Hátækni og lágtækni í hernaði

Skoðun Sara Stef. Hildar 8. mar 2024
Mynd: Stephen William and Saber Ashor

Upp úr 1930 bönnuðu nasistar Þýskalands öll samtök kvenna og lögðu þar með niður alþjóðlegan baráttudag kvenna frá 1910. Þeir þurrkuðu hann út og nefndu hann mæðradag. Rödd kvenna var þannig þögguð og konum gert að fagna hlutverki sínu sem mæður, þær eru jú lífberar ríkisins, máttur þeirra og stoð. Það var ekki fyrr en að lokinni styrjöld, árið 1945, sem konur náðu aftur deginum. Þá var ákveðið að 8. mars yrði alþjóðlegur baráttudagur kvenna og að dagurinn yrði helgaður baráttu fyrir friði í heiminum.

Linnulausar árásir og þjóðarmorð Ísraela á palestínsku þjóðinni undanfarna fimm mánuði bera hernaðarlegum yfirburðum þeirra vitni. Ísraelar hafa enda áratuga æfingu í að þróa hernað sinn og vopnabúnað, eða frá því þeir réðust fyrst inn á landsvæði palestínsku þjóðinnar árið 1948. Þeir sem hafa varið lífi sínu í framþróun hernaðar og vopna segja ísraelska morðtækni seljast vel um gjörvalla veröld og benda á, máli sínu til stuðnings, að sölukippur verði við hvert stríð. Sömu menn segja þó að engin þjóð heyji stríð til þess eins að sýna vopnabúr sitt og hernaðarkænsku enda væri slíkt ósiðlegt með öllu.

Hátækni

Tækniþróun í hergagna- og vopnabúnaði er mikil og hröð og þjóðríki þurfa að hafa sig öll við til að heltast ekki úr lestinni. Sprengjuflugvélar teljast orðið til klassískra vopna en hátæknileg vopn eins og drónar og önnur fjarstýrð vopn verða vinsælli með hverju árinu. Hergagna sýningar og expó eru fjölmennir markaðir þar sem hægt er að skoða nýjustu drápsvélarnar og -tæknina sem verður æ algengara að noti gervigreind við að leysa úr flóknum eyðileggingarverkefnum. Þær þjóðir sem vilja standa framarlega í hernaði búa yfir slíkri tækni og hafa gætur á nágrönnum sínum með henni, en dæmi um það er Ísrael sem hefur notað dróna við eftirlit og árásir á fólkið á Gaza og Vesturbakkanum.

172  af 195 löndum heimsins hafa her og teljast því vígbúin. En þótt tæknin sé í mikilli þróun eru sum vopn alltaf eins. Breytast aldrei. Já, það má kannski bara kalla þau klassísk, ef við viljum tala kurteisislega í siðmenningunni. Þessi vopn kosta sama og ekkert í framleiðslu, þurfa nær ekkert viðhald (það mætti jafnvel segja að þau sjái um sig sjálf) og svo er oft tiltölulega auðvelt að skipta þeim út. Þessi vopn eru af holdi og blóði og eru konur, mæður og börn óvinarins. Þetta eru konurnar, mæðurnar og börnin sem öll 195 þjóðríki heims stóla á til að viðhalda ríki sínu, sömu konurnar, mæðurnar og stúlkubörnin sem eiga á hættu að verða nauðgað, pyntaðar og drepnar ef stríð brýst út við þjóðríki þeirra.

Lágtækni

Tölur frá UN Women varpa ljósi á þá skelfingu og ofbeldi sem nauðganir kvenna, mæðra og stúlkubarna eru í átökum og stríðum heimsins. 250.000 til 500.000 konum og stúlkum var nauðgað í þjóðarmorðinu í Rúanda árið 1994, meira en 60.000 í borgarastyrjöldinni í Sierra Leone, á bilinu 20.000 og 50.000 í stríðinu í Bosníu og Hersegóvínu og að minnsta kosti 200.000 konum og stúlkum hefur verið nauðgað í Kongó síðan 1996. Enda þótt óbærilegt sé að lesa þessar tölur eru þær í flestum tilfellum alvarlegt vanmat á raunverulegum fjölda nauðgana, því nauðganir, eðli málsins samkvæmt, eru langt í frá allar tilkynntar til yfirvalda. Frá 7. október teljast nú 70% myrtra á Gaza vera konur og börn, um 13.000 börn og meira en 8.500 eru konur, en upplýsingar um pyntingar, kynferðisofbeldi og aftökur ísraelska hersins á palestínskum konum, mæðrum og stúlkum voru nýlega staðfestar af Sameinuðu þjóðunum þótt formleg rannsókn sé ekki hafin.

Palestinian News & Information Agency (Wafa) in contract with APAimages

Þjóðríki jarðar eru ekkert án þeirra sem gefa þeim líf en landamæri eru mögulega ein stærsta ógn kvenna, mæðra og stúlkubarna -án þess að við leiðum endilega hugann að því dags daglega. Kannski má jafnvel segja að þjóðríki heimsins teikni landamæri sín með konum, mæðrum og stúlkubörnum. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ein mesta niðurlæging stríðandi aðila er að reyna að stroka út landamæri hvors annars, t.d. með því að nauðga konum, mæðrum og stúlkubörnum óvinarins, pynta þær og drepa.  Konur, mæður og stúlkubörn eru notaðar til að niðurlægja óvininn og gera þeim erfitt fyrir að fjölga sér. Ef þjóð fjölgar sér ekki þá rýrnar hún og herir hennar verða fámennari og veikbyggðari. Oftar en ekki breytast landamæri ríkja í kjölfarið og landssvæði þjóðríkisins rýrnar. Rannsóknir sýna að fæðingartíðni ríkja hrapar í kölfar stríðsátaka. Ekki aðeins vegna mannfalls heldur einnig vegna afleiðinga nauðganana og pyntinga kvenna, mæðra og stúlkubarna. Fæðingartíðni í Palestínu hefur markvisst hrapað síðan 1962 á meðan fæðingartíðini í Ísrael hefur aukist hægt og bítandi.

Hernaður þjóðríkja

Að drepa þjóð tekur tíma og á meðan fréttamiðlar selja aðgang því hvernig nýjustu tækni og hernaði er beytt á fólkið á Gaza má líka horfa í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum á algjöra skelfingu fólks sem upplifir drápin og eyðilegginguna allt um kring á Gaza. Alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, sem telja 193 ríki, horfa enn langflest aðgerðalaus á og bera við lögtæknilegum atriðum sem hindri þau í að stöðva þjóðarmorðið. Við erum að horfa á óbærilega langdregið siðrof eiga sér stað.

https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=15465435

Palestína, eins og Vatikanið, telst vera annað af tveimur „óformlegum“ ríkjum heimsins en Ísland hefur, eins og 139 önnur ríki innan SÞ, viðurkennt sjálfstæði Palestínu. Það var árið í desember 2011, stuttu eftir Katrín Jakobsdóttir kom aftur til starfa í ríkisstjórn og tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra. Árið 2023 voru konur í æðsta embætti 13 þjóðríkja. Konur sem komast til valda eiga samt ekkert í blóði drifna og þúsund ára langa sögu feðravelda. Látum verkin tala segja menn og saga feðraveldanna segja einfaldlega sitt.

Þjóðríki heims eru ekkert án kvenna en þrátt fyrir það kúga þau konur, mæður og stúlkubörn alla daga. Konur, mæður og stúlkubörn verða áfram notaðar í hernaði feðravelda heimsins því jafnvel þótt aðeins 13 konur haldi um stjórnartauma þjóðríkja þá eru þær umkringdar vígbúnum þjóðríkjum karla sem, ef sagan og verkin segja okkur eitthvað, bíða bara færist til þróa og reyna nýjustu tækni fjarstýrðra drápstóla á óvinaþjóðum sínum, konum þeirra, mæðrum og stúlkubörnum.

Konur og kvár, krefjumst friðar í dag, 8. mars,  sem alla daga.

Sara Stef. Hildar
Skrifar fyrir baráttuhóp sósíalískra feminista í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna, 8. mars

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí