Ranghugmyndir um flóttafólk og pólitísk leiksýning

Skoðun Helen Ólafsdóttir 12. ágú 2023

Afleiðingar hinna svokölluðu Útlendingalaga sem íslensk stjórnvöld undir forystu Katrínar Jakobsdóttur leiddu í lög nýverið eru nú þegar að koma í ljós. Það var búið að vara stjórnvöld við afleiðingunum. Séra Toshiki Toma benti réttilega á að nýja stefnan gæti framleitt götufólk sem enduðu í tjaldbúðum svipuðum þeim og er að finna í Calais í Frakklandi. Lögin eru ekki bara grimm aðför að varnarlausu fólki heldur brjóta þau hreinlega í bága við hina ýmsu sáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Það er mér óskiljanlegt hvernig þrír stjórnmálaflokkar gátu innleitt slíka grimmd, þar sem varnarlausum konum er vísað á götuna, sér í lagi á meðan forsætis- og utanríkisráðherra koma fram á erlendri grundu í nafni lýðræðis og mannréttinda.
 
Stjórnvöld hafa sennilega lesið pólitíska stöðu sína svo að kjósendur væru fylgjandi þessari grimmd. Kannski er það að hluta til rétt. Umfjöllun um hælisleitendur á kommentakerfunum einkennist af heift, rasisma og og ranghugmyndum um flóttafólk. Aldurshópurinn er reyndar oftar en ekki í eldri kantinum sem gefur mér von um að yngri kynslóðir séu húmanískari í sinni afstöðu gagnvart flóttafólki og framandi menningu en það breytir því ekki að umræðan um flóttafólk á Íslandi í dag er á mjög lágu og ógeðfelldu plani. Nýverið var í dreifingu færsla þar sem því var haldið fram að Ísland tæki við miklu fleira flóttafólki en Danmörk. Þeir sem dreifðu þessum áróðri tóku Úkraínumenn inn í tölurnar á Íslandi en ekki í Danmörku sem skekkti myndina allverulega og stóðst enga skoðun en þetta var nóg til að gera allt vitlaust í kommentakerfunum og auka andúð fólks á flóttafólki.
 
Stóra myndin
 
Það eru um 35 milljónir manna á flótta í heiminum utan síns heimalands. Langstærstur hluti flóttamanna er að finna í Tyrklandi, Pakistan, Úganda, Þýskalandi, Súdan, Jórdaníu og Líbanon þar sem einn af hverjum fjórum er flóttamaður. Ólíkt því sem menn héldu hefur hagkerfið í Líbanon ekki hrunið, það hefur einfaldlega stækkað. Vandamál Líbanon eru ekki tilkomin vegna flóttamannanna heldur vegna rótgrónar spillingar og afleiðingar frá borgarastríðinu á 8. og 9. áratug. Svipaða sögu er að segja Í Jórdaníu en þar eru heimamenn um 11 milljónir og flóttafólk telur um 700 þúsund eða yfir 6%.  Fyrir eru um 3 milljónir palestínskra flóttamanna. Jórdanía tók líka við yfir 700 þúsund flóttamönnum frá Írak. Þrátt fyrir þetta er Jórdanía með frekar sterkt hagkerfi, stóran ferðamanna iðnað og stöðugan hagvöxt. Hagkerfið í Tyrklandi hefur haldið áfram að vaxa þrátt fyrir að um 10% þjóðarinnar eru flóttafólk. Vissulega er stuðningur mun minni við flóttafólk í þessum löndum en á Íslandi en þeir sem hafa sótt um hæli t.d. í Tyrklandi fá aðgang að heilsugæslu og félagsþjónustu eins og á Íslandi. Tyrkland veitir flóttamönnum líka tímabundið atvinnuleyfi til að létta á aðstoðinni á meðan mál þeirra eru afgreidd.
 
Ég dreg hér viljandi upp öfgatilfelli einungis til að sýna fram á að fátækari lönd sem hafa þurft að taka á móti flóttafólki hafa náð að glíma við áskoranirnar og hagkerfi þeirra hafa einfaldlega stækkað. Ég er ekki að gera lítið úr áskorunum þessara ríkja og vissulega fá ríkin aðstoð frá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna sem er eðlilegt í ljósi þess að þessi ríki eru mun fátækari en Ísland. Ég er heldur ekki að gera lítið úr menningarlega þættinum að ef til vill eigi Íraki auðveldara að aðlagast lífinu í Jórdaníu en á Íslandi. Ég er fyrst og fremst að skoða hér áhrif flóttamanna á hagkerfið.
 
Við megum ekki við þessu!
 
Ég las færslu Friðriks Jónssonar á Facebook nýlega um útlendinga þar sem hann undirstrikaði mikilvægi framlags útlendinga til íslenska hagkerfisins. Hann dró fram mjög mikilvægar tölur en í dag er rúmlega þriðjungur þjóðarinnar „útlendingar í víðasta skilningi“. Einungis 3% af útlendingum eru flóttafólk, langflest frá Úkraínu og Venesúela. Inntak færslunnar var að sýna fram á hvað útlendingar í heildina hafa jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið. Flóttafólk er þar engin undantekning. Margar erlendar rannsóknir sem sýna að það er langtímaávinningur að taka við flóttafólki. Að styðja við flóttafólk er langtímafjárfesting ef rétt er haldið á spöðunum.
 
„Við megum ekki við þessu“ er algeng staðhæfing í kommentakerfunum. Stuðningur við hælisleitendur kostar íslenska ríkið um 3-4 milljarða íslenskra króna á ári eins og staðan er í dag. Kostnaður við hvern hælisleitenda í upphafi er að meðaltali um 300 þúsund krónur á ári á fullum styrk. Það gefur auga leið að því fyrr sem mál eru afgreidd því fyrr komast hælisleitendur sem fá vernd út á vinnumarkaðinn og byrja þar með að borga til samfélagsins. Í apríl á þessu ári var greint frá því að Útlendingastofnun réði ekki við fjölda umsókna og á meðan eykst kostnaður við uppihald á hælisleitendum. Dæmi eru um að fólk bíði í nokkur ár eftir því að fá úr málum sínum skorið. Klárlega þarf að fjárfesta betur í innviðum þessara stofnana til að draga úr kostnaði við hælisleitendur. Það er auk þess alltaf verið að tala um skort á vinnuafli á Íslandi. Það væri vert að skoða hvort ekki megi veita tímabundin atvinnuleyfi til hælisleitenda á meðan þeir fá úr málum sínum skorið til að draga úr kostnaði við uppihald.

Angela Merkel tók djarfa ákvörðun árið 2015 þegar hún opnaði landamæri Þýskalands fyrir flóttafólki frá Sýrlandi. Hátt í ein milljón Sýrlendinga lögðu land undir fót og tóku boðinu fagnandi. Þjóðverjar hafa mikið rannsakað áhrif flóttafólksins á þýskt efnahagslíf. Rannsóknir sýna fram á að það tók aðeins sex ár þangað til að fólkið var búið að borga til baka í þjóðarbúið með sköttum það sem upphaflega kostaði að taka við því. En það er annar ábati sem er jafnvel enn mikilvægari. Flóttafólk vegur upp á móti þeirri staðreynd að ellilífeyrisþegum fjölgar á meðan barneignum fækkar. Það er ákveðin fjárfesting í því að fá fullorðna manneskju sem fer út á vinnumarkaðinn sem ríkið hefur ekki þurft að greiða fyrir skólagöngu, barnabætur eða heilbrigðisþjónustu á uppvaxtarárunum. Ríki á Vesturlöndum beinlínis þurfa á aðfluttu fólki að halda sem getur borgað til samfélagsins til að borga með ellilífeyrisþegum sem fer fjölgandi.

Þau taka vinnuna okkar!

Það er ákveðin mýta að flóttafólk sem fær atvinnuleyfi taki störf frá heimamönnum. Rannsóknir sýna að að flóttafólk endar oft í láglaunavinnu, vinnu sem heimamenn vilja ekki. Margir flóttamenn eru auk þess oft frumkvöðlar og stofna sín eigin fyrirtæki og skapa störf fyrir aðra. Þetta sést til dæmis best á veitingahúsaflórunni á Íslandi en margir framandi veitingastaðir á Íslandi tengjast flóttafólki. Með flóttamönnum koma líka nýjungar sem geta nýst samfélögum vel. Albert Einstein var jú flóttamaður. Faðir Steve Jobs var pólitískur flóttamaður frá Sýrlandi. Rannsóknir sýna að meira að segja ólöglegir innflytjendur hafa jákvæð áhrif á hagkerfið. Í Bandaríkjunum er staðan einfaldlega sú að ólöglegir innflytjendur halda uppi heilu atvinnugreinunum og margföldunaráhrifin eru stórkostleg fyrir hagkerfið í heild sinni. Í Texasfylki er áætlað að ólöglegir innflytjendur leggi til um 18 milljarða Bandaríkjadala til heildarframleiðslu fylkisins. 1.5 milljarðar Bandaríkjadala skiluðu sér auk þess í opinbera sjóði. Ef þessir ólöglegu innflytjendur væru skráðir og fengju atvinnuleyfi, myndu þeir borga enn meira í tekjuskatt.
 
Þetta fólk á bara að hypja sig!
 
„Þetta lið á bara að hypja sig heim“ er algeng lína í kommentakerfunum á Íslandi.  Önnur algeng staðhæfing er á þá vegu að „þetta fólk“ með tilvísun í fólk á flótta, sé komið til Íslands í þeim eina tilgangi að leggjast uppá kerfið þó staðreyndir sýni sterka atvinnuþátttöku flóttamanna þegar þeir fá tækifæri og aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn. Að taka við flóttafólki eykur ekki atvinnuleysi. Þvert á móti sýna rannsóknir fram á að lönd sem taka við fólki á flótta eru líklegri til að sjá aukinn hagvöxt þegar til lengri tíma er litið.
 
Flóttamenn fremja glæpi!
 
Því er gjarnan haldið fram að með auknum straumi flóttafólks aukist glæpir. Þessi fullyrðing er snúin. Ungir flóttamenn er líklegri til að fremja glæpi en aðrir hópar flóttamanna. Yfirhöfuð fremja ungir menn fleiri glæpi en aðrir í öllum samfélögum. Þar sem stór hópur ungra manna upplifir útskúfun, fátækt og atvinnuleysi er líklegra að þeir fremji glæpi. Besta leiðin til að koma í veg fyrir glæpi er að veita ungum mönnum atvinnutækifæri til að þeir geti lifað með reisn. Það má heldur ekki gleyma að flóttafólk hefur oftar en ekki upplifað mikil áföll, bæði í upprunalandinu og svo á leiðinni til Íslands. Það er því nauðsynlegt að huga að sálfræðiþjónustu fyrir flóttafólk, sér í lagi börn og unglinga. En yfirhöfuð er flóttafólk síður líklegt til að fremja glæpi en aðrir hópar samfélagsins.
 
Flóttafólk fær allt upp í hendurnar á meðan öryrkjar og aldraðir fá ekkert!

Hælisleitendum er oftar en ekki stillt upp gegn öryrkjum og öldruðum. Það er ekkert skrítið að fólk spyrji hvernig sé hægt að útvega hælisleitendum húsnæði á meðan fátækar íslenskar fjölskyldur, aldraðir og öryrkjar ná ekki endum saman og fá ekki tiltæka aðstoð. Hér er verið að etja saman varnarlausum hópum sem dregur athyglina frá því að það er pólitísk ákvörðum að halda úti sveltistefnu í málefnum aldraðra og öryrkja.

Það fé sem fer í aðstoð til hælisleitenda er í sjálfu sér ekki svo mikið ef við horfum til lengri tíma þar sem upphafleg aðstoð við flóttafólk skilar sér á endanum til baka. Það er hins vegar krísa á húsnæðismarkaði, skortur á fjárfestingu í innviðum og galið bankakerfið sem heldur fólki í gíslingu lána út lífstíðina sem er að koma niður á Íslendingum. Það kerfi sem við búum við í dag hefur verið sniðið af þeim flokkum sem hafa setið lengst við völdin. Það er nægur peningur til en honum er einfaldlega eytt í annað eða peningarnir ekki innheimtir. Það þótti til dæmis ekkert tiltökumál að styrkja bílaleigur um milljarð króna þó að þær þyrftu vissulega ekki á styrknum að halda.

Hér eru bara fá dæmi um aðgerðir þar sem væri hægt að auka tekjur ríkissjóð eða draga úr útgjöldum lágtekjuhópa: Auðlindir í eigu almennings og hækkun auðlindagjalda; leiguþak og leigubremsur; hvalrekaskatt á ofurgróða fyrirtækja sem þannig stemmir stigu við verðbólgu (greedflation); loka fyrir möguleika fyrirtækja að starfa í gegnum skattaskjól og herða fjármálaeftirlitið; hækka fjármagnstekjuskatt upp í tekjuskattsþrepið. Fjármagnstekjur eru ekkert annað en tekjur og ætti að skattleggja alveg eins og aðrar tekjur. Þetta myndi líka hafa jákvæð áhrif á verðbólgu. Með því að hrinda í gegn þessum aðgerðum væri hægt að endurbyggja velferðarsamfélagið, endurbyggja heilbrigðiskerfið og rétta við hag verst stöddu hópanna án nokkurra vandræða.
 
Að afmennska flóttafólk í pólitískum tilgangi
 
Síðustu misseri hafa heyrst harðar raddir m.a. frá Sjálfstæðismönnum sem gagnrýna útlendingamálin heiftarlega. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með þennan málaflokk að mestu sl. áratugi. Flokkurinn er að missa fylgi sitt á landsvísu vegna óheftrar spillingar fjármálaráðherra. Nú virðist flokkurinn hafa ákveðið að hörð stefna gagnvart hælisleitendum muni skila þeim atkvæðum í næstu kosningum. Lang flestir flóttamenn á Íslandi koma frá Úkraínu og Venesúela. Það er ágætt að að minna á að það var stefna ríkisstjórnarinnar að veita báðum þessum löndum sérstaka vernd sem tengist pólitískri stefnu gegn Rússlandi og Venesúela. Aðrir flóttamenn eru í rauninni frekar fáir þegar á heildina er litið. Að kvarta nú undan fjölgun flóttamanna sem tengist beint stefnu stjórnvalda er tvískinnungur.
 
Þegar forsætisráðherra er spurð út í málefni flóttamanna eru svörin vélræn og oftar en ekki sagt að málin séu í ferli. Forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í hennar stjórn sýna opinberlega enga samúð með fólki á flótta og taka enga ábyrgð á grimmri meðferð á flóttafólki. Það er talað um verkferla, og þar með er einn varnarlausasti hópurinn afmennskaður. Stjórnmálamenn gefa tóninn og kommentakerfið endurspeglar þessa afmennskun. Óheft rasísk komment sjást í auknum mæli og enginn í ríkisstjórninni segir nokkurn skapaðan hlut til að draga úr þessar vaxandi andúð á fólki sem á það ekki skilið. Það er engin tilviljun að harka er að færast í umfjöllun um flóttafólk og varnarlausum hópum er kerfisbundið att saman. Það dreifir athygli okkar frá því að núverandi stjórnvöld eru að grafa undan velferðarsamfélaginu og bilið milli fátækra og ríkra breikkar á meðan hyglt er undir sérhagsmuni.
 
Það er mikilvægt að færa umræðuna um flóttafólk á annað plan og leiðrétta allar þær rangfærslur um flóttafólk sem dreift er á netinu. Í grunnin er flóttafólkið ekki vandamálið. Stefna íslenskra stjórnmála sem heldur út sveltistefnu gegn fátækum er vandamálið.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí