Bréf sent ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, 29. október, 2023.
Hvert er kaupverð íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir stuðninginn við þjóðernishreinsanir Ísraelsstjórnar og NATO á Palestínsku þjóðinni?
Er það mögulega gott embætti? Hjá NATO kannski? Getur það verið?
Spyr sú sem ekki veit.
Almenningur skilur ekki hver ástæðan er (önnur en auðsveipni við Bjarna Benediktsson) fyrir því að forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir og ríkisstjórn hennar sem nú svo auvirðilega og óverðskuldað fer fyrir þessari þjóð að margra mati vill ekki kalla eftir tafarlausu vopnahléi undir nokkrum kringumstæðun, horfandi á viðurstyggilegar þjóðernishreinsanir Ísraelshers á Palestínsku þjóðinni þar sem mörg þúsund börn hafa verið drepin.
Þau voru drepin, sprengd, skotin, á meðan þið burstuðuð í ykkur tennurnar í gær og líka fyrradag, þau voru drepin á meðan þið veltuð ykkur upp úr eigin sjálfhverfu þörfum á meðan þið nutuð samvista við hvert annað og ykkar nánustu, á meðan þið nutuð matar og drykkjar og rædduð hvert þið ættuð að láta keyra ykkur til að funda um og semja huglausar og með öllu marklausar „ályktanir“ sem aðeins lýsa þeirri siðferðilegu eyðimörk sem innra með ykkur býr.
Hvernig sofið þið eiginlega á nóttunni? Hvernig farið þið að því að líta í spegil á morgnana?
Hvernig manneskja getur haldið áfram að fylgjast með þessari martröð, klukkustund eftir klukkustund, dag eftir dag, sofið nótt eftir nótt, vaknað og litið í spegil, meðvituð um að hún getur haft vægi í að fordæma blóðbað og fjöldamorð á börnum og fjölskyldum þeirra, og ekki aðhafst neitt.
Hvernig farið þið að því að horfa þegjandi upp á aðra Helför?
Þjóðernishreinsanir í Palestínu, mannstu Katrín, þetta er þjóðin sem þú allaveganna þóttist styðja, einhverntímann í fortíðinni, og þið hafið það raunverulega í ykkur að aðhafst ekki neitt þegar lífið er murrkað úr henni.
Þar með eruð þið ábyrg fyrir því sem hefur gerst.
Samsek.
Það eru ykkar hræðilegu örlög.
Eruð þið hæf til að fara fyrir friðelskandi þjóð?
Svarið er NEI.
Þið hafið nefnilega atað hendur okkar blóði með ykkar afstöðu og við það verður ekki unað.
Þið hafið farið farið of langt út fyrir siðferðismörk þjóðarinnar.
Það er mjög ömurlegt að fylgjast með hvernig siðferðisáttaviti stjórnmálafólks afstillist allajafna en nú keyrði óhugnaðurinn um þverbak.
Ríkisstjórn Íslands talar einfaldlega ekki fyrir munn þjóðar sinnar og því þarf hún að víkja sæti.
Ég er fyllilega meðvituð um að það munuð þið ekki gera af sjálfdáðum þar sem sóma og siðferðiskennd virðist algerlega skorta en ég hef trú á að íslenska þjóðin muni hjálpa ykkur heim í hlýjan sófann.
Skömm ykkar verður þó ævarandi.
Margrét Kristín Blöndal