Hagvöxtur, arðgreiðslur og fullt af ósýnilegu fólki   

Skoðun Sara Stef. 6. mar 2023

Síðasti þáttur Samtals á sunnudegi á Samstöðinni var sérlega skemmtilegur en að þáttastjórnendum ólöstuðum þá var það viðmælandi dagsins, félagsfræðingurinn Guðmundur Ævar Oddson sem hafði þessi áhrif.

Efnahagslegur og pólitískur jöfnuður og ójöfnuður var eitt af aðalumræðuefnunum en í kjölfarið á umræðu um félagslega ójöfnuðinn fór ég að velta fyrir mér stöðu þeirra sem eru kerfisbundið ósýnileg og valdalaus í samfélaginu. Þau sem vegna félagslegrar stöðu sinnar hafa engin áhrif.

Eins og kom fram í þættinum er þetta t.d. erlenda vinnuaflið sem er flutt inn til þess að vinna fyrir samfélagið okkar. Með öðrum orðum erlendu ríkisborgararnir sem eru beinlínis forsenda hagvaxtar og arðgreiðslna sem við heyrum endurtekið um.

Þessir erlendu ríkisborgarar, vinnuaflið okkar, hafa ekki kosningarétt á Íslandi og eru því fullkomlega valdalaus. Engu að síður eru þau algjörlega ómissandi stétt.

Í þættinum var spurt var út í valdaleysi þeirra: Er þetta eðlilegt? Að þau séu forsendur hagvaxtar en hafi engan kosningarétt og því enga rödd eða möguleika til að hafa áhrif á samfélagið sem þau þó lifa og starfa í?

Svar Guðmundur Ævars var á þá leið að í ríkjandi stjórnmálalandslagi þá væri auðvitað tilgangslaust fyrir stjórnmálafólk og -flokka að hafa einhvern áhuga á stétt sem skilar þeim engum atkvæðum. 

Bara svona. Hann greindi þetta bara heiðarlega svona. Og auðvitað.

Nýfrjálshyggja er ráðandi afl í okkar menningu og svona birtist hún í sinni nöturlegustu mynd: í því hvernig það er siðferðilega -og löglega -samþykkt að flytja inn valdalausa vinnustétt sem fær enga rödd, laun sem þau geta ekki lifað af, en er samt ómissandi forsenda þess að hin ríku verði ríkari – og að hin ríku haldi valdinu í krafti auðs síns. Auðvitað bara. Af hverju ekki?

Kapítalískir stjórnmálaflokkar hafa enga ástæðu til að breyta þessu fyrirkomulagi.  Erindi kapítalískra stjórnmálaflokka fjallar enda ekki um að skapa jöfnuð eins og þingkona sjálfstæðisflokksins lýsti yfir í Silfrinu fyrir stuttu. 

Fregnir hafa líka borist af því að í bígerð sé frumvarp um að sækja erlent vinnuafl suður fyrir miðbaug en hingað til höfum við sótt þau til Austur-Evrópa. Frumvarpið gerir líka, skilst mér, ráð fyrir að þetta vinnuafl standi utan stéttarfélaga – þannig má greiða þeim enn lægri laun en ella.

Konur og kosningarétturinn

En líkt og láglauna og valdalausir erlendir ríkisborgarar skapa hér forsendur fyrir hagvexti og arðgreiðslum þá gera konur með íslenskan ríkisborgararétt það líka – þó með öðru lagi sé.

Undirskipun kvenna á Íslandi (og annarsstaðar) hefst með nafngift ungbarna þar sem hefðinni um að halda mæðrum ósýnilegum og valdalausum er stunduð með því að börn eru kennd við feður sína. 

Þetta er augljós undirskipun. 

Strax í upphafi ævinnar er því beinlínis normalíserað að helmingur samfélagsins sé ósýnilegur og á þann hátt gerður valdalaus (reyndar meira en helmingur samfélagsins því tvíhyggjan útskúfar líka fólki sem neitar að samþykkja þennan einfalda valdastrúktur: karl/kona).

Hér væri einnig hægt að benda á undirskipun kvenna sem felst í kynjuðu tungumálinu en konur alast upp við og lifa það dags daglega að geta aldrei vísað í sig sjálfar án þess að vísa í mann. 

Manni finnst það ekki bara stórfurðulegt heldur er maður langþreytt á þeirri gaslýsingu að heyra að það sé einskonar náttúrulögmál vegna þess hvernig málfræðin þróaðist að þurfa alla daga að tala um sig í karlkyni. Alla daga. Maður minn hvað það er óþolandi!

Konur og hagvöxturinn

Þriðja og fjórða vaktin, á ensku cognitive og emotional labour, sem fjallar um allt sem snýr að snurðulausu heimilishaldi og samskiptum innan og í tengslum við fjölskyldulífið,  grunnþörfum eins og næringu og hreinlæti en líka allskyns félagslegum og fjárhagslegum skuldbindingum sem mega ekki klikka ef allt á að ganga upp frá eins dags til annars, þetta eru líka vaktir kvennanna. Ekki bara launaða vinnuvaktin.

Nú fer yfir heimsbyggðina faraldur heilabilunar sem er hinsvegar með nær öllu ósýnilegur. Af hverju? Jú, vegna þess að konur sinna umönnun eiginmanna sinna og ættingja sem þjást af þessum sjúkdómi bakvið luktar dyr heimila og án þess að láta á sér kræla.

Konur sinna nefnilega nær öllum ólaunuðum störfum sínum úr sjónmáli, innandyra, í heimahúsum, þegjandi í matarinnkaupum og oftast meðfram verr launaðri vinnu sinni sem er þrátt fyrir áratuga baráttu enn ójöfnuð launum karla. 

Konur sinna einnig ólaunaðri umönnum barna og unglinga ásamt ýmsum öðrum skuldbindingum sem verða ekki taldar upp hér en eru líka forsendur þess að hér á landi sé hægt að tala um hagvöxt, arðgreiðslur og augljóslega velferð borgaranna.

En það er ekki bara brotið heilbrigðiskerfi sem stólar á allar ósýnilegu konurnar í umönnun heilabilaðra, hjartveikra, langveikra, geðfatlaðra -listinn heldur áfram, heldur stólar atvinnulífið allt, atvinnulífið í heild sinni, á þá ólaunuðu vinnu sem ósýnilegar konur taka á sig í þágu hagvaxtar og arðgreiðslna. 

Hagvöxtur, og arðgreiðslur, hvort tveggja ómögulegt – nema fyrir þessa tvo hópa þótt ólíkir séu.

En af hverju er t.d. þessi meginforsenda jöfnuðar, hagvaxtar og aðrgreiðslna, konur og annað ómissandi fólk sem sinnir grunnframlagi til þjóðarhags en er aldrei reiknað út eða talað um upphátt.

Ég meina í alvöru, konur halda uppi hagkerfum heimsins og eru bókstaflega forsenda þess að lífið haldi áfram, að kynslóðir fólks verði til?  

Er það kannski af sömu ástæðu og áður var komið inn á með erlendu ríkisborgarana sem hafa ekki kosningarétt? 

Er það vegna þess að í ríkjandi menningu er auðvitað tilgangslaust fyrir stjórnmálafólk og -flokka að hafa einhvern áhuga á valdalausum hóp – eins og konum – sem eru undirskipaðar frá fæðingu – eru ósýnilegar – og hafa verið skilyrtar í menningunni til að sinna undirstöðustörfum fyrir engin eða lítil laun. Af því að þær geta ekki annað.

Konur og efnahagslegt framlag þeirra

Af hverju ætti stjórnmálafólk að gera eitthvað öðruvísi þegar þau komast upp með að gera ekki neitt? 

Ég sakna feminískrar umræðu um þetta –  um framlag og möguleg áhrif nú ósýnilegra, ólaunaðra en algjörlega ómissandi framlags kvenna til hagvaxtarins, þjóðarframleiðslu (e. GDP), hagvaxtar og arðgreiðslna.

Af hverju einskorðast umræðan um stýrivaxtaákvarðanir seðlabankastjóra og aðgerðaleysi kapítalísks stjórnarbandalags?   

Félagsfræðin eins og flest önnur eldri fræði byggir á kenningum karla langt aftur og þegar þrír karlar sitja svo saman að ræða sögulega þróun ójöfnuðar og jöfnuðar þá er einhent að kvenlæg sjónarmið, framlag ósýnilegra kvenna hér heima og að heiman, vanti inn í umræðuna. Enda er engin hefð fyrir slíkri umræðu. Sú umræða telst skv. karllægum hefðum jaðarumræða, eins og hún eigi við um svo fá, um minnihluta sem getur aldrei orðið ráðandi afl.  

En við erum ekki að tala um neinar jaðarstærðir. Við erum að tala um framlag helmings þjóðarinnar- helming vinnuaflsins. Og ef helminginn vantar inn í umræðuna, helming sem er svo sannarlega ráðandi afl á við hinn helminginn og ætti að hafa sýnileg áhrif – er það þá góð og gild umræða?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí