Er ég sú eina sem á erfitt með orðalagið og áhersluna á „jöfn tækifæri“? Að það þurfi að veita öllum jöfn tækifæri og að slíkt sé uppskrift að góðu samfélagi. Hvað varð um áhersluna á jöfnuð og að vinna gegn ójöfnuði?
Finnst þetta hugtak um jöfn tækifæri setja ábyrgðina á manneskjuna, að það sé á ábyrgð einstaklingsins að grípa tækifærin. Það sé þitt að grípa og þér að kenna ef þú missir boltann.
Mér finnst þessi nálgun um að veita jöfn tækifæri oft líta fram hjá óréttlátu grunnkerfunum í okkar samfélagi sem byggja á og viðhalda ójöfnuði.
Hvað ef þú getur ekki gripið tækifærið vegna samfélagsgerðar sem byggir á misskiptingu? Hvernig áttu að fara út að grípa tækifærin þegar þú ert of svöng til að standa upp? Hvernig áttu að grípa tækifærin sem eru bara í 5 km fjarlægð en þú hefur ekki efni á strætómiða til að komast á áfangastað?
Hvað ef þú missir af öllum tækifærunum, nærð þeim ekki vegna óviðráðanlegra og skyndilegra aðstæðna sem þurfti að bregðast við? Færðu þá fleiri tækifæri? Eða ertu stimplaður sem sá sem klúðraði öllum tækifærunum?
Hvernig er þessum jöfnu tækifærum dreift til okkar? Er þeim dreift af þeim sem þekkja ekki þær efnahagslegu hindranir sem eru til staðar í samfélaginu?
Áfram jöfnuður, bú á ójöfnuð.