Greinin hefur verið uppfærð þann 8. maí 2023.
Það var ekki rétt sem kom fram að Pentagon skjölin hafi „staðfest“ mannfallstölur í Úkraínustríðinu, eins og stóð upphaflega í greininni. Í skjölunum sjálfum segir að mannfallstölurnar sem þar koma fram séu mjög óáreiðanlegar. Á skjali sem nefnist „Assessed Combat Sustainability and Attrition“ segir: „We have low confidence in RUS and UKR attrition rates… because of information gaps… and potential bias in UKR information sharing.“
New York Times greinir frá leynilegum skjölum sem var lekið frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (þ.e. Pentagon), CNN og fleiri vestrænir fjölmiðlar hafa staðfest að skjölin séu raunveruleg („authentic“).
Leyniskjölin sýna fram á að ráðamenn í Pentagon efast um að komandi vorsókn Úkraínumanna (sem hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið) muni ná miklum árangri. Washington Post greinir frá, en þar segir einnig að upplýsingarnar sem koma fram í skjölunum „sýni fram á fráhvarf frá opinberum yfirlýsingum ríkisstjórnar Biden“ um velgegni Úkraínu í stríðinu („It’s a marked departure from the Biden administration’s public pronouncements about the vitality of Ukraine’s army“).
Í leyniskjölunum er einnig varað við því að strax í maí gæti Úkraína orðið uppiskroppa af skotfærum fyrir loftvarnir (Wall Street Journal). Meðal annarra uppljóstrana sem koma fram í skjölunum er að 97 sérsveitarmenn á vegum NATO eru staðsettir í Úkraínu, þ.m.t. 14 frá Bandaríkjunum, en einnig frá öðrum NATO-ríkjum eins og Frakklandi, Bretlandi og Lettlandi (news.antiwar.com). Þá segir einnig að ekki sé búist við friðarviðræðum á þessu ári (Washington Post). Einnig kemur fram að bandarísk yfirvöld hafa verið að njósna um bandamenn sína í Suður-Kóreu, sem hefur valdið nokkrum usla þar í landi (New York Times), og þar að auki hefur verið njósnað um António Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna (Al Jazeera).
Þær upplýsingar sem koma fram í skjölunum um bága stöðu Úkraínuhers ríma ágætlega við greiningu hernaðarsérfræðinga á borð við Scott Ritter og Douglas MacGregor, sem hafa sagt að mannfall Úkraínumanna hafi verið margfalt á við Rússa. Í nóvember í fyrra tilkynnti Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar ESB, á blaðamannafundi að 100 þúsund úkraínskir hermenn hefðu fallið (orðið sem var notað var „killed“). Þessi tala var einnig gefin út í fréttatilkynningu á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB, en var svo tekin niður eftir að það vakti neikvæð viðbrögð (Yahoo News). Þá hefur fréttamiðillinn Mediazona haldið úti rannsókn (í samstarfi við BBC News Russian service) þar sem verið er að telja fallna rússneska hermenn með nafni. Á meðan þetta er skrifað stendur talan í 19.688.
Þessi leki minnir um margt á hina þekktu Pentagon Papers um Víetnamstríðið sem var lekið árið 1971 af uppljóstraranum Daniel Ellsberg. Nú er verið að líkja þeim leka saman við þessi skjöl um Úkraínustríðið frá Pentagon. En eins og þekkt er, þá sýndu Pentagon Papers á sínum tíma (1971) fram á að yfirvöld í Bandaríkjunum hefðu logið árum saman um framgang stríðsins í Víetnam, einkum að stríðið væri vinnanlegt (e. winnable) og að Bandaríkin og Suður-Víetnam gengi vel í stríðinu og gætu á endanum farið með sigur af hólmi.
Á svipaðan hátt sýna þessi Pentagon skjöl núna fram á að bandarísk yfirvöld hafa logið um framvindu stríðsins í Úkraínu. Okkur hefur stöðugt verið talin trú um að Úkraína getið unnið stríðið og sé við það að vinna, á meðan Rússland sé að tapa, gangi mjög illa, rússneski herinn sé í lamasessi og það gangi allt á afturfótunum hjá þeim. En skjölin afsanna slíkar fullyrðingar tvímælalaust. Upplýsingarnar sem koma fram í þessum skjölum grafa þannig verulega undan þeirri sigurvímu (e. triumphalism) sem hefur einkennt fréttaflutning á Vesturlöndum um þetta stríð frá upphafi. En eins og sést á þeim fréttagreinum sem hefur verið vísað til hér fyrir ofan, þá eru vestrænir meginstraumsfjölmiðlar eins og CNN, New York Times, Washington Post, Wall Street Journal o.fl. farnir að viðurkenna það í nýlegum fréttaflutningi sínum á síðustu dögum að útlitið er ekki mjög bjart fyrir Úkraínuher í stríðinu, samkvæmt upplýsingunum sem koma fram í nýja lekanum.
Hér sjáum við ákveðið mynstur sem er að endurtaka sig. Alveg eins og í Víetnamstríðinu á sínum tíma, þá hefur okkur stöðugt verið talin trú um að stríðið í Úkraínu gegn Rússlandi sé vinnanlegt. En núna sýna þessi skjöl sem hefur verið lekið frá Pentagon óneitanlega fram á að það er ekki raunin. Stríðið er óvinnanlegt fyrir Úkraínu. Í raun voru margir sem áttuðu sig alveg á því frá upphafi, en maður þarf ekki að vera einhver snillingur til að fatta að Úkraína (land með 37 milljón íbúa) hefur enga von á að sigra Rússland í stríði (land með 147 milljón íbúa sem er á sama tíma eitt öflugasta kjarnorkustórveldi heims og arftaki hernaðarmaskínu Sovétríkjanna).
Alveg eins og Pentagon skjölin sem var lekið á sínum tíma um Víetnamstríðið (1971) sýndu fram á að það hafi verið logið að almenningi frá upphafi um framvindu stríðsins í Víetnam, þá hefur svipað komið í ljós núna um Úkraínustríðið með þessum nýju uppljóstrunum. Skjölin draga upp nokkuð skýra mynd sem sýnir að Úkraínumenn hafi ekki verið að vinna stríðið, eins og okkur var þó stöðugt talin trú um, þvert á móti hafa þeir þurft að þola fjórfalt meira mannfall heldur en Rússar og útlitið fyrir komandi mánuði er nokkuð svart. Er þetta ekki svipað og mómentið á sínum tíma þegar Bandaríkjamenn vöknuðu einn dag upp við vondan draum og áttuðu sig á því að þeir gætu ekki unnið stríðið í Víetnam? Það er almennt talað um að það hafi verið eftir Tet-sóknina í janúar 1968, en var síðan staðfest með leka Pentagon skjalana 1971, sem sýndu eindregið fram á að bandarísk yfirvöld hefðu vitað það lengi að stríðið væri óvinnanlegt, en hefðu samt sem áður logið kerfisbundið að almenningi með því að reyna að telja honum trú um að sigur væri alltaf handan við hornið.
Er þessi Pentagon leki núna ekki enn eitt dæmið um söguna að endurtaka sig?
Í ljósi þessara uppljóstrana – er ekki fyrir löngu kominn tími á friðarviðræður? Til hvers á að halda áfram töpuðu og vonlausu stríði? Þetta er einnig farið að minna um margt á fyrri heimsstyrjöldina (enn eitt dæmið um söguna að endurtaka sig?). Það er bara liðið eitt ár af þessu stríði í Úkraínu, viljum við halda því áfram um ókomandi ár (eins og var gert í fyrri heimsstyrjöldinni í staðinn fyrir að stöðva þá geðveiki af strax)? Eða viljum við reyna að binda enda á þessar hörmungar? Áður en heilli kynslóð ungra Úkraínumanna verður fórnað á altari hernaðarstefnunnar, eins og gerðist á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar stríðsæsingurinn og sjálfsblekkingin (um að sigur væri stöðugt handan við hornið) fékk að ráða ferðinni í heil fjögur ár, frá 1914, þangað til geðveikin var loksins stöðvuð af með vopnahléi einn bjartan nóvemberdag árið 1918. Ef við prófum aðeins að líkja Úkraínustríðinu saman við fyrri heimsstyrjöldina, þá erum við núna stödd árið 1915. Eitt ár er liðið síðan stríðið braust út 1914. Viljum við halda átökunum áfram, alla leið fram til 1918, eða reyna að binda enda á blóðsúthellingarnar sem fyrst?