Að vilja vera heill

Skoðun Davíð Þór Jónsson 12. sep 2023

Guðspjall: Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.
(Jóh 5.1-15)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag heyrum við enn eina söguna af kraftaverkalækningu Jesú Krists. Þessi stingur svolítið í stúf við flestar hinna. Sá sem þiggur lækninguna er líklega vanþakklátasti sjúklingurinn í öllum guðspjöllunum. Og Jesús fer ekki með neinar þulur eða hrærir eitthvað úr mold og munnvatni, hann snertir manninn ekki einu sinni. Hann segir ekki einu sinni: „Trú þín hefur gert þig heilan.“ Bara: „Tak rekkju þína og gakk.“

En …

Stóra spurningin

Það er ekki það fyrsta sem Jesús segir við hann. Hann segir svolítið annað fyrst.

Það fyrsta sem Jesús segir við manninn er þessi spurning, sem að mínum dómi er þungamiðja textans: „Viltu verða heill?“

Þessi spurning kann að virðast kjánaleg. Maðurinn hefur legið þarna farmlama á laugarbakkanum í 38 ár og Jesús vogar sér að spyrja: „Viltu verða heill?“

Það er næstum því eins og Jesús sé hissa á að maðurinn skuli ekki biðja hann að lækna sig. „Hvað er þetta, maður? Viltu ekki verða heill?“

Og svarið er mjög upplýsandi. Maðurinn svarar nefnilega alls ekki já.

Í staðinn segir hann: „Þetta er ekki mér að kenna. Ég get ekkert að þessu gert. Í 38 ár hefur mér ekki hugkvæmst nein leið til að verða fyrstur ofan í laugina. Í 38 ár hef ég ekki getað komið mér upp vinskap við aðra manneskju sem myndi vilja hjálpa mér ofan í laugina. Í 38 ár hef ég verið saklaust fórnarlamb kringumstæðna, legið hér eins og slytti, ekki þurft að axla neina ábyrgð, ekki þurft að bera neinar byrðar, engar skyldur, engar kvaðir … Í 38 ár er ég búinn að vera algerlega stikkfrí með hina fullkomnu afsökun fyrir því að standa ekki í lappirnar og enginn getur áfellst mig fyrir það.“

Og Jesús eyðileggur þetta fyrir honum. Hann neyðir hann til að standa í lappirnar. Hann tekur af honum afsökunina.

Því sá sem ekki getur svarað spurningunni „Viltu verða heill?“ afdráttarlaust játandi hefur sennilega engan áhuga á því – þótt hann eigi erfitt með að viðurkenna það, jafnvel fyrir sjálfum sér og reyni að koma sér undan því að svara.

Túlkunarlykillinn

Kraftaverk Jesú hafa alltaf þrívíða merkingu. Við erum með ákveðinn túlkunar- eða skilningslykil að þeim sem ég kýs að kalla T-in þrjú. Þessar þrjár víddir eru:

  • Hin trúarlega
  • Hin táknræna
  • Hin tiltölulega augljósa.

Það skal viðurkennt að ég kalla þá síðastnefndu þessu nafni aðallega til að fá þriðja T-ið. Það hljómar betur.

En hún ber þó nafn með rentu. Í tiltölulega augljósu víddinni lesum við aðeins það sem textinn segir. Jesús læknar mann með þeim hætti sem greint er frá samkvæmt orðanna hljóðan og ekki orð um það meir. Engin umframmerking er lögð í neitt. Ekkert er lesið á milli línanna. Sorglega margir komast aldrei framhjá þessari vídd.

Í táknrænu víddinni áttum við okkur síðan á táknunum og hinni undirliggjandi merkingu frásagnarinnar. Hvað táknar þessi spurning? Hvað tákna undanbrögðin við því að svara henni? Hvað táknar það að finna öryggi í því að standa ekki í lappirnar og halda sig bara á mottunni … að vísu í þessu tilfelli í bókstaflegri merkingu. Hvað táknar tálvon þessarar laugar þar sem náð Guðs var svo takmörkuð auðlind, af svo skornum skammti, að hana varð að afgreiða með einhverju fullkomlega miskunnarlausu „fyrstur kemur fyrstur fær“ fyrirkomulagi?

Hvað táknar það að sá sem liggur marflatur fyrir hunda og manna fótum standi uppréttur eftir fund sinn við Jesú frá Nasaret?

Trúarlega spurningin

Síðast spyrjum við svo hinna trúarlegu spurninga. „Hvað kemur þetta mér við? Af hverju er verið að segja mér þessa sögu – hér í allt öðrum heimshluta á allt öðru tímabili mannkynssögunnar? Hvernig varðar þessi saga mig, líf mitt, umhverfi og samfélag hér og nú?“

Já, ekki bara mig persónulega og mitt innra líf, heldur líka umhverfi mitt og samfélagið sem ég er hluti af.

Viljum við sem samfélag verða heil? Eða eins heil og kostur er.

Við vitum að heimurinn er óréttlátur. Gott fólk lendir í vondum málum. Þegar maður verður fyrir slíku óláni er eðlilegt að spyrja: „Af hverju ég?“

Eðlilegt, sagði ég, ekki hjálplegt. Það er nefnilega ekki til neins. Skynsamlegra væri að spyrja: „Af hverju ekki ég? Hvað er svona sérstakt og merkilegt við mig að ég ætti að vera stikkfrí frá því náttúrulögmáli að stundum eru örlögin ósanngjörn?“

Enginn sem stendur frammi fyrir áfalli, erfiðum sjúkdómi eða ótímabærum ástvinamissi, stóð í þeirri meiningu fyrir áfallið að svoleiðis gerðist ekki, að heiminum væri þannig fyrir komið að slíkt kæmi einfaldlega ekki fyrir fólk. Enginn sem greindur er með krabbamein segir: „Ha? Hvað er það? Þetta orð hef ég aldrei heyrt áður.“

Við vitum öll að gott fólk lendir í vondum málum, en erum samt alltaf jafn óviðbúin því að það hendi okkur.

En lífið heldur áfram – þótt það kunni að hljóma miskunnarlaust að segja það, ekki síst ef maður leyfir sér að demba því á manneskju í djúpri sorg sem einhvers konar uppörvun.

Maðurinn í sögunni hafði haldið sig á mottunni – bókstaflega – í 38 ár. Lífið hafði ekki haldið áfram hjá honum. Hann var búinn að vera á pásu – stikkfrí – í tíma sem var nálægt því að vera meðal mannsævi almúgafólks þarna fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir 2000 árum.

Að þola högg

Ég heyrði einu sinni mann sem orðið hafði fyrir þeirri ógæfu að fá heilablóðfall lýsa reynslu sinni af því og ferlinu við að komast á fætur aftur. Hann þakkaði það, hve vel honum gekk í endurhæfingunni og hve fljótur hann var að ná allnokkurri færni á ný – en hann þurfti í raun að læra að ganga upp á nýtt – því hvað hann hafði verið í góðu líkamlegu formi þegar áfallið skall á. Og ekki hvarflar að mér að gera lítið úr því. Líkamleg hreysti gerir okkur færari um að standa af okkur líkamleg áföll.

En við verðum ekki öll fyrir líkamlegum áföllum.

Við verðum aftur á móti öll fyrir andlegum áföllum. Við upplifum öll sorg og missi. Við þekkjum öll ótta og kvíða, veika bletti á sjálfsmynd okkar og sjálfstrausti, lægðir og dali í líðan okkar, efa og áhyggjur, óvissu og tortryggni. Hvernig stöndum við það af okkur?

Við vitum ósköp vel að það er ekki hægt að hanga keðjureykjandi uppi í sófa í 38 ár og horfa á sjónvarpið og ætla svo bara að drepa í sígarettunni, standa á fætur og hlaupa eins og eitt maraþon. Líkaminn virkar ekki þannig. Þrek og þol þarf að byggja upp. Það er hægt að fara af öðrum staðnum á hinn, en það kostar átak og þrotlausa ástundun og iðkan. Það krefst ákveðni og þrautseigju.

En hvað með okkar andlegu hreysti? Erum við reiðubúin til að standa upp og hlaupa okkar andlega maraþon á morgun? Af hverju ekki? Hvað erum við að drolla? Erum við að telja okkur trú um að það sé í okkar valdi hvenær rásbyssan hljómar, að áföllin geri boð á undan sér og við getum farið að byggja upp okkar andlega styrk og sálarjafnvægi svona þegar nær dregur því að við þurfum á þeim að halda?

Andleg hreysti

Rétt eins og líkamleg hreysti krefst iðkunar og æfinga þá getum við ekki vænst þess að búa við andlega hreysti ef við gerum ekkert til að koma okkur henni upp. Ef við eigum okkur ekkert andlegt líf, enga andlega iðkan, gerum ekkert til að taka ábyrgð á sálinni í okkur, að efla hana og styrkja, getum við ekki vænst þess að vera við góða sálarheilsu.

Og takið eftir að það að hafa heitar skoðanir á siðferðilegum álitamálum og diskútera þær hástöfum á barnum eða með hástöfum á spjallþráðum samfélagsmiðla er ekki iðkun á andlegu lífi, ekki frekar en að það geri mann góðan í fótbolta að hafa heitar skoðanir á síðasta dómarahneykslinu í enska boltanum.

Hvert og eitt okkar ser spurt á hverjum degi: Vilt þú verða heill?

Og það er ekki einfalt að svara þeirri spurningu afdráttarlaust játandi því fyrst verðum við að svara annarri spurningu: „Hvað er ég reiðubúinn að leggja á mig til þess?“

Ertu reiðubúinn til að standa í lappirnar, rísa á fætur og rúlla upp mottunni sem þú hefur haldið þig á til þessa, pakka saman fortíð þinni og ganga … þinn bataveg?

Eða viltu frekar að það gerist þannig að þú þurfir ekkert að hafa fyrir því, loksins sé komið að þér að fá happdrættisvinning lífsins á einu bretti, að þú sért næstur í röðinni að fá úthlutað náðinni sem er af svo skornum skammti að það þarf að bítast um hana við hina sem vilja hana líka, að loksins, loksins sért þú númer eitt í röðinni … án þess að hafa innt nokkuð af hendi til að koma þér þangað annað en að hanga á línunni?

Og vera á meðan stikkfrí frá lífinu, með öllu sem það inniber, skyldum og kvöðum, ábyrgð og böggi … en líka því lífi í gnægðum sem Jesús lofar okkur. Lífi í andlegri auðlegð, lífi með fjársjóðum sem mölur og ryð fá ekki grandað, lífi í innra andlegu jafnvægi og sálarró. Lífi í vitundarsambandi og sátt við Guð og menn.

Viltu í raun verða heill?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Af vef Davíðs Þórs oculi cordis, prédikun flutt í Háteigskirkju 10. 9. 2023.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí