður, hve háður hann er þjóðfélaginu, en hann skynjar það ekki sem jákvætt samband né lífræn tengsl eða vermandi afl, heldur fremur sem ógnun við sinn eðlilega rétt eða jafnvel efnahagslega tilveru sína. Einnig er staða einstaklings í þjóðfélaginu slík, að sífellt er ýtt undir sjálfselskuhvatir hans, en félagshvatirnar, sem að upplagi eru veikar, dofna smám saman meir og meir. Allir menn, hver sem staða þeirra er í þjóðfélaginu, þjást af þessari félagslegu tæringu. Menn verða óafvitandi fangar eigingirni sinnar, þjást af öryggisleysi og einmanakennd, sviptir barnslegri einfeldni og ófalskri lífsgleði. Það er aðeins hægt að finna tilgang í lífinu með því að helga sig samfélaginu. Efnahagslegt stjórnleysi hins kapítalíska þjóðfélags eins og það er í dag er að mínu áliti uppspretta hins illa. Við sjáum fyrir okkur, hvernig eigendur risaframleiðslufyrirtækj anna streitast við að svipta hver annan ávöxtunum af sameiginlegu starfi, ekki með valdi, heldur að öllu leyti í fullu samræmi við ríkjandi lagareglur. í þessu sambandi er áríðandi að gera sér grein fyrir því, að framleiðslutækin, það er að segja gjörvöll framleiðslugetan af neyzluvörum sem og fjárfestingarvörum, getur verið lagalega og er raunar að mestu leyti eign einstaklinga.
Til hægðarauka mun ég í spjallinu hér á eftir kalla alla þá, sem ekki eru þátttakendur í eignarrétti framleiðslutækjanna, verkamenn, enda þótt það samsvari ekki fyllilega venjulegri merkingu orðsins. Eigandi framleiðslutækjanna hefur aðstöðu til að verzla með starfsorku verkamannsins. Með því að nýta framleiðslutækin framleiðir verkamaðurinn vörur, sem verða eign auðkýfingsins. Mikilvægasta atriðið í þessu fyrirkomulagi er samhengið milli þess, sem verkamaðurinn framleiðir, og þess, sem honum er greitt, hvorttveggja reiknað í raungildi. Að svo miklu leyti sem verkalýðssamningar eru „frjálsir“, eru laun verkamannsins ekki miðuð við raungildi þeirrar vöru, sem hann framleiðir, heldur við lágmarksþarfir hans og þörf atvinnurekandans fyrir verkamenn i hlutfalli við fjölda þeirra verkamanna, sem keppa um vinnu. Það er áríðandi að gera sér ljóst, að jafnvel fræðilega ákvarðast laun verkamannsins ekki af verðgildi þess sem hann framleiðir.
Einkafjármagn hefur tilhneigingu til að safnast á fárra hendur. Að nokkru leyti vegna samkeppni meðal atvinnurekenda og að nokkru leyti vegna þess að tækniþróun og vaxandi verkaskipting stuðlar að stofnun stórra framleiðslufyrirtækja á kostnað þeirra smærri. Afleiðing þessarar þróunar er fámennisstjórn á einkafjármagni, ógnarvald sem er óstöðvandi í raun, jafnvel í lýðræðislega skipulögðum þjóðfélögum.
Þetta er staðreynd, þar sem valdhafar þjóðfélagsins eru valdir af stjórnmálasamtökum, sem að mestu eru fjármögnuð af einstökum auðmönnum eða á annan hátt undir áhrifum þeirra, sem svo í eiginhagsmunaskyni leitast við að breikka bilið milli stjórnvalda og kjósenda. Afleiðingin er sú, að i raun og veru vernda fulltrúar fólksins ekki hagsmuni hinna forréttindalausu stétta í þjóðfélaginu. Þar að auki stjórnar einkafjármagnið óhjákvæmilega við núverandi aðstæður aðalupplýsingaleiðum (blöðum, útvarpi, menntun). Það er því ákaflega erfitt, og í rauninni að mestu leyti ómögulegt, fyrir einstaklinginn að komast að hlutlægri niðurstöðu og nota sinn stjórnmálalega rétt skynsamlega.
Ríkjandi ástand, hagfræðilega byggt á einkaeign auðmagnsins, einkennist þannig af tveim aðalatriðum. í fyrsta lagi eru framleiðslutækin (auðmagnið) einkaeign og eigendurnir stjórna þeim að eigin geðþótta. í öðru lagi eru launasamningar frjálsir. Auðvitað eru engin „hrein“ auðmagnsþjóðfélög að þessu leyti. Einkum er rétt að taka það fram, að verkamönnum hefur tekizt að ná nokkrum endurbótum á „frjálsum verkalýðssamningum“ fyrir vissa starfshópa með langri og biturri pólitískri baráttu. En þegar á heildina er litið, þá er hagstjórn nútímans ekki ýkja frábrugðin „hreinni auðmagnsstjórn“. Framleiðslan er miðuð við gróða, en ekki nytsemi. Engar ráðstafanir eru gerðar til þess að allir, sem vilja vinna, hafi möguleika á að fá starf. „Her atvinnuleysingja“ er ávallt fyrir hendi. Verkamaðurinn er í stöðugum ótta við að missa vinnu sína. Þar sem atvinnuleysingjar og illa launaðir verkamenn mynda ekki arðvænlegan markað, er haldið aftur af neyzluframleiðslu, og afleiðingin er miklar þrengingar (kreppa).
Tækniþróun orsakar oft á tíðum mikið atvinnuleysi fremur en að hún létti störf allra. Gróðasjónarmiðið ásamt samkeppni meðal peningamanna veldur óstöðugleika í myndun og hagnýtingu fjármagnsins, sem leiðir til vaxandi og þrúgandi samdráttar. Ótakmörkuð samkeppni veldur gífurlegri sóun á vinnuafli og þeirri bæklun á þjóðfélagslegri vitund einstaklingsins, sem ég hef áður nefnt.
Þessa bæklun á einstaklingnum álít ég vera mesta böl kapítalismans. Allt menntunarkerfi okkar þjáist af þessu böli. Óeðlilegri samkeppnislöngun er haldið að nemandanum og honum innrætt söfnunardýrkun sem undirbúningur undir framtíðarlífsstarf.
Ég er sannfærður um, að það er aðeins ein leið til að draga úr þessu alvarlega böli, en það er stofnun sósíalísks hagkerfis samfara menntunarkerfi, sem beint væri að félagslegum markmiðum. Í slíku hagkerfi eru framleiðslutækin í eigu þjóðfélagsins sjálfs og þeim beitt á skipulegan hátt. Skipulögð hagstjórn, sem aðlagar framleiðsluna þörfum samfélagsins, mundi dreifa vinnunni meðal allra vinnufærra manna og tryggja lífsviðurværi allra karla, kvenna og barna. Menntun einstaklingsins mundi auk þess að þjálfa eigin hæfileika leitast við að vekja með honum ábyrgðartilfinningu gagnvart náunga sínum í stað þess ljóma valds og heppni, sem tíðkast í okkar núverandi þjóðskipulagi.
Það er hinsvegar nauðsynlegt að muna, að skipulögð hagstjórn er ekki alltaf sósíalismi. Alger þrælkun einstaklingsins getur einnig fylgt skipulagðri hagstjórn. Framkvæmd sósíalisma krefst lausnar á nokkrum afar erfiðum stjórnmálalegum þjóðfélagsvandamálum. Hvernig er mögulegt við samþjöppun stjórnmálalegs og efnahagslegs valds að koma í veg fyrir, að skriffinnskuveldið verði allsráðandi og yfirþyrmandi? Hvernig er hægt að tryggja rétt einstaklingsins og þar með lýðræðislegt jafnvægi gagnvart skrifstofuvaldinu?
Baldur Böðvarsson þýddi.