Samkeppni á Íslandi er hjákátlegt grín

Skoðun Guðröður Atli Jónsson 11. sep 2023

Hvaða orð koma upp í hugann þegar Íslendingar hugsa um nauðsynjavörur, fjarskipta- og orkumarkaðinn, sjávarútveg, land- og sjóflutninga og húsnæðismarkaðinn? Fákeppni, aðgangshindranir, stjórnunar- og eignatengsl, markaðsbrestur. Flestir svokallaðir markaðir á Íslandi eru leiktöld og blekkingar sem byggja á kjánalegri trú á að markaðir komi ávallt með besta svarið,  að markaðir sjálfleiðrétti sig svona líkt og í Harry Potter-heimi þar sem hlutir gerast af því bara.

En er eitthvað haldbært sem hægt er að vísa í um að markaðir virki fyrir fjöldann? Ég sem íbúi þessa lands til 45 ára sé þess engin merki. Ég heyri mikið rætt um samkeppni og samkeppniseftirlit þessa dagana en hvar er samkeppni í dag á Íslandi? Kannski á atvinnumarkaði þar sem fólk frá láglaunasvæðum keppist við að ráða sig til vinnu á hinu svokallaða hálaunasvæði sem Ísland á að vera. Það er hins vegar blekking og auðvelt að fletta upp með því að bera saman kaupmáttarmælingar á milli annarra hálaunasvæða. Í Genf í Sviss eru lágmarkslaun um 50 prósent hærri þegar búið er að leiðrétta fyrir verðlagi og sköttum.

Er ég að segja að markaðir séu ónothæft verkfæri í samfélagi manna? Nei, því fer færri, markaðir eru góðir í ýmsu, til dæmis til að dreifa matvælum. Það er til dæmis þekkt úr mannkynssögunni að markaðir hafa verið verkfæri mannlegs samfélags í þúsundir ára fyrir iðnbyltingu og fyrir hugmyndir um kapítalisma og sósíalisma. Við getum tekið dæmi af borgum í Mesópótamíu „núverandi Írak“ eins og Uruk og Ur fyrir um 5 til 6 þúsund árum. Þar voru blómlegir vöruskiptamarkaðir með handverk og matvæli.

En munurinn á mörkuðum þess tíma og nútímamörkuðum er valddreifing því það voru margir framleiðendur og í raun voru flestir kaupendur líka framleiðendur. En hvernig eru markaðir í dag? Hvernig eru valdahlutföll á milli framleiðanda, söluaðila og kaupanda? Þessi hlutföll hafa augljóslega riðlast vegna þess að flestir framleiða ekki vörur því þess er engin þörf vegna tækniframfara. Það sem fjöldinn gerir er að selja vinnuframlag sitt til þess sem á atvinnutækin sem er í flestum tilfellum einkaaðili því við búum við kapítalíska samfélagsgerð hér á klakanum.

Þegar söluaðilar á vöru eru tveir á markaði eins og Hagar, Festi eða Eimskip og Samskip er það augljóst flestum sem vilja sjá og skilja að valdhlutföll á þannig markaði eru brengluð. Tökum nauðsynjavörumarkaðinn sem dæmi, þessir aðilar hafa náð að byggja upp aðgangshindranir með stærðarhagkvæmni, með því að nýta sér skipulagsvöld sveitarfélaga, með sjúku samspili einkafjárfesta og lífeyrissjóða, með sjúkri menningu í viðskiptalifun meðal eiganda og stjórnenda.

Það hljóta allir að sjá að þegar svo mikil völd eru búin að safnast saman og þau völd miskunnarlaust notuð til að búa til hærri og hærri hindranir, þá er allt tal um samkeppni hjákátlegt grín. Hvers vegna á fjöldinn að sætta sig við að hinir fáu vinni níðsverk á fjöldanum alla daga ársins? Þeir kúgi smærri framleiðendur, að þeir okri á neytendum, hvers vegna lætur fjöldinn vaða svona yfir sig, hvers vegna beita stjórnmálamenn sér ekki? Svarið er að valddreifing er ójöfn í okkar samfélagi.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí