Er Morgunblaðið hættulegt lýðræðinu?

Skoðun Reynir Böðvarsson 27. jún 2024

Sjálfstæðisflokkurinn og peningaöfl honum tengd ákváðu eftir seinna stríð að Ísland yrði að ganga í NATO. Þrátt fyrir ótvíræðan vilja þjóðarinnar á þeim tíma að standa utan hernaðarbandalaga þá tókst þessum öflum að fá vilja sínum framgengt og sáu fram á áframhaldandi gróðabrask styrjaldaráranna sem varð síðan að helmingaskipta samkomulaginu þar sem Framsóknarflokkurinn var mótaðilinn.

Fyrir tæpum 50 fór ég í jólafrí til Íslands og eyddi tímanum á Landsbókasafninu og las Morgunblaðið, frá morgni til kvölds, dag eftir dag allt jólafríið. Ég las árgangana frá ca 1930 til 1950. Þetta var náttúrulega of mikið til þess að komast yfir í einu jólafríi svo ég las annaðhvort eða þriðjahvort blað. Ég las eingöngu erlendar fréttir og þá eingöngu fréttir sem varðaði Bandaríkin eða Sovétríkin. Ég flokkaði fréttirnar í þrjá flokka eftir afstöðu fyrir hvort ríki eða ríkjabandalag: 1: jákvæður flokkur 2: neikvæður flokkur og síðan 3: óvissuflokkur. Ég lét óvissuflokkinn njóta vafans, Þ. e. a. s. ef minnsti vafi lék á því hvort um jákvæða eða neikvæða umfjöllun var um að ræða var það sett í óvissuflokk. Úrslitin voru afgerandi. Það sem mig grunaði varð að augljósri staðreynd við skoðun niðurstöðunnar. Stærsta fjölmiðli á Íslandi á þessum tíma var beitt til þess að breyta hugarfari heillar þjóðar! Ekki í samtali heldur áróðri. Ekki lýðræðislega heldur í krafti fjármagns. Ekki auðmjúkt heldur í offorsi. Íslenska lýðræðið og þar með þjóðin var auðmýkt og að mínu mati hefur hún ekki náð sér síðan. Kveikjan að þessum rannsóknum mínum á sínum tíma var birting á skjölum bandaríska utanríkisráðuneytisins sem sýndu tíðar ferðir Bjarna Benediktssonar þáverandi utanríkisráðherra til Washington DC þar sem þetta plott virðist hafa verið skipulagt í samvinnu við öflugustu leyniþjónustu heims, CIA.

Morgunblaðið hefur líklega aldrei verið rekið á forsendum grundvallargilda blaðamennskunnar  heldur fyrst og fremst í þágu eigenda þess sem eru auðmenn landsins. Morgunblaðið hefur alla tíð fylgt borgaralegri ritstjórnarstefnu, til hægri við miðju, og jafnan fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum, þó á því hafi mátt finna undantekningar. Blað allra landsmanna, eins og það hefur kallað sig, er í raun áróðursrit en hefur oft tekist að dulbúa það með ýmsum aðferðum, meðal annars með því að opna það þokkalega fyrir innendum greinum, en þess ávallt gætt að boðskapurinn í heild sinni fari ekki gegn hagsmunum eigendanna. Ég veit ekki nokkur dæmi til þess að einhver einn einkarekinn fjölmiðill í nokkru landi hafi haft eins mikil völd yfir þjóðfélagsumræðunni og Morgunblaðið hefur haft á Íslandi. Fámenn eignastétt á Íslandi hefur nýtt sér þessi gífurlegu og óeðlilegu ítök til þess að meira og minna stjórna allri umfjöllun um þjóðfélagsmál og beint henni viðstöðulaust sér í hag. Fjáraustur auðmanna í taprekstur Morgunblaðsins ár eftir á sýnir hversu mikilvægt þeir telja að þetta gjallarhorn þeirra og nýfrjálshyggjunnar fái að halda lífi. Oft á tíðum er farið leynt með hvaða einstaklingar koma þar að en upplýsist síðan þegar þoka gleymskunnar er orðin nógu þykk og sér til þess að neikvæð umfjöllun um spillinguna nái ekki flugi. Allt þetta brölt er þó alltaf tengt innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins sem er náttúrulega ekkert annað en pólitískur armur eignastéttarinnar. Ofan á allt saman hefur þessi frekar fámenna klíka, eignastéttin, séð til þess í gegnum Sjálfstæðisflokkinn að hafa þokkaleg völd yfir ríkisfjölmiðlinum RÚV til þess að hjálpa til við að halda umræðunni á réttum stað, það er að segja vel til hægri. Að auki rekur klíkan Viðskiptablaðið sem er jafnvel enn öfgafyllra í sínum málflutningi. Við þessar aðstæður allar er lýðræðið á Íslandi nánast ekkert annað en formið tómt og innihaldslaust blaður. Íslandi er einfaldlega meira og minna stjórnað af fámennum hagsmunaklíkum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí