Ég er stundum sein í partýin – var bara að klára að horfa á Barbie. Samkvæmt kvikmyndinni er ég örugglega “Weird Barbie”. Það er samt ekkert slæmt, því þótt ég sé cis hetero kona þá ætti ég samt að leyfa mér að upplifa hversu valdeflandi það er. Að vera „Weird Barbie“. Af hverju? Af því að Mattel segir það.
Ég átti ekki von á neinu í Barbie og það stóðst. Fyrst gat ég auðvitað ekki annað en hlegið yfir yfirþyrmandi bleikri og dísætri væmninni í upphafi myndarinnar en þar með er það eiginlega upptalið.
Kaldhæðin byrjunarsenan sem lýsir hinum fullkomna heimi kvenna þar sem þær hafa tekið yfir hæstarétt (USA), forsetaembættið, eru nóbelsverðlaunahafar, læknar, flugmenn, smiðir o.s.frv. sló tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Aðal dramað er þegar Barbie-konurnar missa völdin í Barbielandi. En þegar þær ætla að ná aftur völdum í hinum tvítóna heimi Barbielands, þar sem aðeins eru tvö kyn, og eitt kyn er í keppni við hitt, er gefið í skyn að konur hafi val gagnvart kúgun karla. Þær geti bara þóst vera vitlausar og þóst hafa þolinmæði fyrir kúguninni (sem sett er fram sem lúðalegt grín undir sjálfsánægju og gítarspili karlanna). Kúgun karla í feðraveldinu eru þannig smættuð niður í valdeflandi senu þar sem konur taka sér bara völdin og undirbúa byltingu og yfirtöku Barbielands aftur.
Þessi hugmynd og þessi pródúsjón er alveg jafn þunnur þrettándi og Run the world (Girls) með Beyonce sem fór eins og eldur í sinu um heiminn fyrir ekki svo löngu og gaf í það sama í skyn. Hvort tveggja er auðvitað algjör gaslýsing fyrir konur og kvár. Konur geta ekki bara tekið sér völdin og konur eru heldur ekki í keppni eða stríði um að velta körlum að stalli þótt það sé endurtekið það sem margir karla virðast halda um kvennabaráttu.

Konur vilja geta lifað og verið til á forsendum þess að vera konur. Ekki á forsendum karla og ekki á forsendum Barbie sem er framleiðsla karla sem eiga Mattel fyrirtækið.
Margar senur í kvikmyndinni um Barbie eru þannig í senn mjög þreytandi og innihaldslaus nýfrjálshyggju feminismi sem eins og nýfrjálshyggjan sjálf getur aðeins merkt efnahaglsega velgengni fyrir örfáar konur sem gangast við hugmyndum feðraveldisins og kapítalismans um “fallegar, sterkar og duglegar” konur. Það er ekkert að frétta fyrir konur í nýfrjálshyggju feminisma. Ekkert frekar en í Barbie.
Kvikmyndin er að sjálfsögðu bara ein risastór auglýsing fyrir Feðraveldið sem er Barbie; tvíhyggjan Barbie og Ken, Ken og Barbie. Kona og karl, karl og kona. En tvíhyggjan var auðvitað eins og rauður þráður í gegn sem náði svo hámarki undir lokin þegar karakter America Ferrera biður forstjórann af mikilli innlifun að búa bara til “venjulega Barbie” – Barbie sem er kannski bara mamma, eða ekki. En bara venjuleg kona! Hefðbundin kona.

Þetta er einskonar hámark kvikmyndarinnar þar sem hugmyndin um „konuna“ er til umfjöllunar og kemur í kjölfar þess að ekki-hvítu konurnar hafa fagnað með trylltum undirtektum staðhæfingunni hvernig “við erum allar Barbie og Barbie erum við”. Þessi fögnður í endann slaufast saman við upphaf myndarinnar, sem sagði eitthvað álíka, og ítrekar þannig hvernig konur ættu, þrátt fyrir allt, að hafa samúð með vörunni Barbie – Barbie “sjálf” hafi þannig aldrei meint neitt illt og það er hægt að vera bara „venjuleg Barbie“. Ég meina, horfið bara á litlu krumpuðu Mattel konuna sem “bjó hana til”! Engum konum stafar þannig hætta af Barbie – nema síður sé! Meiri dellan.
Og er fólki bara alvara með að þetta “sé kannski ekki alslæm kvikmynd”? Við erum í alvarlegu bakslagi feminismans og horfum upp á vaxandi bylgju anti-feminisma, rasisma, fasisma, tradwife-trend þar sem konur sækja ekki réttindi sín lengur heldur einangra sig með börn og buru og stóla á “eiginmenn” til “að skaffa” fyrir “heimilið”. Hugtakið áköf mæðrun (e. intense mothering) hefur rutt sér til rúms í ljósi þessa og hugmyndin um tvíhyggju, “venjulega” fjölskyldu verður æ háværari í löndunum í kringum okkur og þótt víðar væri leitað. Sjáið bara hvernig rétturinn til þungurrofs er tekinn af konum í hverju landinu og ríkinu á fætur öðru. Þetta er ekki einhver bóla í landslaginu – þetta er raunveruleg hætta fyrir konur. Það eru kosningar á Íslandi eftir a.m.k. tvö ár og það þarf líklega ekki að giska á hvort sú sveifla verður til hægri eða til hægri miðað við undirölduna í stjórnmálunum núna og kosningaúrslit í löndunum í kringum okkur.

Vissulega er gert léttvægt grín að Mattel, framleiðanda Barbie, og Feðraveldið fær að finna krúttlega fyrir því eins og allir vitlausu Ken-karlarnir en það verður seint sagt að þessi mynd sé feminísk. Hvar var t.d. kynsegin og hvar var hinsegin? Bara ekkert að frétta, ekki frekar en fyrri daginn.
En. Ég þrælaði mér sem sagt í gegnum Barbie og gerði svo auðvitað það sem myndin fær þig til að gera undir lokin: ég gúglaði „Barbie“.
Gúgglið fer með Barbie beint í gróðabransann enda er kvikmyndin ekkert annað en yfirborðskenndur feminismi þar sem nýfrjálshyggjubölvun kvenna sem Barbie er er blásið nýtt líf í brjóst. Við tölum um peninga þegar við tölum um Barbie segir Google. Við tölum ekki um konur þegar við tölum um Barbie.

Margot Robbie sem bæði leikur aðalhlutverk og er einn framleiðandi kvikmyndarinnar mun líklega hala inn 50 milljónum dollara á þessu þegar allt er talið. Það má heyra undirliggjandi andköf í textum frétta um laun tveggja aðalleikaranna, hennar og Ryan Gosling, en hann lét sig víst hafa það, stórstjarnan, að þiggja sömu laun og hún, rísandi stjarnan. Jafnréttið er fullkomið í nýfrjálshyggjufeminsima Barbie.
Á endanum ristir þetta nefnilega ekki dýpra á internetinu eða í menningunni en þetta. Hver græðir mest á konunni. Líka gervikonu, sem sögð er vera hin „fullkomna kona“, og sem nú er búið að blása lífi í á ný fyrir komandi kynslóðir stúlkna. Stúlkum sem verður sagt hvað Ferðaveldið er alltaf fáránlegt en að þær geti nú verið glaðar með hversu “venjulegar” þær eru – því þær eru eins og Barbie og Barbie er eins og þær. Þær geta verið sín eigin Barbie!
Feðraveldið er nefnilega ekki um menn á hestum eins og Ken heldur – heldur um menn sem framleiða Barbie.
