Markaðurinn er eitur

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 27. júl 2025

Stærsta lygin í gagnbyltingunni hinna ríku gegn velferðarríki eftirstríðsáranna og opnu lýðræði, sem byggt var upp af kröfum skipulagðrar verkalýðshreyfingar og annarri valdabaráttu almennings gegn hinum ríku, er sú að hinn svokallaði markaður stuðli að lýðræði. Það gerir hann ekki. Markaður er annað heiti á hinum ríku, því markaðurinn er ekki opinn samkeppnisvettvangur þar sem allir hafa sama rétt heldur svæði þar sem hinn ríkari ræður alltaf meiru, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði en ekki hver maður og þar sem sá ríkasti ræður í reynd öllu.

Óheftur markaður drepur af þessum ástæðum samkeppni, leiðir til fákeppni og einokunar og síðan okurs og stöðnunar. Framþróun og nýjungar verða ekki til innan stórfyrirtækja í einokunar- eða fákeppnisstöðu. Þau kaupa frá sér samkeppni eða bola henni burt. Sjóvá, Eimskip eða Skeljungur hafa ekki kynnt neinar nýjungar inn í íslenskt samfélag, aðrar en þær hvernig flytja megi meiri arð upp úr samfélagslega mikilvægum rekstri til eigenda. Að trúa því að eigendur stórfyrirtækja séu frumherjar nýjunga og geti leitt okkur til öflugra og meira skapandi framtíðar er álíka og að trúa að engisprettur séu forsenda fyrir góðri uppskeru.

Forsendur þess að markaður geti funkerað er að hefta völd hinna ríku. Á vinnumarkaði hallar mjög á launafólk, sem eru háð launum frá hinum ríku til að geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni. Launafólk er í veikri stöðu gagnvart þeim sem réttir þeim laun sem endurgjald fyrir vinnu. En með því að tryggja rétt launafólks til að semja um laun innan skipulagðra verkalýðsfélaga er hægt að draga úr valdaójafnvæginu og þeirri eyðileggingu á samfélagi og fólki sem það veldur. Á íslenskum leigumarkaði njóta leigjendur ekki sambærilegrar verndar og þar grasserar svívirðilegt okur og misneyting leigusala í skjóli veikrar stöðu leigjenda. Sama á við um skuldamarkað, fasteignamarkað, tryggingamarkað, dagvörumarkað og nánast hvaða markað sem er.

Frjáls samkeppni er því ekki afkvæmi markaðarins heldur þvert á móti nokkuð sem sameiginlegt átak almennings í gegnum ríkisvaldið getur ýtt undir með því að draga úr ógnarvaldi auðsins. Og með því að gera rekstur á mikilvægum mörkuðum félagslegan. Segja má að það sé eðli markaðarins að drepa samkeppni. Og ef við viljum samkeppni verðum við að styrkja vald almennings gegn auðvaldinu, hefta það í að beita valdi sínu og með því að verja mikilvæg kerfi fyrir ásælni þess. Svo sem heilbrigðiskerfið, menntakerfið, orkuframleiðslu og dreifingu, húsnæðiskerfi fyrir milli- og lágtekjufólk, greiðslumiðlun og margt fleira.

Markaðurinn er annað nafn á hinum ríku og það er því fráleit hugdetta að halda að markaðurinn sé forsenda eða ýti undir lýðræði með einhverjum hætti. Mannkynssagan hefur endalaus dæmi um að hin ríku brjóta niður lýð- og mannréttindi almennings ef þau fá of mikil og óskert völd. Opinber hugmyndasaga mannkyns er að stóru leyti sögur af afmennskun hinna ríku á þeim sem ekki tilheyra þeirra hópi; konum, þrælum, fólki af öðrum kynstofni, fátækum, þeim sem ekki beygja sig undir vald hinna ríku o.s.frv. Í í skjóli þessarar afmennskunar hafa hin ríku framið glæpi gegn mannkyni öldum og árþúsundum saman. Ekkert fyrirbrigði er mannfólki jafn hættulegt og hin ríku.

Það er því stórkostlega geggjuð hugmynd að hin ríku muni færa okkur frelsi og öryggi. Þau eru einmitt sá hópur sem hefur framið flest þjóðarmorðin og eru enn að fremja þau með því að ræna launafólk arðinum af vinnu sinni, með því að sölsa undir sig auðlindir og völd almennings, með því að hrekja fólk í fátækt og bjargarleysi og með því að ræna fólk mennsku, reisn og von. Og með því að eyðileggja náttúruna og lífsskilyrði manna og dýra. Og svo benda hin ríku á þau sem eru bjargarlaus og vonlaus, ótta- og örvæntingarfull sem sönnun fyrir yfirburðum sínum. Og fyrir þessari viðurstyggð fellur almenningur og keppist við að auka enn völd hinna ríku.

Það er því ekki að undra að fasisminn skuli rísa eftir nokkra áratugi af gagnbyltingu hinna ríku, svokallaðri nýfrjálshyggju. Nýfrjálshyggjan stefndi fyrst og fremst að því að draga úr völdum almennings með því að veikja verkalýðsfélög og önnur samtök almennings, með því að flytja ákvarðanir frá lýðræðisvettvangi sveitarfélaga og ríkis yfir til hins svokallaða markaðar (hinna ríku) og með því að flytja atvinnutæki og auðlindir úr félagslegri eign yfir í einkaeign, sem á endanum rata til örfárra fjölskyldna. Þetta er upptaktur af fasisma, alræðis auðvaldsins. Hin ríku hafa aldrei sóst eftir lýðræði eða mannréttindum, þau fyrirlíta hugmyndina í raun og telja fráleitt að deila völdum sínum með sauðsvörtum almúganum.

Ef ég má endurtaka erindið: Frjáls markaður, sem er heitið sem hin ríku hafa valið alræði sínu, vinnur gegn lýðræði og brýtur samfélagið niður. Alræði auðvaldsins er eitur sem leiðir til fasisma, valdleysi almennings. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefta markaðinn áður en hann gleypir allt kvikt, innleiðir hér fullkomna einokun örfárra og algera kúgun okkar hinna. Og eyðileggur á leiðinni lífsskilyrði okkar og framtíð.

Myndin er tekin úr grein sem birtist á vegum Fred Hampton-stofnunar og sýnir kolkrabbann í Bandaríkjunum sem hefur tryggt sér völd í öllum stofnunum á öllum sviðum samfélagsins. Almenningur fær engin völd yfir samfélaginu né ræður neinu um framtíð sína nema hann felli þetta skrímsl, höggvi af því armana.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí