Líf fátæks fólks einkennast af ákvörðunum annarra. Frelsið er ekki okkar.
Það einkennist af ákvörðunum yfirvalda um skatta og bótagreiðslur.
Af ákvörðunum seðlabankans um stýrivexti.
Af ákvörðunum stjórnvalda um að gera ekkert fyrir leigumarkaðinn.
Af ákvörðunum hjálparstofnana um hvort við getum fengið ölmusu þegar líða tekur á mánuðinn, eða ekki.
Af ákvörðunum fjölskyldu og vina um hversu þétt þau geta staðið við bakið á okkur.
Ef við eigum ekki fyrir reikningum mánaðarins er gefið á okkur veiðileyfi. Blóðþyrstar innheimtustofnanir taka við keflinu og kreista úr okkur hvern einasta eyri sem við eigum ekki til. Við borgum meira en aðrir fyrir sjálfsagða grunnþjónustu og erum rukkuð um fátæktarskatt ef við borgum ekki strax.
Afsakið, innheimtugjöld, vanskilagjöld, seðilgjöld, dráttarvextir, heitir það víst. Það þarf að kalla hluti réttum nöfnum. Einmitt!
Við erum föst við vonlausan leigumarkað sem étur upp megnið af tekjum okkar í hverjum mánuði. Við megum ekki fjárfesta í okkar eigin heimili til þess að létta á þessari greiðslubyrði og er gert að berjast við annað fátækt fólk um að fá náðarsamlegast að greiða fyrir eignamyndun annarra.
Ef við sitjum föst á leigumarkaði skiljum við ekkert eftir fyrir börnin okkar nema nokkurra daga frest til að tæma íbúðina af eigum sem enginn vill.
Ef við vorum svo heppin að geta keypt okkur þak yfir höfuðið þá var það upp á náð og miskun bankastofnunar sem andar ofan í hálsmálið á okkur það sem eftir er.
Leigumarkaðurinn er formlegur og skilgreindur leikvöllur fjármagnseigenda og wanna-be kapítalista. Það er víst svo sniðug fjárfesting að blóðmjólka fátæklinga.
Við erum sum svo „heppin” að sleppa inn á vonlausa biðlista eftir „félagslegu” leiguhúsnæði, sum okkar komast þar inn áður en við deyjum eða gefumst upp, önnur ekki.
…og talandi um biðlista. Biðlistar eftir neyðarúrræðum eru norm og þykja sjálfsagðir. Það kallast „full nýting á úrræðum”. Biðlistar og biðraðir eru nefnilega mælistika á þörfina. Mælistika á neyðina. Samt er ekki brugðist við nema bara með því að bjóða þér í biðröðina.
Þú ert númer 354 í röðinni. Heppin þú!
En það er til lausn! Leggðu fyrir! Fáðu þér bara aðra vinnu! Finndu þér ódýrari leiguíbúð! Leigðu með vinkonu! Hættu að vera veik og farðu að vinna! Hey, hættu bara að vera fátæk!
Við horfðum máttlaus á hrunið, sem við tókum engan þátt í að skapa, en vorum samt einhvernvegin látin bera ábyrgð á og greiða fyrir. Litlu skuldasnjóboltarnir sem við héldum að við hefðum náð tökum á að hemja urðu skyndilega að stórum snjóhelngjum sem féllu yfir okkur í skjóli nætur. Þau okkar sem lifðum það af erum enn að moka snjónum út, en það fennir stanslaust í auðu blettina. Stundum er haglél.
En hver erum við? Hverjir eru fátækir á Íslandi?
Við erum einstæðir foreldrar. Við erum láglaunafólk. Við erum „ófaglærð” eða í störfum sem ekki eru metin til launa. Við erum innflytjendur sem ýmist flutttum til landsins með mökum, komum hingað til að vinna, komum hingað í leit að betra lífi, jafnvel á flótta frá ömurlegum aðstæðum. Við erum allskonar á litin, sum okkar eru fötluð. Við erum börn annars fátæks fólks, Við erum eftirlaunafólk. Við erum leigjendur, leiguliðar auðvaldsins. Við erum eignalaus, en ef við höfum náðarsamlegast fengið að eignast eitthvað, þurfum við að leggja allt okkar í að fá að halda því.
Sum okkar voru í ágætum málum og héldum að við værum hólpin, héldum að við værum millistétt, en svo kom eitthvað upp á. Einhver veiktist, missti vinnu, sleit sambúð eða hjónabandi, lenti í áfalli, og boltarnir hrundu úr lausu lofti. Við vorum víst bara einum launaseðli frá að sitja í súpunni með hinum froskunum og vatnið er að hitna.
„En vertu þakklát!“ segja þau. Þakklát fyrir aðstoðina, þakklát fyrir ölmusurnar og það að eiga góða að. Þakklát fyrir að búa í samfélagi sem þó hendir í okkur leifunum af molum auðvaldsins.
Auðvitað erum við þakklát fyrir þessar litlu blessanir en við berjumst fyrir öðruvísi þakklæti.
Hvað með þakklætið fyrir að geta staðið á eigin fótum og lifað með reisn? Þakklætið fyrir að þurfa ekki að biðja um aðstoð, þakklætið fyrir að vera ekki upp á aðra komin og fyrir að þurfa ekki að biðja um leyfi til þess að fá að vera til?
Má ég biðja um þannig þakklæti?