Flokkur sem berst fyrir frelsi, jöfnuði, mannhelgi og samkennd

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 13. maí 2025

Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 2017, níu árum eftir hrun nýfrjálshyggjunnar þegar ljóst var orðið hversu alvarleg mistök hagsmuna- og réttlætishreyfingar almennings höfðu gert með því að yfirgefa kröfur um sósíalískar efnahagsstjórn. Sósíalistaflokkurinn hefur lagt áherslu á að afhjúpa hvernig samfélagið hefur æ ákafar verið mótað að óskum hinna allra ríkustu og hvaða áhrif það hefur á stöðu annarra; hvernig auður, fé, völd og auðlindir hafa verið, og eru, fluttar frá almenningi til auðvaldsins. Flokkurinn hefur bent á að hagsmunir auðvalds og almennings fari ekki saman, að samfélagið muni ekki þjóna almenningi nema almenningur nái að taka til sín ríkisvaldið, úr höndum auðvaldsins.

Þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður höfðu þeir flokkar sem eiga rætur í sósíalískrar stéttabaráttu síðustu aldar í reynd yfirgefið sósíalískra efnahagsstjórn og sætt sig við að nýfrjálshyggjan væri eini valkosturinn, eins og Margaret Thatcher hélt fram.

Samfylkingin tók yfirlýsingu Thatcher sem endanlegu lögmæti stéttasamvinnunnar sem kratar höfðu hallað sér að frá stríðslokum, sannfærðir um að kapítalisminn væri forsenda framfara og velsældar almennings. Og blindir á að óheftur kapítalismi þróast til fákeppni og einokunar og síðan til óligarkisma, þegar auðvaldið hefur lagt undir sig ríkisvaldið, fjölmiðla, háskóla, hagsmunabaráttu almennings og aðrar stofnanir sem áður tilheyrðu lýðræðisvettvanginum. Og þaðan er næsta skrefið fasismi.

Eins og blasir við í heiminum í dag leiðir ógnarvald auðvaldsins til niðurbrots velferðarkerfa og innviða, brýtur niður þá samtryggingu sem almenningur þarf á að halda til að hafa sómasamlega afkomu og grefur undan öryggi og frelsi fólks. Og á endanum brýtur kapítalisminn niður lýðræðið, færir öll völd ríkisvaldsins til auðvaldsins. Við tekur auðræði eða þjófræði; þau sem hafa náð undir sig auð og völdum verða allsráðandi. Fólk í okkar heimshluta býr nú innan þess sem kalla mætti alræði auðvaldsins. Auðvaldið hefur lagt undir sig ríkisvaldið og því er fyrst og síðast beitt til að auka auð og völd auðvaldsins. 

Vinstri hreyfingin grænt framboð féllst einnig á að nýfrjálshyggin efnahagsstjórn væri líkast til eini valkosturinn, eins og afhjúpaðist endanlega í ríkisstjórnarsamstarfi flokksins með höfuðflokki auðvaldsins 2017-25. Flokkurinn stóð meira að segja sjálfur að frumvörpum um að flytja náttúruauðlindir almennings til auðvaldsins. Vg virtist á endanum líta svo á að sósíalísk efnahagsstefna væri dauð, en sósíalisminn hefði verið farvegur fyrir réttlætisbaráttu undirsettra hópa og umhverfisvernd og því væri sú barátta fyrst og fremst verkefni hinnar sósíalísku hreyfingar: Kvenfrelsisbarátta, barátta hinsegin og kynsegin, loftlags- og umhverfisvernd í anda sjálfsmyndarstjórnmála, en ekki stéttastjórnmála, væru megin verkefni sósíalismans innan alræði auðvaldsins.

Frá stofnun sinni hefur Sósíalistaflokkurinn bent á að engir sigrar vinnist innan kapítalismans í réttlætisbaráttu einstakra hópa né umhverfisvernd nema þeir sem auðvaldinu er ósárt að gefa eftir. Til að ná raunverulegum sigrum þurfa þau sem heyja í baráttu fyrir réttindum og öryggi kvenna, hinsegin, fatlaðra, öryrkja, aldraðra, láglaunafólks, leigjenda, innflytjenda o.s.frv. að taka þátt í baráttu alls almennings gegn alræði auðvaldsins. Forsenda allra sigra almennings er að almenningur sæki sér vald til að móta samfélagið eftir eigin þörfum, vonum og væntingum. Almenningur þarf að sækja það vald sem gefið hefur verið út á hinn svokallaða markað, sem í reynd er vettvangur hinna ríku þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Almenningur þarf að sækja til sín vald innan atvinnufyrirtækja, sem eru rekin sem einvaldsríki eigendasem innan alræðis auðvaldsins. Og almenningur þarf að ná völdum yfir ríkisvaldinu til að beita því fyrir réttlætis- og frelsisbaráttu sína og til að byggja upp réttlátt, öruggt og frjáls samfélag þar sem allir geta blómstrað.

Varðandi mat á sósíalískri baráttu var munurinn á Vg og Sósíalistaflokknum sá að Vg vildi draga línu utan um alla réttlætisbaráttu almennings og verða forystuafl allrar þeirra baráttu. Sósíalistaflokkurinn vill einbeita sér að hinni almennu baráttu gegn ógnarvaldi auðvaldsins. Til útskýringa bentum við stundum á að stefna Vg væri eins og matseðill á kínverskum veitingastað, hundrað réttir sem stillt var fram í von að allir fyndu eitthvað við sitt hæfi. En Sósíalistaflokkurinn legði fram einfaldan matseðil dagsins: Valdabaráttu gegn auðvaldinu. Það væri fyrst og síðast verkefni sósíalísk stjórnmálaflokks.

Vg vildi verða samnefnari allra mannréttinda- og réttlætisbaráttu og gat því ekki orðið forystuafl í breiðfylkingu almennings gegn auðvaldinu. Á ferð Vg og slíkra flokka verður hver og einn að samþykkja kröfur allra hinna og gera þær að sínum. Og stefna flokksins verður langur óforgangsraðaður listi krafna ólíkra hópa, án áherslu á að fella völd auðvaldsins.

Sósíalistaflokkurinn styður réttlætis- og frelsisbaráttu allra undirsettra hópa en gerir ekki kröfu um að vera leiðandi afl í hverri baráttu. Tilboð Sósíalistaflokksins til þessara hópa er að flokkurinn leiði baráttuna gegn alræði auðvaldsins, stéttabaráttuna sem er forsenda þess að frelsisbarátta almennings nái að brjótast fram. Sósíalistaflokkurinn hefur aldrei ætlað sér að verða í forgrunni allra baráttuhópa. Hann styður baráttu þessara hópa og sósíalistar eru virkir innan þeirra, en flokkurinn ætlar sér ekki forystuhlutverk nema í hinni almennu baráttu, valdabaráttu almennings gegn auðvaldinu.

Þetta er ekki bara taktísk verkaskipting miðuð að árangri, heldur byggir hún líka á lýðræðislegri arfleið okkar heimshluta. Sagan sýnir að konur eru bestar í að heyja kvenfrelsisbaráttuna, hinsegin sína baráttu, öryrkjar sína, leigjendur sína og verkalýðurinn sína baráttu. Það er hvorki aðkallandi né snjallt að safna þessum baráttuhópum og -hreyfingum saman undir eina stjórn. Frá uppbyggingu almannahreyfinga á þar síðustu öld, í gegnum almennan kosningarétt og fram að félagslegri deyfð neyslusamfélagsins á síðustu áratugum hefur frelsis- og réttlætisbarátta almennings verið breið og valddreifð, háð samtímis í sérstökum hópum. Forsenda árangurs hefur verið skýrar áherslur og baráttumál einstakra hópa sem hafa afl og frelsi til að skilgreina markmið sín. En geta líka fylkt liði með öðrum, vitandi að mannfrelsisbarátta er lífræn, frjó og gjöful, sigrar eins eru ekki á kostnað annarra heldur geta þvert á móti ýtt undir framgang allrar baráttu. 

En án sameiginlegrar baráttu gegn auðvaldinu mun enginn þessara hópa ná árangri. Hin sameiginlega barátta er hin almenna hagsmuna- og frelsisbarátta almennings gegn auðvaldinu. Sú barátta mun annars vegar bæta kjör alls almennings, auka völd og öryggi hans. En hún er jafnframt forsenda þess að hver einstaklingur geti skilgreint sig frjálst og út frá eigin sjálfsmynd, þrá og gildismati.

Þessi sameiginlega barátta, sem er forsenda raunverulegs frelsis alls almennings, kallast sósíalismi. 

Það hefur alla tíð verið vitað innan sósíalismans að frelsisbaráttan er að þessu leyti tvískipt, en samt óaðskiljanleg. Það dugar þrælnum ekki að rísa upp gegn kúgara sínum og taka af honum völdin. Hættan er þá sú að þrællinn gangi inn í hlutverk kúgarans ef nauðsynlegt endurmat á samfélagsgerðinni fylgir ekki valdaskiptunum. Þrællinn þarf að endurskapa sjálfsmynd sína og skilgreina raunverulegar þarfir, stöðu sína inn á heimilinu, í fjölskyldunni, á vinnustaðnum, í skólanum, í hverfinu. 

Þessi endurskilgreining hefur alla tíð verið nauðsynlegur þáttur hinnar sósíalísku baráttu. Stundum hefur tekist að stíga stór skref, til dæmis varðandi réttindi kvenna. En stundum hefur hinni sósíalísku baráttu ekki auðnast að styðja sjálfsagða réttlætisbaráttu, verið blind gagnvart breyttu gildismati, jafnvel snúist gegn kröfum einstakra hópa, gleymt að væntingar fólks eru ekki bara um brauð heldur líka rósir. 

Sósíalistaflokkurinn er stofnaður á Íslandi 2017. Þrátt fyrir félagslegan óróa á eftirhrunsárunum hafði auðvaldinu tekist að auka enn við völd sín og auð. Uppreisn almennings hafði ekki fundið sér farveg í stéttabaráttu en beinst að umbótatillögum innan alræði auðvaldsins. Stéttarvitund var við frostmark, stéttabarátta lítil og baráttutæki almennings veik.

Fólk var hvatt til að skrá sig í flokkinn undir einfaldri og skýrri stefnu:

Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu. Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og handbendi þess. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu. Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem sameinar fólkið í landinu; óréttlætið sem það mætir og viljann til að losna undan því. Öllum landsmönnum er velkomið að ganga til liðs við flokkinn, óháð kyni, uppruna, trú eða kynhneigð. Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi.

Þessu fylgdi fyrstu baráttumál flokksins:

  • Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, lífeyrisþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
  • Aðgengi að öruggu og ódýru húsnæði.
  • Aðgengi að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
  • Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
  • Enduruppbygging skattheimtunnar með það fyrir augum að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

Það er augljóst af þessum áherslum hvenær og hvar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Hann er hluti sósíalískrar hreyfingar sem reis eftir hrun nýfrjálshyggjunnar þegar öllum átti að vera ljóst að leið sjálfsmyndarstjórnmálanna (Vg) eða hugmyndin um nýfrjálshyggju með mannúðlegri ásýnd (Samfylkingin) gagnaðist ekki frelsisbaráttu almennings. Né umbótastefna Pírata eða Flokks fólksins, flokka sem vilja umbætur innan kapítalismans án þess að raska völdum auðvaldsins.

Í erlendu samhengi var þetta tímabil sósíalískrar vakningar Bernie Sanders í Bandaríkjunum og Jeremy Corbyn í Bretlandi, sem báðir reyndu að vekja upp almenning til baráttu gegn fjármálavæddum kapítalisma sem dregið hafði til sín öll völd og afl í samfélaginu. Sanders og Corbyn störfuðu innan breiðfylkinga sem mótast höfðu innan stjórnmálakerfis, sem er tveggja flokka í grunninn og kallaði á breiða skírskotun. Markmið þeirra var að mynda breiðfylkingu til vinda ofan af samfélagsbyltingu nýfrjálshyggjuáranna, þar sem völd og auður hafði verið færður frá almenningi til auðvaldsins, endurreisa velferðarkerfin á grunni réttlátrar skattheimtu og hleypa raunverulegum kröfum almennings inn á hinn pólitíska vettvang. Markmið sem 99% fólks hefur hag af.

Íslenskt flokkakerfi er öðru vísi, en tíminn var sá sami og markmiðin lík. Algjör ördeyfð félagslegrar baráttu við endalok nýfrjálshyggjutímans hafði í raun fært alla umræðu innan samfélags inn á vettvang auðvaldsins. Það þurfi að vekja almenning til vitundar um hvers vegna innviðir og grunnkerfi hefðu verið veik og hvers vegna völd almennings höfðu minnkað. Það þurfti að ná þungamiðju umræðunnar úr höndum auðvaldsins.

Hlutverk Sósíalistaflokksins var, og er, að efla stéttarvitund meðal almennings, styðja við réttlætis- og frelsisbaráttu hans, skipuleggja baráttu þeirra hópa sem standa efnahagslega veikt (leigjendur, einstæðir foreldrar, innflytjendur, stúdentar, öryrkjar, fátækt eftirlaunafólk o.s.frv.) og endurreisa verkalýðsbaráttu sem raunverulega stéttabaráttu. Vinna gegn alræði eigenda innan fyrirtækja og taka þátt í borgaralegum stjórnmálum í þing- og sveitastjórnarkosningum, þjóna þar hinni breiðu fylkingu. Sósíalískur flokkur hefur sáralítinn tilgang nema hann hafi rætur í breiðri hagsmuna- og frelsisbaráttu almennings. Öflugur flokkur er afkvæmi slíkrar hreyfingar, hann getur ekki orðið til né haft tilgang án hennar.

Þetta hlutverk má sjá í uppbyggingu flokksins. Hann er valddreifður vegna þess að hann trúir að innan breiðrar hreyfingar séu margar miðjur, að ekki sé hægt að ná fram öllum markmiðum frelsisbaráttu almennings undir einum fána. Flokkurinn hefur því nægt rými fyrir öll þau sem vilja taka upp baráttu fyrir leigjendur, einstæða foreldrar, innflytjendur o.s.frv. og þau sem vilja endurvekja verkalýðshreyfinguna, samtök öryrkja, stúdenta o.s.frv. Flokkurinn er ekki vettvangur fyrir deilur milli samherja, til dæmis um stefnu. Stefnan er mörkuð af slembivöldum hópum flokksfélaga, sem marka almenna stefnu sem breið samstaða getur myndast um. Við í flokknum sættumst á þessa aðferð og þá stefnu sem hún færir okkur. Enginn fær stefnu eftir eigin höfði í öllum málum. En stefnan, og hvernig hún er mörkuð, gerir okkur fært að berjast við hlið þeirra sem eru okkur ef til vill ekki sammála um hvert einstakt atriði.

Sósíalistaflokkurinn er heldur ekki vettvangur fyrir deilur um hinn rétta sósíalisma. Stofnun flokksins skilgreindi vandann sem skort á stéttarvitund almenings og algjör yfirráð auðvaldsins í samfélaginu. Í slíku ástandi er augljóst að verkefnið er að mynda fylkingar sem geta sameinað fólk í baráttu gegn ógnarvaldi auðvaldsins. Og í dag gætum við líka rætt um myndun breiðfylkingu gegn upprisu fasismans, vaxandi and-mannúð og skoðanakúgun. Og sú brátta þarf að vera breið ef hún á að ná árangri. 

Þegar við vinnum sigra endurskilgreinum við næstu markmið. En á meðan á baráttunni stendur þjónar það litlum tilgangi að deila um hvað við ætlum að gera þegar nýfrjálshyggjan er fallinn, þegar óligarkisminn er fallinn, þegar fasisminn er fallinn. Bíðum með þær deilur. Ekki bara vegna þess að þær lama baráttu dagsins heldur líka vegna þess að við vitum ekki svörin sem framtíðin kallar eftir. Sjáum ekki alltaf fyrir hverjar spurningarnar verða.

Okkar hlutverk er að ýta undir breiða frelsisbaráttu almennings, leiða baráttu hinna valdalausu gegn auðvaldinu til að ná af því völdunum og halda á lofti sósíalisma, sem hefur frelsi, jöfnuð, mannhelgi og samkennd að markmiði. Og hafa þolgæði og sigurvilja til að halda fókus í baráttunni, ekki kasta frá okkur mikilvægum markmiðum í hita leiksins. Það er hlutverk okkar að gæta þess að helstu markmið sósíalískrar baráttu lifi af hildarleikinn sem fylgir umbreytingum kapítalismans.

Á síðustu öld var sagt að óþolinmæði breytti sósíalistum í krata eða hryðjuverkamenn. Þegar fólk gafst upp í hinni löngu baráttu freistuðu sumir þess að kveikja í húsinu, valda usla í von um að eitthvað breyttist þar sem ekkert virtist ætla að breytast nógu hratt. En aðrir gáfust upp fyrir ógnarvaldi auðvaldsins. Í stað þess að ná völdum vildu þeir reyna að milda hjarta auðvaldsins, fá það til að fallast á umbætur innan óbreytt auðvaldskerfis.

Í dag sjáum við sambærilega stöðu þar sem sósíalistar vilja draga úr kröfum bæði um lýðræði og valddreifingu, en líka um mannúð og mannvirðingu, í von um meira fylgi meðal almennings sem mataður er af áróðursmaskínum auðvaldsins, sem halda því fram að frelsi eins sé ætíð á kostnað annars. Á sínum tíma gáfu kratar kapítalistunum lögmæti með því að fallast á að kapítalismi væri forsenda allra framfara. Í dag er raunveruleg hætta á að óþolinmóðir sósíalistar gefi ný-fasistum lögmæti með því að taka undir gagnrýni þeirra á skaðsemi mannréttindabaráttu einstakra hópa. 

Slíkt getur ekki verið verkefni Sósíalistaflokksins, eins og til hans var stofnað.

En það má vel vera að við séum komin á þann stað að viljinn til að byggja upp breiðfylkingu, að starfa saman að sameiginlegum markmiðum þótt ýmislegt aðgreini afstöðu okkar og sýn, að sá vilji sé einfaldlega ekki til staðar. Ein afleiðing af uppgangi nýfasista birtist meðal annars í vaxandi úlfúð, ásökunum, yfirgangi og sannfæringu um eigið ágæti, löngun til hrakyrða fólk fyrir rangar skoðanir og rangt innræti. Ég er hins vegar sannfærður um að það sé enn mikilvægara nú en fyrir átta árum að það sé mikilvægara að byggja upp breiða samstöðu gegn alræði auðvaldsins og vaxandi fasisma en að mynda þröngan flokk þar sem allir eru sama sinnis um öll mál.

Þegar ég gekk á milli fólks fyrir rúmum átta árum til að kanna hug þess til stofnunar Sósíalistaflokksins sagði ég að við hefðum aðeins örfá ár til að skipuleggja okkur því annars myndum við lokast inn í fasisma. Þau sem auðguðust á tíma nýfrjálshyggjunnar myndu verja völd sín og auð með fasisma. Mitt mat er óbreytt, ég tel það mikilvægt að verja Sósíalistaflokkinn eins og til hans var stofnað og trúi að hann hafi mikilvægt hlutverk við endurskipulagningu stjórnmálanna og hagsmunasamtaka almennings.

Ég trúi því að félagar í flokknum muni fylkja sér um Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, pólitískan leiðtoga flokksins, á Sósíalistaþingi um þar næstu helgi. Og tryggja að á bak við hana standi samhentur flokkur sem deilir sýn Sönnu um sósíalisma sem leggur áherslu á frelsi, jöfnuð, mannhelgi og samkennd.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí