Ætlar Bjarni að styðja við Þjóðarmorð?

Skoðun Helen Ólafsdóttir 29. jan 2024

Í síðustu viku staðfesti Alþjóðadómstóll Sameinuðu Þjóðanna með yfirgnæfandi atkvæðum að kæra Suður Afríku gegn Ísrael þar sem Suður Afríka sakar Ísrael um þjóðarmorð skildi vera tekin til meðferðar. Þetta var mikið áfall fyrir stjórnvöld í Ísrael. Rétturinn kom þar að auki með bráðabirgðarúrskurð sem meðal annars skipar Ísrael að koma í veg fyrir tilraunir til þjóðarmorðs og að opna strax fyrir mannúðarastoð inn á Gaza til að koma í veg fyrir hungursneyð. Eina stofnunin sem getur í rauninni sinnt þessu hlutverki er UNWRA. Þessi stofnun sem heitir á ensku United Nations Relief and Works Agency for Palestnian Refugees in the near east (UNWRA) og er líflína fyrir um 5.6 milljónir palestínskra flóttamanna sem er að finna á Gaza, Vesturbakkanum, Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi.

Bandaríkin sem höfðu lýst því yfir áður að mál Suður Afríku væri fullkomlega tilefnislaust brá líklega í brún þegar málið fór áfram, sér í lagi vegna þess að Bandaríkin hafa ekki bara fjármagnað að hluta til árásir Ísraels á Gaza heldur hafa vopnasendingar aukist til muna, þar á meðal 2 þúsund punda sprengjur sem hafa þurrkað út heilu íbúðarhverfin og telst af mörgum sérfræðingum vera stríðsglæpir sem gæti þá gert Bandaríkin samsek um þjóðarmorð.

Það var engin tilviljun að stjórnvöld í Ísrael gáfu út tilkynningu strax á eftir dómi Alþjóðadómstólsins um að 12 starfsmenn UNWRA hefðu tekið þátt í árásunum þann 7. október. Þetta dreifði athyglinni frá dómnum sem var ákveðið áfall fyrir stjórnvöld í Ísrael. Viðbrögð Bandaríkjanna við ásökunum Ísraels um starfsmenn UNWRA komu samdægurs um að loka á fjármagn til UNWRA. Nokkur lönd fylgdu í kjölfarið: Bretland Þýskaland, Kanada, Sviss, Ástralía, Finnland og Holland.

Norðmenn og Írar gáfu strax út yfirlýsingar þess efnis að þeim þætti alls ekki ástæða til þess að skrúfa fyrir sinn fjárstuðning í ljósi þess hve ástandið á Gaza er orðið slæmt en þar búa yfir 300 þúsund börn nú við hungurmörk. Vannæring, sjúkdómar og skortur á drykkjarhæfu vatni, mat og lyfjum á eftir að hafa mjög alvarlegar langtíma afleiðingar. í raun er verið að drepa fólkið á Gaza ekki bara með sprengjum heldur hægt og sígandi með því að koma í veg fyrir hjálparastoð. 

Það var því ákveðið áfall að heyra Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra, lýsa því yfir að Ísland myndi fylgja þessari sturlun eftir að frysta fjármagn til UNWRA. 12 manns af 13 þúsund! 12 manns sem eru í haldi í Ísrael eflaust pyntaðir til frásagna eiga nú að koma í veg fyrir að tvær milljónir manna fái hjálparaðstoð sem Alþjóðadómstóllinn hefur fyrirskipað Ísrael um koma ekki í veg fyrir. 

Ég hef unnið fyrir Sameinuðu Þjóðirnar í nærri tvo áratugi og rekið fjölmörg verkefni, það síðasta var um einn og hálfur milljarður íslenskra króna fyrir Þróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna á átaksvæði og ég þekki því mjög vel innviði Sameinuðu Þjóðanna og hvaða verkferlar eru notaðir við stór verkefni sem fela í sér stór útboð og allar þær áskoranir sem felast í því að vinna með stjórnvöldum í löndum þar sem annað hvort er ekki lýðræði eða þar sem geisa átök. Ég þekki vel til UNWRA sem notar alveg sömu verkferla. Yfirimaður UNWRA Philip Lazzarini er mjög reyndur starfsmaður SÞ og sömuleiðis Tom White yfirmaður Gazaskrifstofunnar. Náin vinkona mín er yfir upplýsingadeildinni í UNWRA sem sjálf er frá Palestínu og ég þekki fjöldann allan af öðru alþjóðlegu starfsfólki sem vinnur fyrir UNWRA, en þar er líka að finna mjög háttsettan Íslending sem gegnir mikilvægari stöðu fyrir UNWRA í New York.

Punkturinn er þessi: Það koma upp tilfelli að einhverjir starfsmenn hjálparstofnana hafa gerst sekir um glæpi, hryðjuverk eða spillingu. SÞ reyna allt sem í valdi þeirra stendur til að koma í veg fyrir slíkt með mjög stífu eftirliti en það er ekki alltaf hægt. Þó að 12 manns af 13 þúsund hafi tekið þátt í 7. október þá er með ólíkindum að ætla að refsa UNWRA og fólkinu á Gaza. Ég man ekki til þess að Vesturlönd hafi notað tækifærið til að beita svona hóprefsingu á sveltandi fólk. Þetta er skammarlegt ef Ísland ætlar að fara þessa leið. Bjarni Benediktsson er með þessari ákvörðun mögulega að gera Ísland samsekt um þjóðarmorð vegna þess að lögin um þjóðarmorð setja skuldbindingar á allar þjóðir sem eru aðilar að sáttmálunum að koma í veg fyrir þjóðarmorð. Ég spyr bara í hvaða vegferð er íslenska ríkið hér?
Ekki í mínu nafni.  

Höfundur er öryggisráðgjafi og sérfræðingur um þróunarmál

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí