Ísland úr NATÓ, herinn burt!

Skoðun Ögmundur Jónasson 12. nóv 2023

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins, minnt­ist þess ný­lega í ræðu í Jap­an hve skelfi­leg minn­ing­in væri af kjarn­orku­árás­un­um á Naga­saki og Hiros­hima fyr­ir 78 árum. Þar fór­ust á þriðja hundrað þúsund manns og enn fleiri hlutu var­an­leg örkuml þegar banda­ríski her­inn varpaði kjarn­orku­sprengj­um á borg­irn­ar. Van der Leyen lét þess hins veg­ar ógetið hver árás­araðil­inn var og vissu menn ekki bet­ur, hefði mátt ætla að það hefðu verið Kreml­verj­ar því hún tengdi fortíð og samtíð með því að segja að „nú hóti Rúss­land því að beita aft­ur kjarn­orku­vopn­um“.

Þessi teg­und áróðurs­mennsku á greiðan aðgang inn í vest­ræn­an fjöl­miðlaheim og þaðan inn í vit­und al­menn­ings. Sem bet­ur fer hef­ur full­trúa­lýðræðið á þjóðþing­um og gagn­rýn­in frétta­mennska séð til þess að gagn­stæð sjón­ar­mið hafa fengið að heyr­ast og fyr­ir vikið ein hlið, hvað þá hin upp­logna, aldrei orðið alls­ráðandi. Þannig hef­ur það verið þar til nú að þetta er breytt.

Á Íslandi þýðast nú all­ir stjórn­mála­flokk­ar á Alþingi hernaðar­hyggju NATÓ. Það á líka við um Vinstri­hreyf­ing­una grænt fram­boð þrátt fyr­ir texta í stefnu­skrá þess flokks sem seg­ir allt annað. Auðvitað eiga flokks­menn að gera annað tveggja, breyta stefnu­skrá sinni eða fram­fylgja henni. Annað eru óheil­indi. Þegar eitt er sagt en annað gert gref­ur það und­an trú­verðug­leika stjórn­mál­anna og þar með full­trúa­lýðræðinu.

En VG er ekki eitt um að kúvenda gagn­vart NATÓ. Það á einnig við um flesta vinstri flokk­ana á Norður­lönd­um og á ég þá við þá stjórn­mála­flokka sem skil­greina sig vinstra meg­in við krata­flokka. Þeir hafa annaðhvort sann­færst um „villu síns veg­ar“ eða kom­ist að þeirri niður­stöðu að far­sæl­ast sé að fylgja meg­in­straumn­um, ger­ast liðsmenn NATÓ og tala fyr­ir „vopnuðum friði“ eins og það heit­ir í orðabók hernaðar­hyggj­unn­ar.

Banda­ríski geim­vís­indamaður­inn Carl Sag­an minnti ein­hvern tím­ann eft­ir­minni­lega á hve vara­samt það væri að láta vopnaiðnaðinn telja okk­ur trú um að því fleiri dráp­stól sem við fengj­um í hend­ur, þeim mun meira yrði ör­yggi okk­ar, því aldrei yrði það meira en ör­yggi and­stæðing­anna tveggja sem sætu í sama rým­inu, um gólfið flæddi eld­fim olía, ann­ar hefði sjö þúsund eld­spýt­ur, hinn fimm þúsund. Ein eld­spýta nægði hins veg­ar til að granda öllu og öll­um.

Vand­inn fyr­ir vinstri flokk­ana er sá að hernaðar­hyggj­an rekst á sitt­hvað annað í stefnu­skrám þeirra. Þannig segja þeir flest­ir núorðið að bar­átta gegn meng­un í and­rúms­loft­inu eigi að hafa for­gang um­fram allt annað.

En svo kall­ar meng­andi vopnaiðnaður­inn og vill fram­leiða fleiri vopn – miklu fleiri og öfl­ugri eld­flaug­ar og sprengj­ur. Þá dapr­ast þeim sjón og heyrn sem segja okk­ur vera hárs­breidd frá því að tor­tíma líf­ríki jarðar­inn­ar. Umyrðalaust veita ís­lensk stjórn­völd, með VG inn­an­borðs, nú aðstöðu fyr­ir árás­arþotur bún­ar kjarn­orku­vopn­um og að sama skapi fyr­ir kjarn­orkukaf­báta og ekk­ert þykir sjálf­sagðara en að or­ustuflug­vél­ar fái hér aðstöðu til að hring­sóla um him­in­hvolfið og menga sem aldrei fyrr.

Ekki eru all­ir sátt­ir við þessa þróun og hef ég fyr­ir satt að víða um Evr­ópu og þá einnig á Norður­lönd­un­um kraumi und­ir og þykir jafn­vel lík­legt að marg­ir vinstri flokk­ar klofni fyrr en síðar.

Vinstri væng­ur­inn yrði þá um sinn enn minni en nú er. Það er ekki þar með sagt að þá muni fara minna fyr­ir vinstri póli­tík og and­stöðu við hernaðar­hyggju. Þvert á móti munu þess­ar radd­ir fara að heyr­ast bet­ur á ný.

Lík­legt má heita að ein meg­in­skýr­ing­in á því að skoðanakann­an­ir sýna vax­andi stuðning við hernaðarbanda­lag og hernaðar­hyggju sé sú að á þing­um og í fjöl­miðlum tala flest­ir sem aðgang fá að hljóðnem­um þjóðfé­lags­ins í anda hernaðar­hags­muna vest­ur­veld­anna og þeir sem andæfa eru að sama skapi þaggaðir á þeirri for­sendu að þeir flytji ein­tómt fals.

Fari svo að vinstri menn í Evr­ópu, gagn­rýn­ir menn í Banda­ríkj­un­um og rót­tæk öfl í fá­tæk­um ríkj­um, vakni til lífs­ins eins og merki eru þegar um, þá mun margt geta breyst á skömm­um tíma. Menn munu þá koma auga á öll þau huldu stríð sem nú eru háð í heim­in­um, yf­ir­gang og ásælni heimsauðvalds­ins í auðlind­ir svo og efna­hagsþving­an­ir í garð þeirra ríkja sem neita að þýðast þetta vald. Þá verður ver­öld­in ekki leng­ur í ein­um lit, heim­ur­inn ekki leng­ur eintóna.

Sá tími gæti meira að segja runnið upp að þau sem tala í nafni Íslend­inga verði gagn­rýn­in á yf­ir­gang­söfl hvarvetna sem þau hafa sig í frammi og standi jafn­framt fjarri þeim sem tala fyr­ir víg­væðingu. Hún get­ur nefni­lega af sér of­beldi og eyðilegg­ingu og get­ur vissu­lega leitt til þess að kjarn­orku­vopn­um verði beitt á ný eins og Ursula von der Leyen varaði við – af Rúss­um, það er vel hugs­an­legt, eða þeim sem áður hafa drepið með slík­um vopn­um.

Und­ir­lægju­hátt­ur fer Íslend­ing­um illa. Það á reynd­ar við um alla menn. Það er til­hlökk­un­ar­efni að fari að heyr­ast – fyrst frá fáum, svo smám sam­an fleir­um – og af mar­gefld­um krafti, hvatn­ing sem á við í dag ekk­ert síður en í gær:

Ísland úr NATÓ, her­inn burt!

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí