Ágætu félagar.
Nú þegar flokkurinn okkar hefur afgreitt þá óþægilegu stöðu sem hann var kominn í og að mestu nýtt fólk er tekið við þeirri þjónustu sem starf fyrir flokkinn og hugmyndafræðina er, langar mig að nefna nokkur atriði sem ég tel hafa komið okkur í þetta öngstræti og skipta höfuðmáli fyrir framhaldið, en ég hef sjálfur haldið mig utan við þessar deilur og horft á úr fjarska með þá von að allt fari nú vel.
Sem einn af stofnfélögum flokksins í Tjarnarbíói á sínum tíma fagnaði ég mjög þeirri atorku og þeim krafti sem þeir sem stóðu fyrir stofnun hans bjuggu yfir og svo sannarlega væri flokkurinn ekki það sem hann er í dag, kominn rækilega á kortið í pólitíska litrófinu, ef ekki væri fyrir það atorkusama, kjarkmikla og duglega fólk sem stóð vaktina í upphafi. Sjálfur tók ég ekki mikinn þátt í stofnstarfinu, en kom þó að vinnu við tvo eða þrjá af málaflokkum þegar þeir voru í smíðum, enda hafði ég tekið þann slag fyrr í þeim tveim flokkum sem ég átti þátt í að stofna, Borgarhreyfingunni og Dögun á sínum tíma.
Það sem gerðist með flokkinn okkar er margþætt, en alls ekki óalgengt samkvæmt minni reynslu og er afleiðing af áveðinni dýnamík sem verður til vegna þess því að oft lendir mikið af allri undirbúningsvinnu og starfi á litlum hópi fólks sem leggja þar af leiðandi mikið á sig til að klára málin. Þetta gerðist með fólkið í þeim þrem stjórnum sem lagt var upp með og þegar fátt fólk vinnur mikið saman þá einfaldlega tekst á með því vinátta og þetta geta orðið þéttir hópar þar sem fólkið ósjálfrátt heldur vel utan um hvert annað og stendur saman.
Orðið „klíka“ er ekki rétt orð fyrir þessa þróun því það gefur almennt neikvæða mynd af fyrirbærinu, en vissulega varð þarna til hópur fólks sem virtist, stundum alla vega, starfa í anda þess sem stundum er kallað „flokkseigendur,“ eitthvað sem við höfum séð verða til í öðrum stjórnmálaflokkum. Slíkir hópar verða ekki endilega til vegna skipulegrar yfirtökutilburða eða valdaþrár, heldur getur það gerst meira og minna ósjálfrátt og verður afleiðing af ferlinu sem nefnt var áður, þ.e. mikið af vinnunni lendir á fáu fólki. Svo það sé aftur sagt, þá vann það fólk að mínu mati stórvirki fyrir flokkinn og fyrir stjórnmálin í landinu og það á þakkir skilið.
Það hefur verið mín persónulega upplifun af Sósíalistaflokknum undanfarin eitt til tvö ár að slíkur hópur væri komin með ráðandi stöðu og stýrði og stjórnaði flokknum eftir eigin hugmyndum og ekki var lengur mikið pláss fyrir umræðu og grasrótarstarf. Sú tilfinning að fundir væru ekki haldnir hjá flokknum öðruvísi en niðurstaðan væri ákveðin fyrirfram gerði fljótt vart við sig og hafandi setið ótal fundi um ævina og þá sérstaklega fundi tengda stjórnmálum, þá sá ég það fljótt að þetta væri aðferðarfræðin. Eins og einn góður félagi sem hafði verið lungann af ævinni í pólitík sagði við mig eftir fundinn þar sem samþykkt var flest öllum að óvörum að Sósíalistaflokkurinn þyrfti allt í einu á „pólitískum leiðtoga“ að halda: „Þetta var bara eins og hjá Alþýðubandalaginu hér áður fyrr þar sem menn héldu aldrei fund nema niðurstaðan væri ákveðin og tryggð fyrirfram.“
Sósíalistaflokkurinn var stofnaður með jöfnuð og lýðræði sem tvær af meginstoðum flokksins enda eru ólýðræðislegir Sósíalistaflokkar ekki bent góð fyrirmynd. Þess vegna var sá flati strúktúr til með engum formanni og þremur hópum, Framkvæmdastjórn, Málefnastjórn og Félagastjórn, sem höfðu í raun engin völd en áttu að sjá um þau verkefni sem nefnd eru í samþykktunum og bera þau undir almenna félagsfundi.
Síðan þá hefur orðræðan og framkvæmdin um þetta fyrirkomulag breyst, sem og kerfið sjálft. Stofnaðar voru fleiri „stjórnir“ svo sem Kosningastjórn og eins stóð til að stofna Baráttustjórn og orðræðan innan flokksins hefur snúist upp í samtal um „stjórnir“ og „formenn“ og „leiðtoga,“ eitthvað sem er einfaldlega óboðlegt í flokki sem vill kenna sig við grasrótarlýðræði, starfa án formanns og vera með flatan strúktúr. Því finnst mér þessi sífellda áhersla á formenn, leiðtoga og stjórnir algjörlega óþolandi, við erum fullorðið fólk og þurfum ekki að fylgja einhverjum „leiðtoga.“ Leiðtogablæti er nefnilega eitthvert versta mein íslenskra stjórnmála frá upphafi og ef eitthvað er óumflýjanlegt í stjórnmálafloki þá er það þetta, að undir slíku fyrirkomulagi verða alltaf til klíkur kringum formanninn og flokkeigendafélög samhliða því.
Eitt af því sem ný forystusveit ætti að leggja áherslu á er að breyta þessari orðræðu innan flokksins, og eins og sumir hafa nefnt, efla grasrótarstarfið og félagsstarfið og samhliða því endurnefna þessar „stjórnir“ og „stjóra“ annað hvort „ráð“ eða „nefndir,“ sem myndu þá velja sér „ritara“ sem sæi um að stýra starfinu sem felist þá aðallega í því að boða fundi, fylgja dagskrá sem fundurinn ákveður og rita fundargerð. Viðkomandi ritari yrði þá einnig einhvers konar talsmaður fyrir hópinn og það yrði róterandi staða meðal nefndarmanna og til eins árs í senn.
Þetta er nefnilega fyrst og fremst spurning um að kunna að vinna innan þess kerfis sem flatur strúktúr er, kunnátta sem augljóslega var ekki fyrir hendi á þessum upphafsárum flokksins, og því fór sem fór. Þau ríflega fjögur ár sem Borgaraheyfingin/Hreyfingin starfaði var unnið undir slíkum formerkjum og tókst vel. Þar er gegnsæi grundvallaratriði og greinargóð fundaritun og skilvirk birting fundagerða skiptir miklu máli svo félagsmenn séu upplýstir. Gegnsæi í peningamálum flokksins er líka algjört grundavallaratriði og þar þarf að birta uppgjör ársfjórðungslega yfir það hvaðan peningarnir koma og í hvað þeir fara, niður í smæstu atriði og þá sérstaklega hvað varðar framlög eða laun til einstaklinga. Trúverðugleiki er nefnilega ávallt tvenns konar, trúverðugleiki í reynd og trúverðugleiki í ásýnd, og hvort tveggja verður að vera til staðar, alltaf.
Eins hefur áhersla flokksins færst í meira mæli yfir á svo kölluð sjálfsmyndarstjórnmál eða það sem kallað er „Idpol“ (e. Identity politics) en Idpol eru einfaldlega fullkomlega sjálfhverf sýn á heiminn og því gagnslaus sem verkfæri í stjórnmálabaráttu eða sem hugmyndafræði. Sú áhersla sem verið hefur á einstaka þrönga málaflokka, sem hver um sig er þó mikilvægur, svo sem fátækt eða innflytjendamál, skilar ekki mörgum atkvæðum, því þótt fátækt sé vissulega til staðar hér á landi þá er hún sem betur fer ekki algeng og málefni innflytjenda þó mikilvæg séu frá mannúðarsjónarmiði, skila eðli málsins samkvæmt engum atkvæðum. Breiðari skírskotun til sem flestra með áherslu á kjör almennings almennt, frekar en á þröngt skilgreinda hópa hverju nafni sem þeir nefnast, er vænlegri til árangurs. Þar er líka áhersla á nýju stjórnarskrána mikilvæg, því hún og eingöngu hún verndar almenning frá ofríki vanhæfra og spilltra stjórnvalda og þeim hremmingum sem þau hafa valdið almenningi undanfarna áratugi.
Vonbrigði með niðurstöður kosninga til Alþingis tvisvar í röð eru eðlileg viðbrögð og hafa einnig leitt til þess að fólki leiðist, finnst lítið um að vera og okkur verða lítið ágengt með baráttumálin. Sjáfum var mér hafnað í tvígang af þeim „sem réðu“ sem oddvita í SV-kjördæmi þrátt fyrir að hafa langmesta reynslu og þekkingu, bæði af kosningabaráttu sem og af stjórnmálastarfi almennt, heldur en nokkur annar í flokknum, sem og að hafa náð í 9,1% atkvæða í kjördæminu fyrir Borgarhreyfinguna árið 2009, en sá flokkur fékk 7,2% fylgi yfir landið allt. Tillögum mínum um tilhögun kosningabaráttu Sósíalista var hafnað og það var einfaldlega sorglegt að sjá að í stærsta kjördæminu með mestar líkur á að koma manni inn, var engin sjáanleg kosningabarátta tvennar kosningar í röð. Hér þarf að gera betur. Kosningastjórn flokksins brást og það væri réttast að leggja hana niður og stofna sérstakt „kosningaráð“ með sæmilegum fyrirvara, kannski tveim mánuðum eða svo fyrir hverjar kosningar, sem sæi um að skipuleggja sjálfboðaliðastarfið í kosningabaráttunni. Svo þarf að ráða inn sérstakan kosningastjóra, á launum, sem sér um allt utanumhald og skipulagningu og sem fær að auki bónus komist flokkurinn yfir ákveðið fylgi.
Dýnamíkin í stjórnmálunum og þessi tími milli kosninga er yfirleitt frekar dauður tími hvað varðar flokkstarf hjá öllum flokkum, það er lítið að frétta og lítið að gerast og slík staða getur auðveldlega leitt til þess að félagar verði einfaldlega leiðir. Við erum hins vegar með tvo fulltrúa í borgarstjórn og í starfandi meirihluta þar og það er sá kassi sem við höfum til að standa á svo í okkur sjáist og sem við þurfum að nota til að ná athygli almennings og skilgreina okkur sem róttækt, skynsamt stjórnmálaafl.
Oddviti okkar þar hefur svo sannarlega unnið flokknum gagn og aflað okkur mikils álits og þrátt fyrir ungan aldur náð góðum tökum á málefnalegri framsetningu baráttumálanna. Þar finnst mér þó vanta meiri áherslu á lýðræðismálin sem snúast fyrst og fremst um fjölgun borgarfulltrúa og nýju stjórnarskrána, en það er staðreynd að Ísland hefur hlutfallslega langfæsta borgarfulltrúa af öllum löndum í norðan- og vestanverðri Evrópu og það er ekki góður bragur á því þegar kemur að valddreifingu. Svo er beinskeyttur aktívismi einfaldlega besta leiðin til að ná athygli almennings milli kosninga og láta vita að við séum í fullu fjöri og þar á hugmyndaflugið að ráða ferðinni. Setuverkfall í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, á fjölförnum gatnamótum eða í skólum, kartöflurækt á Austurvelli, borðahengingar á umferðarmannvirki, allt til að vekja athygli á málum sem eru í ólestri. Þar er Samstöðin líka ómissandi vettvangur og það er óskandi að það samstarf sem verið hefur á þeim vettvangi verði svo áfram.
Það hafa fallið þung orð manna á milli undanfarið, sumt kannski verðskuldað og annað ekki. Þær deilur, sem var alveg afskaplega leiðinlegt að fylgjast með, eru hins vegar að baki og þótt öll þau tröll sem skrifa gegn flokknum á Rauða þræðinum muni lifa enn í sínum leiðindum skulum við ekki gleyma því að slíkur umræðuvettvangur er einstakur fyrir skoðanaskipti, þótt alltaf séu einhverjir tilbúnir til að reyna að eyðileggja hann með aðdróttunum og dylgjum. Eitthvað af fólki hefur því miður yfirgefið flokkinn, að mér finnst í bráðræði, og enda þótt slík smölun sem var í gangi, af hálfu beggja fylkinga, sé ekki góð birtingarmynd á lýðræðinu, þá er hún engu að síður vel þekkt og algeng, of algeng. Það á að vera hægt að ræða sig niður á sameiginlega skynsamlega niðurstöðu með þáttöku allra flokksmanna og við þurfum að stefna að því í meira mæli. Gangi okkur vel.
Baráttukveðja,
Þór Saari