Tuttugu og tvö þúsund börn og konur hafa verið drepin á aðeins fimm mánuðum á Gasaströndinni. Þetta er hæsta mannfall á óbreyttum borgurum á svo stuttum tíma síðan þjóðarmorðið í Rúanda. Þúsunda barna er saknað, sum mögulega legið í nokkra daga föst í rústunum og dáið af sárum sínum eða hungri. Börn svelta heilu hungri og meirihluti barnanna þjást af vannæringu. Börnin á Gasaströndinni munu aldrei ná sér. Slíkt er áfallið. Heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk Sameinuðu Þjóðanna hefur verið pyntað. Skyttur drepa fólk á færi sem freistar þess að finna sér mat. Skyttur drepa heilbrigðisstarfsfólk sem hleypur undan sprengjuregni. Hundrað fimmtíu og tveir starfsmenn Sameinuðu Þjóðanna liggja í valnum. Hundrað blaðamenn hafa verið drepnir, sumir í drónaárásum. Menn teknir höndum eru allsberir, niðurlægðir og pyntaðir. Atvikin eru mynduð. Skriðdreki hefur valtað yfir mann. Ég hef persónulega aldrei upplifað að stríðsglæpum er streymt inn í símann minn í beinni. Hvern einasta dag sé ég myndir af fólki sem hefur verið myrt, það er pyntað eða það niðurlægt. Myndirnar minna á Abu Graib. Sprengjum rignir á milli þess sem flugvélar henda út mat sem dugar hvergi nærri til. Niðurlægingin er alger þegar aumingja fólkinu er gert að vaða út í sjó til að ná í pakkana. Ein og hálf milljón manna er á vergangi. Sumir hafast við í tjöldum og líklegt að fjölmargir hafi hreinlega dáið úr vosbúð enda er heilbrigðiskerfið fyrir löngu hrunið og engin lyf fáanleg til að lækna fólkið.
Þið hafið kannski tekið eftir því að ég hef hvergi minnst á Ísrael í upptalningu minni að ofan. Þannig er gjarnan fréttaflutningurinn, bara eins og þessi hörmulega krísa sé óhjákvæmileg. Ábyrgð leiðtoga á Vesturlöndum er hins vegar alger. Þetta kemur nefnilega ekki á óvart því leiðtogar Ísraels lýstu því yfir að Palestínumenn væru mannleg dýr, að allir á Gasaströndinni væru sekir, að stjórnvöld myndu skrúfa fyrir vatn og svelta fólkið, að her Ísraels myndi fletja út Gasa, að stefnan væri að þröngva Gasabúum inn á Sínaískagann og að Ísrael myndi taka aftur yfir Gasaströndina. Vesturlönd leiddu þessi ummæli hjá sér og kusu að einblínda bara á yfirlýsingar Ísraels um að þetta snerist um sjálfsvörn og að útrýma Hamas.
Alþjóðadómstóllinn úrskurðaði í janúar að það væri mögulegt þjóðarmorð að eiga sér stað og staðfesti mál Suður Afríku gegn Ísrael fyrir dómstólnum auk þess að koma með bráðabirgðarúrskurð sem gaf skýr tilmæli til Ísraels og ríkja heims um að koma í veg fyrir þjóðarmorð og leyfa hjálpargögn inn á Gasaströndina. Hvað gerði Ísland? Við frystum greiðslur til Hjálparstofnunar Sameinuðu Þjóðanna sem er á Gasa. Ísrael sakaði 12 starfsmenn af 30 þúsund (þar af 13 þúsund inni á Gasaströndinni) um að hafa tekið þátt í 7. október. Leiðtogarnir okkar brugðust strax við. Þetta skyldi nú ekki viðgangast. Það voru hins vegar engar sannanir og nú kemur í ljós að starfsfólkið var pyntað til að játa. Ekkert heyrist nú frá utanríkisráðuneytinu um málið en langflestar þjóðir hafa gefið út yfirlýsingu um að greiðslur séu hafnar á ný. Þetta er skammarlegt.
Á meðan leiðtogarnir okkar refsuðu fólkinu á Gasa mega Ísraelar hins vegar myrða þúsundir manna og gerast sekir á degi hverjum um hræðilega stríðsglæpi á meðan þeir egna til þjóðarmorðs í fjölmiðlum í Ísrael. Þeir hafa nú gefið það út að Palestína verði aldrei frjáls, um það var kosið á þinginu. Enginn leiðtogi á Vesturlöndum virðist þora að taka af skarið og fordæma Ísrael. Nýleg gögn sýna að þvert á við úrskurð Alþjóðadómstólsins hafa stjórnvöld í Ísrael bara spýtt í lófana. Þau halda því fram að þau hafi gert allt hvað þau geta til að hlífa óbreyttum borgurum. Hins vegar kom út skýrsla í vikunni (Humanitarian Violence: Israel’s Abuse of Preventative Measures in its 2023-2024 Genocidal Military Campaign in the Occupied Gaza Strip) sem sýnir svart á hvítu hvernig aðgerðir Ísraelshers hafa þvert á móti leitt til dauða fjölda fólks. Þegar Ísraelar hafa tilgreint verndarsvæði eða „safe zones“ og hvatt fólk til að fara þangað hefur fólk verið drepið á leiðinni eða jafnvel loftárásir gerðar á þessi verndarsvæði. Sömu aðilar (Forensic Architecture) telja sig einnig hafa sannanir fyrir því að Ísraelsher hafi kerfisbundið ráðist á sjúkrahús. Og ekkert heyrist frá okkar leiðtogum.
Ég veit ekki hvort hinn almenni Íslendingur gerir sér grein fyrir því hversu alvarlegir stríðsglæpir Ísraelsmanna eru í Palestínu. Þetta er eina ríkið sem setur börn í fangelsi án dóms og laga og notar herrétt á fólkið sem það hefur hernumið. Okkar vestrænu leiðtogar halda því gjarnan fram að stuðningur við Ísrael sé vegna okkar sameiginlegu gilda. En eru gildin okkar að drepa börn án dóms og laga? Eru gildin okkar stríðsglæpir? Eru gildin okkar aðskilnaðarstefna? Eru gildin okkar að kvitta undir óendanlegt hernám?
Eftirlitsaðilar og mannréttindastofnanir hafa ekki undan að skrá stríðsglæpi Ísraelsmanna. Hamasliðar gerður sekur um stríðsglæp þegar þeir drápu saklaust fólk þann 7. október og þeir munu gjalda fyrir það hjá Alþjóðasakamáladómstónum. Hins vegar samkvæmt alþjóðalögum hafa Palestínumenn fullan rétt á vopnaðri uppreisn þar sem þeir búa við hernám. Er ekki kominn tími til að íslensk stjórnvöld hætti þessu leikriti og fordæmi líka framkomu Ísraels gegn Palestínu? Á meðan íslensk stjórnvöld þegja þunnu hljóði gerir ríkisstjórnin okkur samsek að þjóðarmorði. Okkur ber skylda samkvæmt Alþjóðadómstólnum og lögum um þjóðarmorð að gera allt hvað í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir frekari blóðsúthellingar í Palestínu. Yfir til þín Katrín Jakobsdóttir.