Pissukeppni Kristrúnar

Skoðun Þór Saari 18. feb 2024

Samfylkingin, a.k.a. Kristrún, heldur áfram að gera upp á bak þegar kemur að því að staðsetja sig á hinu pólitíska litrófi. Hún þykist vera fyrir jöfnuð en staðsetur sig þétt upp að hlið Sjálfstæðisflokksins í hverju málinu á færu öðru. Nú síðast tekur hún undir með Sjálfstæðisflokknum í málefnum útlendinga þar sem hún tekur undir hina villandi óheilindaumræðu Bjarna Ben. og kryddar með eigin Orwellískum frösum eins og „sjálfbærni“ og „lokuð búsetuúrræði.“

Það er náttúrulega ekkert til sem heitir „sjálfbærni“ í málum flóttamanna, staða þeirra er eins og hún er, þ.e. þeir eru fóttamenn vegna hörmulegra aðstæðna heima fyrir sem eiga sér bæði sögulegar, pólitískar, efnahagslegar og veðurfarslegar forsendur. Svo það sé nefnt þá er hér um að ræða arfleifð nýlendustefnu vesturlanda, pólistíska kúgun sem er oftar en ekki studd af vesturlöndum, fátækt og jafnvel örbirgð vegna m.a. stefnu ESB í efnahagsmálum og viðskiptum við fátæk lönd, og svo hamfarahlýnunina, sem á rætur í iðnvæðingu vesturlanda. Lokað búsetuúrræði er svo náttúrulega ekkert annað en fangelsi með Orwellísku nafni. Þegar þú býrð einhversstaðar þar sem þú færð ekki að yfirgefa staðinn og býrð við margsháttar takamarkanir á athafnasemi þá er það einfaldlega fangelsi og það er fullkomlega óásættanlegt að „kratar“ sem og fjölmiðlar taki undir þessa fáránlegu orðræðu og reyni að fegra fyrirbærið.

Vandamálið sem skapast hefur hér á landi í málefnum útlendinga hér á landi á alfarið og að fullu rætur sína í EES samningnum og svo kallaðri frjálsri för fólks innan EES og Schengen og verður ekki leyst öðuvísi en með takmörkunum þar á. Það er hægt og bítandi verið að skipta um þjóð í landinu sem og þjóðtungu og það er frekar ódýrt að kenna því um að þetta sé vegna örfárra flóttamanna sem leita hér hælis. Það hentar hins vegar Sjálfstæðisflokknum og atvinnulífinu, sérstaklega ferðaiðnaðinum og laxeldinu að kenna fólki sem er á flótta um vandamálið.

Það verður svo fróðlegt að sjá hvar Samfylkingin endar. Undir forystu Kristrúnar hefur hún hefur aflagt ESB umsóknina, nýju stjórnarskrána sem þó var lýðræðislega afgreidd í þjóðaratkvæðagreiðslu, brottför Reykjavíkurflugvallar sem einnig var samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu Reykvíkinga á sínum tíma, og hefur nú aflagt mannúð i málefnum flóttamanna og styður fangelsanir á þeim.

Það virðist einfaldlega vera draumur formanns Samfylkingarinnar að verða önnur Katrín Jakobsdóttir og standa þétt upp við nýfrjálshyggjusturlun þeirra hægri öfgaafla sem Sjálfstæðisflokkurinn er. Restin af hinum svo kölluðu sósíaldemókrötum drýpur svo höfði í þögulli lotningu fyrir hinum nýja formanni sem þeim finnst bara æðisleg. Skefjalaust formannsblæti er og hefur hins vegar alltaf verið helsti löstur íslenskra stjórnmálaflokka og valdið meiri skaða í stjórnmálum og efnahagsmálum en nokkuð annað einstakt fyrirbrigði og því miður er það greinilegt að Samfylkingin ætlar sér alls ekki að læra neitt af sögunni hvað það varðar.

Í Bandaríkjunum er oft talað um svona eftirhermupissukeppni í stjórnmálum sem Kristrún iðkar sem „penis envy“ en vegna vöntunar á góðu íslensku orði hvað það varðar læt ég það standa. Það er hins vegar alls ekki góð aðferð í stjórnmálum og ekki til farsældar fyrir land og þjóð að hafa forystufólk sem er þjakað af slíku.

Þór Saari er hagfræðingur og f.v. alþingismaður

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí