Innviðir illskunnar

Skoðun Davíð Þór Jónsson 18. feb 2024

Guðspjall:  Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.” En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.” (Lúk. 10. 17-20)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Ég starfaði einu sinni á stað þar sem það var dálítið vandamál að í votviðrum þá lak þakið á nokkrum stöðum. Margt hafði verið reynt til að stöðva þennan leka, en allt kom fyrir ekki. Þannig þurfti reglulega að setja skálar og skúringafötur á nokkra staði, sem við vorum farin að vita hverjir voru, og hella úr þeim með reglulegu millibili. Rétt er að taka fram að ég veit ekki betur en að nú hafi loksins verið komist fyrir vandamálið. En fram að því þurfti að grípa til ýmissa úrræða til að allt færi ekki á flot.

Mér varð hugsað til þessa ástands nú í vikunni þegar ég fylgdist með fréttum.

Dæmi um heimsku

Mig langar þess vegna að biðja ykkur að hugsa ykkur dálítið fáránlegt. Ímyndum okkur að við eigum vin sem glímir við hvimleiðan þakleka. Að vísu bara á einum stað. Og hann veit nákvæmlega hvar hann er. Auðvitað hlýtur langtímamarkmiðið að vera að komast fyrir lekann og stöðva hann. En í millitíðinni verður að setja eitthvað undir hann.

Ímyndum okkur nú að þessi vinur okkar setji fingurbjörg undir lekann og leyfi sér svo að kvarta hástöfum við okkur undan því að heimilið sé undirlagt af þessum ósköpum, hann hafi bara engin ráð eða aðferðir til að takast á við þetta vatnsflæði neðan úr loftinu hjá sér. Hann hafi einfaldlega ekki undan að tæma fingurbjörgina og öll úrræði séu þrotin.

Ég hugsa að fæst okkar myndu skilja vandamálið. Við flestum okkar vona ég að blasi hið augljósa. Hvernig væri að setja eitthvað stærra undir lekann? Kannski skúringafötu eða jafnvel þvottabala? Ég hugsa jafnvel að mörg okkar gætu ekki stillt sig um að finnast þessi vinur okkar dálítið heimskur.

Það furðulega er að þetta er ekki tilbúið dæmi. Þetta er að mínum dómi nákvæmlega það sem við erum að horfa á gerast í kringum okkur. Því miður virðist mér að sorglega margir íslenskir stjórnmálamenn séu annað hvort svona heimskir eða halda að almenningur sé það.

Fleiri dæmi um heimsku

Tökum annað dæmi.

Ímyndum okkur að á Íslandi séu tveir starfandi læknar og tíu sjúkrarúm. Um leið og ellefti Íslendingurinn þarf að leggjast inn á spítala dúkki svo heilbrigðisráðherrann upp í sjónvarpi og væli hástöfum undan því að heilbrigðiskerfið sé sprungið.

Ég hugsa að flest okkar myndu sjá í hendi sér að það þyrfti að fjölga sjúkrarúmum og heilbrigðisstarfsfólki svo heilbrigðiskerfið væri fært um að sinna því sem því er ætlað að sinna og veita þá þjónustu sem hlutverk þess er að veita. Við myndum, vona ég, ekki taka mikið mark á því að ekki væri hægt að gera betur og nú þyrfti þjóðin bara að gjöra svo vel og hætta að veikjast.

Þetta er ekki heldur tilbúið dæmi. Að vísu er það ekki heilbrigðiskerfið sem á í hlut. Þar er ástandið ekki alveg svona slæmt þótt vissulega mætti bæta margt.

Nei, það eru þau kerfi og ferlar sem við höfum komið okkur upp til að taka á móti fólki, sem neyðst hefur til að flýja heimili sín vegna morðæðis og sprengjuregns blóðþyrstra valdhafa, sem við erum nú stanslaust mötuð á því í fréttum að ráði ekki lengur við álagið sem er á þeim. Innviðirnir eru sprungnir, er sagt.

Innviðirnir eru okkar verk

Stöldrum aðeins við þetta.

Byrjum á því að átta okkur á því að innviðirnir eru ekki einhver óviðráðanlegur fasti sem datt til okkar af himnum ofan og við getum ekki breytt á nokkurn hátt. Samt er okkur sagt að inniviðirnir séu sprungnir og þess vegna verðum við að skera niður þá mannúð sem við erum aflögufær um handa fólki í neyð og jafnvel bráðri lífshættu. Það er eins og hinn valkosturinn, að stækka inniviðina svo þeir ráði við að mæta því álagi sem á þeim er, sé ekki í boði.

Ef það vantar sjúkrarúm þá finnst okkur blasa við að það þurfi að fjölga þeim. Ef fingurbjörgin heldur ekki í við þaklekann finnst okkur blasa við að það þurfi að býtta henni út fyrir skúringafötu. En þegar kemur að því að hýsa hina veglausu, þá sem eiga hvergi höfði að að halla, þá er eins og það sé fáránleg hugmynd að við getum stækkað faðminn sem tekur á móti þeim og því sé eina mögulega úrræðið sem hægt sé að grípa til að skera niður náungakærleikann.

Vera má að innviðirnir séu sprungnir. En af hverju eru þeir sprungnir? Það er út af pólitískum ákvörðunum um það hve stórir þeir eiga að vera. Það er af því að það er pólitískur vilji fyrir því að innviðirnir séu ekki stærri en svo að álagið sem á þeim er sprengi þá. Það eru ekki hælisleitendurnir sem valda því að innviðirnir eru sprungnir. Þeir eru bara að reyna að bjarga lífi sínu og lái þeim það hver sem vill.

Þeir sem sprengdu inniviðina eru þeir sem viljandi vits gerðu þá ekki stærri og öflugri en svo með fjárveitingum til þeirra að fyrirséð var að þeir myndu springa þegar þeir ættu að fara að gegna hlutverki sínu. Fyrir vikið er okkur seld sú hugmynd að við höfum ekki efni á því að gera öðrum það sem við viljum að aðrir geri okkur, að við höfum ekki efni á því að elska náungann.

Velmegunarblinda

Annars verð ég að segja eins og er að þegar ég heyri talað um sprungna innviði hér á Íslandi get ég ekki varist því að finna til dálítillar gremju vegna velmegunarblindunnar sem orðalagið afhjúpar. Ég fylgist nefnilega með fréttum frá Gasa. Og þessum fréttum fylgja ljósmyndir. Þessar ljósmyndir sýna sprungna inniviði. Bókstaflega. Sjúkrahúsin eru sprungin. Skólarnir eru sprungnir. Íbúðarhúsin eru sprungin. Göturnar eru sprungnar. Og af hverju er þetta allt sprungið. Jú, af því að það var varpað sprengjum á þetta allt saman og það var sprengt til helvítis. Og inn á milli birtast hjartaskerandi myndir af fólki, jafnvel ungum börnum, sem ástæða þótti til að varpa sprengjum á, sprengja af þeim útlimi og úr þeim líftóruna.

Okkar innviðir eru ekki sprungnir. Þeir eru aðframkomnir af fjársvelti.

Útvistun fagnaðarerindisins

Guðspjallstexti dagsins segir frá viðbrögðum Jesú við sprungnum innviðum. Tíundi kafli Lúkasarguðspjalls hefst á því að Jesús gerir 72 menn út af örkinni til að boða fagnaðarerindið. Hann kennir þeim engar ræður. Þeir fara ekki með neinar skyggnusýningar með sér til að sannfæra fólk um að kaupa kristindóminn. Hann gerir þá út af örkinni til að auðsýna auðmykt, líkn og kærleika. “… hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess sem sett er fyrir yður. Læknið þá sem þar eru sjúkir og segið þeim: Guðs ríki er komið í nánd við yður.” (Lúk 20.8-9) Auðmýkt, líkn og kærleikur. Þetta er kristindómurinn í hnotskurn.

Jesús sá að eftirspurnin eftir líkn og kærleika var meiri en svo að hann gæti sinnt henni einn svo hann útvistaði fagnaðarerindinu. Hann sá í hendi sér að 72 menn gætu læknað fleiri en einn maður. Hann brást ekki við með því að falla niður á hné sér, reyta hár sitt og skegg og væla yfir því að eftirspurnin eftir þjónustu hans væri meiri en framboðið sem hann væri fær um að veita. Nei, hann brást við með því að auka framboðið til að mæta eftirspurninni. Lærdómur sem íslenskum valdhöfum virðist í besta falli vera lokuð bók, í versta falli sprungin bók þar sem blaðsíðurnar flögra í tætlum allt í kringum hausinn á þeim.

Lærisveinarnir koma til baka, glaðir og hissa á því sem þeir fengu áorkað og Jesús svarar að hann hafi gefið þeim “vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi.” (Lúk 10.19)

Til eru söfnuðir sem taka þetta með höggormana og sporðdrekana bókstaflega og hefur það kostað nokkur mannslíf. En höggormarnir og sporðdrekarnir eru auðvitað tákn þess illa sem eitrað getur sálir okkar ef við leyfum því að bíta á okkur.

Eiturbyrlararnir meðal okkar

Við búum við það hér og nú að það er verið að eitra fyrir sálum okkar af þeim sem síst skyldi, af þeim sem við höfum valið til að ráða málum okkar, þeim sem við höfum treyst fyrir stjórn landsins okkar.

Það er verið að mata okkur á þeirri eitruðu hugmynd að kærleikurinn sé takmörkuð auðlind. Það er verið að mata okkur á þeirri hugmynd að við getum ekki elskað náungann … ekki alla náunga og því verðum við að forgangsraða og forgangsröðunin skuli vera á þann veg að þeir sem eru skyldastir okkur skuli teknir fram fyrir röðina. Að við höfum meiri skyldur gagnvart tólfmenningi okkar úr öðrum landshluta sem við höfum aldrei hitt, heldur en gagnvart útlendingi sem horft hefur upp á heimili sitt, ástvini og land sprengt í þúsund mola og stendur uppi blásnauður með aleiguna fangi sér – hugsanlega svo lánsamur að í fangi hans séu líka börn á lífi og hans eina úrræði sé að koma sér eins langt í burtu og mögulegt er til að bjarga lífi barnanna.

Valdið er okkar

En við höfum vald. Við höfum vald til að stíga á höggorma skeytingarleysins. Við höfum vald til að traðka sporðdreka sérhyggjunnar ofan í svaðið og allt óvinarins veldi. Allt sem vinnur gegn fagnaðarerindi líknar og kærleika getum við gersigrað ef við erum send af Jesú Kristi, holdtekningu kærleikans og líknarinnar. Ef við leyfum okkur að vera send af honum.

Og okkur er gefið vald til að velja og hafna. Okkur er gefið vald til að ráða því sjálf hverju við trúum. Okkur er gefið vald til að hafna eitraðri heimsmynd og baneitruðum mannskilningi.

Og síðast en ekki síst þá erum við svo lánsöm að búa í samfélagi þar sem okkur er gefið vald til að velja okkur leiðtoga sjálf. Það er brýnt að við vöndum okkur vel við það. Að við kjósum kærleikann.

Hann á nefnilega undir högg að sækja.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Háteigskirkju 18. 2. 2024

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí