Hvað er neikvæð stærðarhagkvæmni?

Skoðun Ögmundur Jónasson 28. des 2023

Morgunblaðið er ekki feimið við að vera það sem það er, hægri sinnað dagblað sem dregur taum einkareksturs og vill ríkisrekstur í lágmarki.

Í leiðara blaðsins í dag er lýst áhyggjum yfir því að störfum hjá hinu opinbera hafi fjölgað umtalsvert frá aldamótum: Þar segir meðal annars:
“Rík­is­báknið hef­ur þan­ist út á liðnum árum. Sem dæmi um útþensl­una má nefna að sam­kvæmt Hag­stof­unni hef­ur fjöldi starfa í op­in­berri stjórn­sýslu, fræðslu­starf­semi, heil­brigðis- og fé­lagsþjón­ustu auk­ist um 70% frá alda­mót­um, sem er tölu­vert meiri fjölg­un en í einka­geir­an­um. Þessi nei­kvæða stærðar­hag­kvæmni hins op­in­bera er veru­legt áhyggju­efni og sýn­ir að full ástæða sé til að taka til hend­inni í op­in­bera rekstr­in­um, jafnt hjá ríki og sveit­ar­fé­lög­um.

Ekkert af því sem hér er sagt kemur á óvart. Ekki heldur alhæfingarnar þar sem allt er sett undir sama hatt, eða sömu hatta. Allt þetta höfum við margoft séð í leiðurum Morgunblaðsins.

En ég nefni þetta vegna þess að mér finnst hér vera kominn efniviður til pólitískrar umræðu sem verður að fara fram á Alþingi og í sveitarstjórnum: Hvað veldur fjölgun í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni? Þegar við þekkjum svörin skulum við ræða hvort þessi fjölgun er góð eða slæm, æskileg eða óæskileg og hvað sé til ráða.

Getur verið að einmitt á þeim sviðum almannaþjónustunnar sem hér eru nefnd sé álagið vegna fólksfjölgunar í landinu og eðlis þess vanda sem við er að glíma meiri en svo að núverndi kerfi ráði við það? Halda menn að með gegndarlausri þenslu í atvinnulifinu þar sem hinn rómaði einkageiri flytur inn tugþúsundir starfsmanna sem búin eru afarkjör, húsnæðisskortur og ófullnægjandi félagslegar aðstæður, hafi engar afleiðingar fyrir “báknið”?

Halda menn að hundruð þúsunda ferðamanna segi ekki til sín í heilbrigðiskerfinu? Og enn má spyrja hvort álagið í heilbrigiðskerfinu hafi verið skilgreint sem skyldi? Gæti verið að aukin misskipting í íslensku samfélagi sé þegar farin að segja til sín í auknu álagi í félagsþjónustu, í skólum og í heilbrigðidþjónustunni? Við þekkjum hvað gerst hefur (ekki) í húsnæðiskerfinu.

Og áfram mætti biðja um nánari skýringar og dýpri umræðu, er hægt að setja öll einkafyrirtæki undir einn og sama hattinn? Er fjölgun milliliða í orkugeiranum góð af því að milliliðirnir eru einkareknir? Gæti verið að þeir séu að verða hið íþyngjandi bákn fremur en sjúkraliðinn á Landspítalanum? Fróðlegt væri að fá eins og einn leiðara um þetta. Og þá kannski líka um spurningu dagsins:

Hvað þýðir “neikvæð stærðarhagkvæmni hins opinbera”?

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí