Stríðið í Úkraínu heldur áfram. Bandaríkjaþing hefur enn ekki samþykkt nýtt framlag til landsins uppá rúmlega 60 milljarða Bandaríkjadala (ca. kr. 8400 milljarða) og alls óvíst um framhald aðstoðar frá Bandaríkjunum. Tíminn er ekki að vinna með Úkraínu sem er miklu fámennara land en Rússland. Það er komin stríðsþreyta í Vesturlönd. Líklegt er að Rússnesk yfirvöld vilji bíða fram yfir forsetakosningar í Bandaríkjunum áður en samið veður um stríðslok. Forsetakosningar verða 5. nóvember 2024 og nýr forseti tekur við völdum í Bandaríkjunum 20. janúar 2025. Þangað til er líklegt að Rússland reyni að ná þeim svæðum í austur og suður Úkraínu þar sem rússneskumælandi íbúar eru í meirihluta eða a.m.k. fjölmennir. Rússar ráða nú um 20 prósent Úkraínu en hætta er á að yfirráðasvæði þeirra gæti orðið stærra, jafnvel 40 prósent. Stóra spurningin er nú hvort Úkraínumenn geti komið í veg fyrir frekari landvinninga Rússa?
Átök fyrir botni Miðjarðarhafs
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs halda áfram. Hætt er við að þessi átök breiðast út á svæðinu. Sérstaklega er áhyggjuefni ef stærstu löndin við Persaflóa, Íran og Sádi-Arabía blandast með beinum hætti inn í stríðið. Þó verður að teljast líklegra að Hezbollah sem er staðsett í Líbanon og stutt af Íran skerist í leikinn. Það myndi hinsvegar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Líbanon. Fyrir utan eyðileggingu og mannfall er líklegt að útbreiðsla stríðsins myndi meðal annars leiða til hækkandi verðs á olíu og gasi.
India-Middle East-Europe Economic Corridor
Til stóð að koma á fót svokallaðri India-Middle East-Europe Economic Corridor sem fer sjóleiðina frá Indlandi og landleiðina í gegnum Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Sádi- Arabíu, Jórdaníu, Ísrael og svo sjóleiðina til Evrópu.
Þetta verkefni var stutt af Bandaríkjunum og Evrópusambandinu og var mikilvægt fyrir Ísrael og liður í að koma á eðlilegum samskiptum við lykil Arabaríki. Ekki hefur hinsvegar tekist að koma á tveggja ríkja lausn þannig að Palestína verði sjálfstætt ríki við hliðina á Ísrael. Upp úr sauð svo með árás Hamas á Ísrael og svo þeim hörmungum sem fylgdu í kjölfarið. Framtíð India-Middle East-Europe Economic Corridor er nú í óvissu.
Spenna í Austur Asíu
Spenna ríkir í Austur Asíu milli Bandaríkjanna og Kína vegna Taívan, en ekki síður vegna Suður Kínahafs og hernaðaruppbygging heldur þar áfram. Bandaríkin hafa myndað bandalög með vinveittum ríkjum eins og AUKUS þar sem aðildarríki eru Ástralía, Bretland og Bandaríkin og Quad þar sem aðildarríkin eru Ástralía, Indland, Japan og Bandaríkin. Þetta er liður í að styrkja stöðu sína þessara ríkja gagnvart Kína.
Annað hugsanlegt átakasvæði sem minna er talað um eru norðurslóðir. Þar eiga Rússar mikinn rétt vegna langrar strandlengju og vegna landgrunns síns á svæðinu og Kína styrkir nú samband sitt við Rússland. Siglingaleiðir eftir svokölluðu Northern Sea Route er lykilatriði fyrir Kína og fyrir þá er samvinna við Rússland grundvallaratriði.
Hagsmunir á Norðurslóðum
Rússar halla sér nú í auknum mæli að Kína m.a. vegna átaka og vaxandi deilna við Vesturlönd. Kína hefur mikla hagsmuni á norðurslóðum, ekki bara aðgang að auðlindum Rússlands, heldur siglingaleiðum um svokallað um the Northern Sea Route. Kína er útflutningsdrifið hagkerfi og mikið af útflutningsvörum landsins fer nú í gegnum Strait of Malacca milli Malasíu og Indónesíu. Þetta er kannski stærsta efnahags- og öryggisvandamál Kína. Nauðsynlegar vörur til Kína, þar á meðal olía frá Persaflóanum fer um þessa leið.
Lokist Strait of Malacca getur fljótalega orðið olíuskortur í Kína sem myndi trufla hagkerfið með alvarlegum afleiðingum. Til að komast svo áfram til Evrópu þarf að fara í gegnum Súesskurðinn. Það er því engin furða að Kína leggi áherslu the Northern Sea Route frá Vladivostok til Murmansk og þaðan til Evrópu og Norður Ameríku. Þessi leið er sögð geta stytt siglingaleiðir um ca. 10 daga.
Kína sem Near Arctic State
Kína skilgreinir sig nú sem Near Arctic State og vill greinilega gera sig gildandi á Norðurslóðum. Lykil atriði fyrir Kína að vera í samstarfi við Rússland því þessi siglingaleið liggur norður eftir Rússlandi og enginn kemst þá leið án leyfis Rússlands sem hefur undanfarið aukið hernaðarviðbúnað sinn á þessu svæði.
Auðlindir á Norðurslóðum
Auðlindir á Norðurslóðum, þar á meðal gas, olía og ýmsir málmar eru að verða aðgengilegir vegna hlýnunar jarðar. Það má deila um það að hve miklu leyti hlýnun jarðar er af mannavöldum, en ef hún heldur áfram, verður auðveldara að nýta þessar auðlindir.
Margar þjóðir munu gera tilkall til auðlinda Norðurslóða. Þar eiga væntanlega aðildarríki Norðurskautsráðsins mestan rétt en þau eru Kanada, Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur, Svíþjóð, Rússland og Bandaríkin. Þegar Svíþjóð fær aðild að NATO verða öll aðildarríkin Norðurskautsráðsins NATO ríki nema Rússland. Kína er meðal áheyrnarríkja Norðurskautsráðsins. Þarna er líklegt að spenna milli stórveldanna þriggja, Bandaríkjanna, Kína og Rússlands fari vaxandi og mikilvægi staðsetningar Íslands hernaðarlega fer nú vaxandi.
Ísland er NATO ríki og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Ísland þarf samt sem áður að leitast við að eiga bærileg samskipti við öll stórveldi sem koma að málum á norðurslóðum. Íslensk stjórnvöld hafa veikt sína stöðu gagnvart Rússlandi með því að loka sendiráði sínu í Moskvu sem önnur NATO ríki hafa ekki gert. Ísland hefur ekki slitið stjórnmálasambandi við Rússland en lokun sendiráðsins í Moskvu getur torveldað samskipti í framtíðinni.
Til lengri tíma litið þarf Ísland að vera í samskiptum við Rússland á norðurslóðum, ekkert síður en t.d. við Dani vegna Grænlands og svo þurfum við áfram góð samskipti við Kanada og Bandaríkin og önnur ríki sem eiga hagsmuni á svæðinu. Rússland hefur risavaxna efnahagslögsögu og landgrunn þeirra að norðurpólnum þýðir að þeir hafa mikinn rétt á þessu svæði.
Kína sem ekki liggur að norðurpólnum er löngu búið að sjá þetta og myndar bandalag með Rússlandi. Kína er líka að auka sína viðveru á norðurslóðum með rannsóknum og með risaverkefni sínu Belti og braut (e. Belt and road initiative). Kína getur líka orðið fyrir miklum áhrifum vegna bráðnunar íss á norðurslóðum. Hvaða áhrif myndi t.d. hækkun á yfirborði sjávar hafa á borgir eins Shanghaí? Færi borgin undir sjó?
Grænland er mikilvægt í þessu tafli en Danir eiga að gæta hagsmuna Grænlands á Norðurslóðum. Frægt er tilboð Donald Trump Bandaríkjaforseta árið 2019 til stjórnvalda um kaup á Grænlandi. Því tilboði var hafnað bæði af Dönum og Grænlendingum, en það sýnir hvað norðurslóðir eru orðnar mikilvægt svæði fyrir stórveldin.
Danmörk er í NATO og Bandaríkin hafa herstöð á Grænlandi. Öll umsvif Kína á Grænlandi væri eru þyrnir í augum Bandaríkjanna. Danir sem NATO ríki þurfa að taka tillit til þess nú þegar samskipti Bandaríkjanna og Kína eru stirð og segja má að þegar ríki kalt stríð milli Bandaríkjanna og Kína.
Hilmar Þór Hilmarsson er prófessor við Háskólann á Akureyri