Sósíalistar hafa sýnt að þeim er treystandi til að breyta

Skoðun Gunnar Smári Egilsson 23. nóv 2024

Skoðanakannanir sýna mikinn vilja kjósenda til breytinga. Það rímar við kannanir sem segja að sjö af hverjum tíu landsmönnum finnst samfélagið vera á rangri leið. Og það er í takt við fjölda kannana sem hafa leitt í ljós að stjórnvöld reka stefnu í öllum veigamestu málum sem er þvert á vilja almennings.

Sósíalistaflokkurinn hefur sýnt frá stofnun að hann getur staðið fyrir breytingum og er traustsins verður. Flokkurinn hefur verið virkur í endurreisn verkalýðshreyfingarinnar og byggt upp virk hagsmunasamtök almennings. Nægir þar að benda til Eflingar og Leigjendasamtakanna. Flokkurinn mælist nú fjórði stærsti flokkurinn í borgarstjórn og Sanna Magdalena sá borgarfulltrúi sem hefur staðið sig best að mati borgarbúa. Sósíalistar hafa umbreytt samfélagsumræðunni, bent á hvernig stéttaskipting grasserar, á frekju og græðgi auðvaldsins og hvernig stjórnvöld og Alþingi þjóna fyrst og fremst hagsmunum hinna fáu, ríku og valdamiklu. Þetta hefur flokkurinn gert í almennri umræðu, með skipulagningu mótmæla og með því að byggja upp Samstöðina, vettvang róttækrar samfélagsumræðu.

Þetta hefur Sósíalistum tekist án þess að sitja á þingi. Flokkurinn hefur haft meiri jákvæð áhrif á samfélagið en margir flokkar sem hafa setið á þingi, sumir lengi og með fjölmenna þingflokka.

Nú óska Sósíalistar eftir umboði kjósenda til að breyta Alþingi. Og þeir munu ganga til þeirra verka af sömu trúmennsku og einbeitingu og þeir hafa sýnt í öðrum verkum sem þeim er treyst fyrir. Sósíalistar sækja ekki umboð sitt til almennings til að færa það auðvaldinu og þjónum þess. Sósíalistar munu verða rödd almennings innan þings og ríkisstjórnar.

Sósíalistar hafa lagt fram ítarlega kosningastefnu, Betra plan fyrir Ísland. Þar má lesa um réttlátt skattkerfi, uppbyggingu öflugs húsnæðiskerfis sem þjónar almenningi, styrkingu heilbrigðis- og skólakerfa, varnir gegn spillingu, aukin lýðréttindi og annað sem þarf til að móta samfélagið að vonum og væntingum almennings. Við eigum gott samfélag skilið.

Ef þú vilt breytingar þarftu að stuðla að breytingum á Alþingi með atkvæði þínu. Besta leiðin til þess er að kjósa Sósíalista, xJ. Og það er ekki eftir neinu að bíða. Þú veist þegar allt sem þú þarft að vita um hina flokkana. Kynntu þér stefnu, dugnað og áræðni Sósíalista og kjóstu strax utan kjörfundar eða á kjörfundi á laugardaginn eftir viku.

Það kostaði baráttu kynslóða að færa okkur almennan kosningarétt, baráttu gegn frekju og yfirgangi auð- og valdastéttanna. Heiðrum þessa baráttu með því að kjósa með almenningi gegn þeim sem ætla sér að gleypa Ísland.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí